Elín Steinunn Árnadóttir fæddist á Hofstöðum í Stafholtstungum 31. desember 1917. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi 6. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Árni Þorsteinsson frá Örnólfsdal í Þverárhlíð, bóndi og síðar verslunarmaður í Reykjavík, f. 5. 9. 1889, d. 16.8. 1974 og Hallfríður Ólafsdóttir húsmóðir frá Skógskoti í Miðdölum Dalasýslu, f. 6.4. 1887, d. 25.8. 1968. Auk Elínar eignuðust þau þrjá syni, þeir voru Þorsteinn, f. 10.9. 1915, d. 30.11. 1916, Skarphéðinn, f. 22.9. 1919, d. 18.7. 1988, og Þorsteinn Ólafur, f. 1.9. 1922, d. 9.9. 1973.

Elín giftist 27.5. 1944 Jónasi Hallgrímssyni vélvirkja frá Patreksfirði, f. 26.12. 1908, d. 13.8. 1996. Börnin urðu sjö: Árni Bertel, f. 27.5. 1937, d. 29.12. 1938, Magnús, f. 20.1. 1944, kvæntur Sigurbjörgu Sigurðardóttur, börn þeirra eru Magnús Logi og Anna Eygló. Arngrímur, f. 24.2. 1945, d. 27.11. 1999, kvæntur Önnu Maríu Óladóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Stefán Jóhann, Árni Hrannar, Margrét og Jónas Haukur. Sonur Arngríms með Finnborgu Bettý Gísladóttur er Tómas. Guðrún Björk, f. 26.2. 1947, dóttir hennar með Atla Rafni Kristinssyni er Elín Birna Bjarkar. Halldór, f. 28.3. 1948, kvæntur Sólrúnu Ó. Siguroddsdóttur. Börn Halldórs af fyrra hjónabandi með Erlu Friðriksdóttur eru Jónas, Hlynur og Berglind Huld. Synir Sólrúnar eru Haukur, Tryggvi og Jónas Oddur. Hallfríður, f. 15.5. 1952, gift Þórði Björnssyni, sonur þeirra er Tómas Auðunn, börn Hallfríðar af fyrra hjónabandi með Eiríki Þorlákssyni eru Elvar Daði og Steinunn Anna. Auk Tómasar eru börn Þórðar, Sölvi, Björn Lúðvík, Steinunn Lilja og Heiðdís Anna. Árdís, f. 24.8. 1953, gift Hirti Sandholt, börn þeirra eru Anna Lísa, Fríða Björk, Jón Steinar og Hjördís Lind. Afkomendur Elínar og Jónasar eru í dag fimmtíu talsins.

Elín fæddist að Hofstöðum Stafholtstungum en fluttist ung með fjölskyldu sinni að Tandraseli í Borgarfirði. Þegar Elín var um 10 ára gömul fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur. Bjó hún fyrst á Vesturgötu og síðan á Öldugötu. Elín og Jónas hófu búskap á Akri, Bræðraborgarstíg 25. Þau reistu sér síðar hús að Skeiðarvogi 149 og fluttu þangað í júní árið 1953 og bjó hún þar alla tíð þar til hún flutti í Sóltún í desember 2004. Foreldrar Elínar fluttu með fjölskyldunni í Skeiðarvoginn og bjuggu þar með þeim til dauðadags. Elín hlaut sína barna- og unglingaskólamenntun í Miðbæjarbarnaskólanum. Hún vann við saumastörf í Sjóklæðagerðinni þar til hún giftist. Eftir það helgaði hún líf sitt fjölskyldunni. Á heimili þeirra hjóna ríkti einstök gestrisni, voru allir aufúsugestir og oft margt um manninn.

Elín var mjög tónelsk, vel lesin og fjölfróð og sama hvert málefnið var þá kom maður sjaldan að tómum kofunum. Meðan sjónin entist fór hún t.a.m. aldrei að sofa á kvöldin fyrr en hún hafði lesið í bók. Í eldhúsinu hafði hún ávallt landakort við höndina og ef hún heyrði í fréttum af stöðum í heiminum sem hún þekkti ekki fletti hún þeim upp. Segja má að hún hafi ferðast um allan heim úr eldhúsinu sínu. Síðustu fjögur árin átti Elín heimili sitt á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.

Útför Elínar fer fram frá Langholtskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Látin er í Reykjavík tengdamóðir mín Elín S. Árnadóttir.

