Vandræðaástand blasir við í fangelsismálum á Íslandi. 80 til 120 milljónir vantar upp á framlögin í nýju fjárlagafrumvarpi til að reka fangelsin eins og verið hefur. Vegna niðurskurðar þarf að loka stofnunum og er horft til Akureyrar í þeim efnum.

Vandræðaástand blasir við í fangelsismálum á Íslandi. 80 til 120 milljónir vantar upp á framlögin í nýju fjárlagafrumvarpi til að reka fangelsin eins og verið hefur. Vegna niðurskurðar þarf að loka stofnunum og er horft til Akureyrar í þeim efnum. Ekki er hins vegar neitt útlit fyrir að föngum muni fækka á næstunni eða dómar léttast.

Ef ekki verða gerðar neinar breytingar á því með hvaða hætti dæmdir menn afplána dóma sína stefnir því í óefni. Nú þegar bíða 200 manns þess að hefja afplánun í íslenskum fangelsum. Alvarleiki brots mun ráða því hversu langur biðtíminn er.

Það er ákaflega hæpið að dæmdir menn bíði þess að afplánun hefjist og spurning hvort ekki sé um að ræða brot á mannréttindum. Svipting frelsis er ekki léttvæg aðgerð. Með fangelsun er einstaklingur tekinn úr umferð í tiltekinn tíma. Líf hans er sett í bið. Ef hann neyðist til að bíða eftir því að geta hafið afplánun þýðir það í raun að dómurinn lengist sem því nemur.

Það þarf því að taka til alvarlegrar athugunar hvort ekki er hægt að haga afplánun dóma með öðrum hætti en nú er gert og til dæmis leggja ríkari áherslu á samfélagsþjónustu og meðferðarúrræði eins og Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir í Morgunblaðinu í gær. Það myndi ef til vill ekki uppfylla kröfur um refsingu, en gæti orðið vatn á myllu betrunar. Slíkar lausnir eiga hins vegar ekki alltaf við og hljóta að fara eftir eðli brota.

Kostnaðurinn við vistun fanga vekur einnig til umhugsunar. Í máli Páls Winkels í umfjöllun Morgunblaðsins í gær kemur fram að hver fangi kosti ríkið 24 þúsund krónur á dag. Þetta er þrisvar sinnum meira en greitt er með dvalarrými á elliheimili og rúmlega sex þúsund krónum meira en borgað er með einstaklingi í hjúkrunarrými. Getur það verið eðlilegur munur?