Aðalsteinn Baldursson.
Aðalsteinn Baldursson.
Aðalsteinn Á. Baldursson skrifar um mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landsbyggðina: "Það er alveg sama hvernig litið er á málið, flutningur innanlandsflugvallarins úr Vatnsmýri hefur nánast eingöngu ókosti í för með sér."

EKKI er ýkja langt um liðið síðan gerð var ný skoðanakönnun meðal almennings í landinu varðandi viðhorf hans til veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri. Er skemmst frá því að segja að sjötíu prósent landsmanna vilja að völlurinn verði áfram í Vatnsmýri og er það mér sem landsbyggðarmanni sérstakt gleðiefni að loksins skuli meirihluti íbúa í Reykvík vera þessarar skoðunar.

Í Reykjavík, sjálfri höfuðborginni, hefur andstaðan við flugvöllinn jafnan verið mest, svo einkennilegt sem það nú er. Mér hefur alltaf fundist furðulegt, að sumu leyti vegna þess að ég starfa að atvinnu- og verkalýðsmálum, að borgaryfirvöld í Reykjavík skuli vera tilbúin til að fórna þeim hundruðum starfa sem tengjast flugstarfseminni í Vatnsmýri. Mér skilst að þau séu á sjötta hundrað. Og ástæðan: Jú, það þarf að byggja hús á svæðinu! Enda þótt borgaryfirvöld hafi gert samkomulag við ríkisvaldið um að ýta deilumálinu um flugvöllinn til hliðar um sinn þætti mér meiri sómi af því ef þau tækju af skarið og lýstu því yfir að borgin hygðist uppfylla höfuðborgarskyldu sína gagnvart landsmönnum öllum hér eftir sem hingað til með öflugum innanlandsflugvelli á sama stað eins og verið hefur.

Minna öryggi

Vegna starfa minna að verkalýðsmálum þarf ég að fljúga reglulega til Reykjavíkur. Fyrir okkur á svæðinu í kringum Húsavík hafði það veruleg óþægindi í för með sér þegar flug lagðist af milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Annars vegar hefur ferðatími fram og til baka lengst um tvær klukkustundir, þar sem um klukkustund tekur að aka til Akureyrar við bestu aðstæður. Hins vegar er afleiðingin minna öryggi, sem akstur til og frá Akureyri veldur, einkum í snjó og hálku.

Aukið óhagræði

Það gefur augaleið að brottflutningur Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri hefði í för með sér aukið óhagræði fyrir alla aðila. Hann myndi lengja ferðalög fólks nema flugvöllurinn yrði fluttur út í Skerjafjörð. Hann myndi af sömu ástæðum valda auknum ferðakostnaði ef aka þyrfti til Reykjavíkur frá flugvelli á nýjum stað. Síðast en ekki síst myndi brottflutningurinn úr Vatnsmýri draga verulega úr öryggi sjúklinga á landsbyggðinni, sem flytja þarf með flugi á sjúkrahús í Reykjavík, þar sem hver mínúta skiptir máli.

Höfuðborg og aðal-viðskiptamiðstöðin

Það er alveg sama hvernig litið er á málið, flutningur innanlandsflugvallarins úr Vatnsmýri hefði nánast eingöngu ókosti í för með sér. Reykjavík er höfuðborg og aðalviðskiptamiðstöð landsins, þar er nánast öll stjórnsýslan saman komin og þar eru mörg fyrirtæki sem byggja starfsemi sína að verulegu leyti á þjónustu við landsbyggðina og greiðum flugsamgöngum til og frá borginni.

Ég vil að lokum benda á að búið er að gera Reykjavíkurflugvöll upp fyrir marga milljarða króna með endurgerð flugbrauta, endurnýjun tækni- og ljósabúnaðar, sem starfseminni fylgir, og frágangi á umhverfi flugvallarins.

Landsmenn hafa ekki efni á því að kasta þeim fjármunum á glæ.

Höfundur er formaður Framsýnar – stéttarfélags Þingeyinga.