Mig langar að minnast hennar í nokkrum orðum og kveðja þessa merkiskonu.

Elín var ein þessara hvunndagshetja, sem unnu sín verk í hljóði og sinntu þeim af trúmennsku. Hún setti alltaf aðra í fyrsta sæti og lét hagsmuni annarra og vellíðan sitja í fyrirrúmi.

Ég var ungur að árum þegar ég kynntist eiginkonu minni, Árdísi. Við fórum að draga okkur saman og ég varð fljótlega fastagestur á heimilinu í Skeiðarvoginum og sýndi hún mér alla tíð hlýhug og vinsemd.

Elín var góðhjörtuð kona, sem öllum vildi gott. Hún var vinamörg og margir komu til hennar í heimsókn eða hringdu í hana.

Frændrækin var Elín með afbrigðum hún var aldrei glaðari en þegar fullt var af fólki í kring um hana. Þannig vildi til, að Jónas átti afmæli á annan í jólum og þá var alltaf mikil veisla haldin í Skeiðarvoginum.

Elín þurfti að ganga í gegnum erfiðan sjúkdóm, þar sem gigt er annars vegar. Gigtin lék Ellu illa og þurfti hún að gangast undir margar skurðaðgerðir sem léttu henni aðeins verki og þjáningu. Sama var hversu veik af gigtinni hún var, alltaf gekk hún í verkin sín.

Elín var vel lesin og hafði víðtæka þekkingu á mörgum hlutum, en þá þekkingu hafði hún aflað sér við lestur bóka hvenær sem tími gafst til. Þegar mest var að gera á heimilinu, nýtti hún næturstundir til að lesa, og lét hún það ekki koma niður á fótaferð morguninn eftir, heldur var hún komin á fætur fyrst allra á heimilinu.

Nokkru áður en ég kynntist Árdísi hafði ég kynnst bróður hennar Arngrími, sem réðst að Írafossstöð sem vélstjóri, en þar bjó ég í foreldrahúsum. Hann er nú látinn langt um aldur fram. Slíkur ágætismaður var hann að tekið var eftir. Eftir á að hyggja, má gjörla sjá hvernig mannkostagenin hafa flust yfir frá þeim hjónum Elínu og Jónasi til barna þeirra, en þau voru sex sem lifðu til fullorðinsára.

Er þetta allt hið besta fólk.

Síðustu fjögur árin bjó Elín á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, þar sem hún naut frábærrar umönnunar alls starfsfólks. Auðheyrt var á henni, hve henni þótti vænt um allt starfsfólkið og hvað hún var þakklát fyrir þá góðu aðhlynningu sem hún fékk í Sóltúni.

Vil ég fyrir hönd fjölskyldunnar þakka öllu starfsfólkinu fyrir frábæra umönnun, hlýhug og vinskap sem það sýndi jafnt Elínu sem aðstandendum hennar.

Ég á Elínu mikið að þakka og efast ég um að ég búi yfir þeim orðaauði sem þarf til að lýsa þakklæti mínu og virðingu fyrir þessari stórkostlegu konu, sem aldrei vildi neinum neitt nema allt hið besta, og gerði sér far um að virða alla á þeirra forsendum og lét sér þykja vænt um alla jafnt.

Gengin er góð manneskja, sem margir minnast með söknuði.

Blessuð sé minning Elínar Árnadóttur.

Hún hefur nú fengið hvíldina frá hinu daglega amstri okkar mannanna eftir langa og innihaldsríka ævi.

Ég veit, að á móti henni taka ástvinir hennar og bera hana á gullstól inn í himnana sem geta ekki annað en boðið jafngóðar sálir og Elín var velkomnar.

Hvíli hún í friði og ljósi Guðs.

Hjörtur Sandholt.

Elsku besta amma mín.

Nú er komið að kveðjustund og þínu langa og farsæla ævihlaupi lokið. Þú kvaddir okkur í miðri aðventunni í desember sem svo sannarlega var mánuðurinn ykkar afa, þú fædd á gamlársdag og afi á öðrum degi jóla. En tími þinn var kominn og ég veit að þér líður vel á þeim stað sem þú ert á í dag.

