Öflugur Barði &bdquo;Bang Gang&ldquo; Jóhannsson hefur verið að kynna síðustu plötu sína, <strong> Ghosts from the Past</strong> , með tónleikum víðsvegar um Evrópu að undanförnu.
Öflugur Barði „Bang Gang“ Jóhannsson hefur verið að kynna síðustu plötu sína, Ghosts from the Past , með tónleikum víðsvegar um Evrópu að undanförnu.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

„TILEFNIÐ er nú aðallega það að Bang Gang hefur ekki leikið á tónleikum í Reykjavík í tvö ár,“ segir Barði Jóhannsson, Bang Gang-stjóri, um ástæðu þess að hann ætlar að svipta upp tónleikum á NASA á morgun.

„Undanfarið höfum við verið að fylgja síðustu plötu, Ghosts from the Past , eftir með tónleikum um meginland Evrópu og því tilvalið að enda þann rúnt með tónleikum í höfuðborginni.“

Þessir „við“ eru ásamt Barða þeir Nói Steinn Einarsson, Arnar Guðjónsson, Hrafn Thoroddsen og Stéphane Bertrand.

„Arnar og Nóa fékk ég lánaða úr hljómsveitinni Leaves,“ segir Barði en Arnar á athyglisverðan feril að baki og lék á unglingsárum með dauðarokkshljómsveitum á borð við Inflammatory, Condemned og Sororicide.

Mörg járn í eldinum

Barði segir viðtökur hafa verið framar vonum, bandið sé afar öflugt enda liðsmenn allir forsvarsmenn hljómsveita eða með eigin verkefni í gangi.

„Þetta hefur virkað stórkostlega verð ég að segja. Frábært að hafa Arnar með sér t.d., hann er framúrskarandi söngvari og slyngur gítarleikari. Þessi hópur tónlistarmanna nær mjög vel saman á sviðinu.“

Að vanda er ýmislegt framundan hjá Barða. Hann er t.a.m. að taka upp plötu með hljómsveitinni Ourlives sem mun sjá um að hita upp á tónleikunum með órafmögnuðu setti.

„Þá er að koma út myndband við lagið „The World Is Gray“ en það verður næsta smáskífa af plötunni. Svo er ég að semja tónlist við sjónvarpsþættina Réttur . Einnig kemur út á næsta ári plata sem ég vann í samstarfi við írskan tónlistarmann, Craig Walker. Sú vinna hófst með því að við byrjuðum að semja saman fyrir sólóplötur hvor annars en það endaði á því að verða sérstök plata. Þá er ég líka að vinna tónlist fyrir Þjóðleikhúsið.“

Barði stöðugi

BARÐI segir að Ghosts from the Past hafi gengið mjög vel, um 20.000 eintök hafi nú selst.

„Alla mínar plötur virðast seljast í nákvæmlega þessum eintakafjölda, einhverra hluta vegna. Þessi plata er því búin að ganga samkvæmt áætlun getum við sagt. Hinar eru svo í stöðugri sölu, um 1000 til 2000 eintök fara af þeim árlega.“

Barði hefur verið á samningi sem höfundur hjá E.M.I. Publishing risanum í fimm ár en sagði á dögunum skilið við hann og gekk öðrum slíkum á hönd, Universal. Hann segir að þessar sölutölur á bakvið Bang Gang plöturnar þyki það góðar að forsvaranlegt sé að hann haldi sínu striki.

„Þessi stöðuga sala á eldri titlum hefur þá mikið að segja, auk þess sem lög rata stöðugt í auglýsingar, bíómyndir og slíkt.“

Tónleikarnir hefjast kl. 21.30. Miðaverð er 999 krónur og gestir geta valið sér annaðhvort Something wrong eða Haxan sem kaupbæti.