Þúsundir Íslendinga hafa tapað miklu fé í peningamarkaðssjóðum bankanna, sem ekki nutu sömu tryggingar ríkisins og venjulegar bankainnistæður. Athyglisverð mynd er að verða til af starfsemi peningamarkaðssjóða hinna föllnu viðskiptabanka.

Þúsundir Íslendinga hafa tapað miklu fé í peningamarkaðssjóðum bankanna, sem ekki nutu sömu tryggingar ríkisins og venjulegar bankainnistæður. Athyglisverð mynd er að verða til af starfsemi peningamarkaðssjóða hinna föllnu viðskiptabanka. Fjölmiðlar hafa nánast þurft að toga með töngum út úr nýju bönkunum upplýsingar um eignasamsetningu sjóða gömlu bankanna undir lokin. Nú liggur hún fyrir.

Í fréttaskýringu Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu í dag kemur fram að í öllum bönkunum var fjárfestingum peningamarkaðssjóðanna beint að verulegu leyti í skuldabréf fyrirtækja, sem ýmist áttu bankana eða voru tengd eigendum þeirra.

Þetta vekur óneitanlega spurningar um hvort stjórnendur peningamarkaðssjóða bankanna hafi haft hagsmuni viðskiptavina sinna, sem lögðu fé í þá, að leiðarljósi eða hvort þeir hafi verið nýttir til að hjálpa eigendunum.

Pétur Aðalsteinsson, forstöðumaður eignastýringar hjá VBS fjárfestingarbanka, sagði í grein hér í blaðinu í gær: „Í umhverfi mikils lausafjárskorts er til þess hvati [að halda peningamarkaðssjóðunum að innistæðueigendum] og mikilvægt að skoðað sé hvort bankarnir hafi sést fyrir í viðleitni sinni til þess að sinna fjármögnunarþörfum tengdra aðila og veigamestu viðskiptavina sinna og ef til vill lagt um of áherslu á sölumennsku fremur en skynsama ráðgjöf.“

Pétur bendir á að peningamarkaðssjóðirnir hafi haft óeðlilega mikið vægi í rekstri sjóða bankanna. Þá hafi bankarnir veitt villandi og óljósar upplýsingar um eignasamsetningu þeirra og ávöxtunarárangur. Þá telur Pétur að eftirlit með sjóðunum hafi brugðizt og á þá væntanlega við að Fjármálaeftirlitið hafi ekki reynzt hlutverki sínu vaxið.

Allt þetta þarf að skoða rækilega, eigi almenningur einhvern tímann í framtíðinni eftir að vilja leggja fé sitt í peningamarkaðssjóði á ný. Og sömuleiðis þarf að upplýsa það, sem enn liggur ekki fyrir; hvernig samsetning sjóðanna breyttist á síðustu mánuðunum í starfsemi þeirra. Jókst þá vægi skuldabréfa eigenda og tengdra fyrirtækja, þrátt fyrir augljósa áhættu?

Jafnvel þótt ekkert saknæmt hafi átt sér stað, er það lágmarkskrafa að almenningur fái að vita hvernig farið var með sparifé hans.