Þú varst svo mörgum hæfileikum gædd, umburðarlyndið þitt var ótrúlegt, nærveran þín var einstök, allir áttu jafnan stað í hjarta þínu, þú fórst aldrei í manngreinarálit. Þitt heimili var heimili allra og frábær húmor og glaðleiki einkenndi allt þitt fas. Allar frábæru minningarnar úr Skeiðarvoginum, þar sem var alltaf glatt á hjalla. Þar spiluðum við, þar bakaðir þú alls konar kræsingar og hélst ótrúlegt heimili fyrir okkur öll. Við barnabörnin vorum öll þarna eins og heimalningar. Oft hef ég hugsað til þess hvernig í veröldinni þið afi gátuð byggt svona glæsilegt hús á þessum árum þegar tíðin var önnur. En þið byggðuð þarna athvarf (ættarheimili) okkar og á húsið djúpan stað í hjarta mínu.

Þinni jarðvist er lokið, þú færð loks að hvíla lúin bein, ég veit að það verður tekið vel á móti þér á betri stað, allir þeir ættingjar og vinir sem þú áttir og hafa fylgt þér taka þér opnum örmum, enda voru allir vinir þínir. Ég verð ævinlega stoltur af að hafa átt þig sem ömmu og á þér margt að þakka, svo heilsteypt og ótrúleg amma sem þú varst. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir þá leiðsögn sem þú hefur veitt mér og vonandi get ég komið þeim gildum áfram til afkomenda minna. Ég var lánsamur að verða samferðamaður þinn og er sannfærður um að við munum hittast á ný og ég mun leggja mig allan fram um að varðveita þau gildi og þá hegðun sem þú kenndir mér.

Guð blessi þig elsku amma mín, takk fyrir allt.

Hlynur.

Elsku amma mín.

Ferðinni þinni hér er lokið.

Þú ert farin áfram og komin til afa.

Ég vil minnast þín, elsku amma, með nokkrum orðum.

Því ég get því miður ekki fylgt þér síðasta spölinn.

En þegar ég sit hér fyrir framan tölvuna og ætla að skrifa finn ég að orðin eru ekki nógu sterk til að lýsa því hvernig persóna þú varst og hvað mér þótti vænt um þig og hvað það var yndislegt að hafa þig í lífi mínu.

Ég á þér svo mikið að þakka.

Margar stundir sem ég aldrei get gleymt og aldrei get þakkað nóg fyrir.

Þakklæti mitt er óendanlegt.

Skeiðó, besti staðurinn á jörðinni. Þú og afi, sem gáfuð mèr öryggi. Stundirnar okkar saman. Í eldhúsinu, í garðinum og gönguferðirnar út í Kron. Þú varst sú sterkasta. Ég vissi það. En ég var samt alltaf svo hrædd um að missa þig.

Ég man þegar við gengum stundum saman út í búð. Einu sinni man ég að það var vetur og hálka. Ég var svo hrædd um að þú myndir detta. Og þess vegna hljóp ég aðeins á undan og passaði uppá að finna alla hálkulausu blettina í malbikinu.

„Amma! Hèr er autt! Labbaðu hér!! Og á sumrin skoðaði ég skuggann okkar þegar við gengum saman.

Stundum stoppuðum við í blómabúðinni og skoðuðum blómin. Það var alltaf tekið vel á móti þér allstaðar. Enda varst þú svo kurteis og virðuleg í framkomu. Alltaf svo yndisleg við alla. Gerðir aldrei upp á milli, Ég man hvað ég var stolt yfir að þú varst amma mín.

Á sunnudögum var oft lambasteik, og sunnudags-eftirréttur. Maturinn þinn. Heimsins besti.

Það var alltaf nógu að gera hjá þér. Þú vildir alltaf hafa eitthvað fyrir stafni.

Amma mín. Takk fyrir að kenna mér að meta smáhlutina í hversdagsleikanum.

Að kenna mér að lifa lífinu frá þínu sjónarhorni. Að sýna mér það fallega í lífinu. Ást þína og stolt yfir því að vera ríkasta kona í heimi.

Þú áttir okkur. Það var allt sem þú þurftir.

Elsku amma í Skeiðó...

Takk fyrir allt. Hjartað mitt geymir allt frá þér.

Alltaf.

Anna Lísa Sandholt, Noregi.

Elín tengdamóðir mín er látin. Góð kona gengin. Frá því ég hitti hana fyrst hefur mér liðið vel í návist hennar. Hún laðaði fólk að sér og umvafði alla í kring um sig og veitti þeim kærleik, kærleik sem var óþrjótandi. Hún var þungamiðja fjölskyldunnar. Allir, ungir sem aldnir, áttu leið í Skeiðarvoginn og hún naut þess að fá alla til sín.

Í Sóltúni naut hún frábærar umhyggju starfsfólks og varla leið dagur án þess að einhverjir úr fjölskyldinni litu til hennar. Það var henni mikils virði og lét hún það óspart í ljós.

Að leiðarlokum þakka ég Ellu samfylgdina. Ég er ríkari af að hafa þekkt hana.

Sólrún.

Elsku amma.

Hvernig er hrein og fölskvalaus ást? Kann ekki orðin, en í minni alfræðiorðabók stendur Amma Ella.

Hvernig lýsir maður í orðum tilfinningum sem lýsa dýpsta kærleik og væntumþykju? Ég veit það ekki, en þannig er mér innanbrjóst gagnvart þér amma mín.

Amma, á síðustu stundum okkar sagði ég þér að ég ætlaði í mínu lífi að reyna að bera þína visku, þína ást og þitt ljós áfram í mínu lífi. Það er ærið lífsverk í sjálfu sér, en ávöxturinn er ríkulegur eins og þú, amma mín, sýndir í verki. Elsku amma, margt í tilveru minni og mínu lífi á ég þér að þakka. Hjarta þitt er stórt, flestum þeim sem þér hafa kynnst, finnst þeir eiga stóran hluta af því, einir. Þetta lýsir sál þinni og hjartalagi, það er óendanlega stórt og alltaf pláss fyrir meira. Þín lund og lífsskoðanir innihalda allt sem fullkomin mannleg reisn býr yfir.

Takk fyrir amma að leyfa mér að njóta þín og alls þessa. Ég mun eftir minni bestu getu bera ljós þitt áfram í mínu lífi og starfi. Takk fyrir allt, elsku amma mín, ég elska þig. Ég ber jafnframt bestu kveðjur frá öllum mínum, sem hafa fengið að njóta þín. Hafðu það gott í þeirri för sem þú hefur lagt upp í.

Þinn

Jónas Halldórsson.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð ömmu sem var alla tíð verið stór hluti af mínu lífi. Ég var það lánsamur að fá að alast upp í Skeiðarvogi 149, húsinu sem afi og amma byggðu og hefur verið samkomustaður fjölskyldunnar alla tíð. Þar hafa nánast öll börn og barnabörn ömmu og afa búið til lengri eða skemmri tíma, ásamt fleiri ættingjum. Því eru tengsl milli okkar frændsystkinanna og barna ömmu og afa mjög náin. Þetta eigum við ömmu og afa að þakka.

Ég á margar góðar minningar um ömmu. Ég man þegar ég var lítill og hún var að kenna mér Faðirvorið. Seinna þegar ég varð eldri kenndi hún mér vísur eftir Káin, sem hún hafði svo gaman af. Ég man eftir kennaraverkfalli, þar sem við frædurnir og vinir okkar héldum til hjá ömmu og spiluðum tölvuleiki og hún grillaði samlokur ofan í okkur. Það voru allir velkomnir til hennar. Enda var hún líka nokkurs konar amma vina okkar. Hún amma gerði bestu brúntertur í heimi, sem kláruðust alltaf fljótt. Svona var hún, gaf endalaust af sér og hugsaði fyrst og fremst um að öðrum liði vel. Svo ef hún þáði af manni minnsta greiða, eins og far til læknis, þá fannst henni hún þurfa að launa það margfalt. Það er þó ljóst að amma gaf mun meira af sér heldur en nokkru sinni var hægt að endurgjalda.

Það er erfitt að koma orðum að því hve mikilvæg amma hefur verið mér. Hún var svo góð, svo hlý og bjó yfir miklum kærleika. Amma kenndi mér svo margt og ég á henni mikið að þakka. Það er því fyrst og fremst þakklæti sem kemur upp í hugann við leiðarlok ömmu. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að fylgja henni öll þessi ár. Minning hennar lifir sterkt og ég mun gera mitt besta til að bera kærleikann sem hún bjó yfir til minna barna. Blessuð sé minning ömmu.

Elvar Daði Eiríksson.

Sofðu unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Svona hefst eitt af ljóðum Jóhanns Sigurjónssonar. Þessa vögguvísu ásamt sálminum „Ó, Jesú bróðir besti“ söngstu oft fyrir mig á kvöldin, þegar ég bjó hjá þér og afa sem barn. Þú varst svo þolinmóð og söngst lögin mörgum sinnum allt þar til ég hvarf inn í draumalandið. Ó, hvað það var dásamlegt að sofna út frá söngnum þínum! Og hvað þú bjóst yfir mikilli þolinmæði og ró, ekki bara við mig, heldur við öll hin barnabörnin þín líka. Ég varð alltaf svo glöð þegar ég vissi, að mamma hafði pantað farseðla til Íslands. Ég taldi alltaf dagana fram að brottfarardegi með því að merkja inn á heimagert dagatal. Spennt krossaði ég við hvern daginn á fætur öðrum og þegar við loksins lentum í Keflavík varst þú fyrsta manneskjan sem ég sá. Þar stóðst þú utan við glervegginn og fylgdist með okkur koma niður í komusalinn. Þarna stóðst þú og veifaðir til mín, oft í fylgd einhverra móðursystkina minna.

Sumrin voru spennandi og innihaldsrík á Íslandi. Það var alltaf eitthvað sem við fundum okkur til dundurs. Stórfjölskyldan bjó undir einu þaki, á þremur hæðum í Skeiðarvoginum. Þeir sem ekki bjuggu beinlínis þar komu þangað oft. Í þessu húsi varst þú drottningin. Þú leist reyndar aldrei á sjálfa þig sem drottningu; þú bara gekkst um húsið og sinntir þínum heimilisverkum ásamt því að sjá um okkur. Þú passaðir upp á að allt væri í lagi hjá öllum og ef eitthvað bjátaði á hjá einhverjum lagfærðir þú það strax. Þitt hús stóð alltaf öllum opið, allir voru velkomnir. Heima í Ósló vorum við bara tvær, ég og mamma, en í Skeiðarvoginum var þetta allt öðruvísi, þar var svo gott að vakna. Ég gat legið lengi í rúminu eftir að ég vaknaði, og hlustað á hljóðin, raddir fólksins frammi að talast við, fréttalesturinn í útvarpinu, glamur og skrölt í glösum og pottum. Þessi hljóð kalla fram hjá mér góðar minningar. Einu sinni þegar þið afi höfðuð verið í heimsókn hjá okkur mömmu harðbannaði ég henni að þvo sængurverið af sænginni þinni, ég vildi eiga ilminn þinn. Ég gleymi heldur aldrei þegar við Anna Lísa sváfum báðar hjá þér í sumarbústaðnum ykkar afa. Við sváfum allar saman í rúmi en vildum báðar fá að sofa í fanginu þínu. Það endaði með því að þú lást á bakinu alla nóttina með sinn handlegginn um hvora stelpuhnátuna til að gera ekki upp á milli okkar. Þetta lagðir þú á þig þrátt fyrir gigtarverkina sem hrjáðu þig til margra ára.

Allt til þess síðasta hélstu yndislegri kímnigáfunni þinni. Ég á mér ótæmandi minningasjóð um þig, en það sem einkennir allar þessar minningar er hve þú settir alltaf aðra í fyrsta sætið á undan sjálfri þér. Þú hefur verið okkur öllum glæsileg fyrirmynd. Allir voru jafnir fyrir þér, þú varst besti kennari í því hvernig á að elska aðra. Takk fyrir allt amma mín. Ég segi eins og við sögðum alltaf í lok símtala okkar: „Ég kyssi þig gegnum símtækið og yfir Atlantshaf.“ Ég vitna hér aftur í skáldið Jóhann Sigurjónsson:

Að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

Það geri ég.

Elín Birna.

Elsku amma mín, Ég sit hérna við kertaljós og hugsa til þín, allar góðu minningarnar um þig og afa í Skeiðó. Það var alltaf svo gott að koma til ykkar og alltaf gat ég fundið mér eitthvað að gera þegar ég var í heimsókn. Það voru ekki ófáar stundirnar sem ég sat í fanginu þínu, ég hélt í höndina þína og þú ruggaðir mér og söngst fyrir mig Guttavísur eða vísur úr Vísnabókinni. Það var notalegt. Í dag sit ég með syni mína í fanginu og syng fyrir þá úr Vísnabókinni góðu og alltaf hugsa ég til þín þá.

Það er skrítið að geta ekki hitt þig aftur amma mín og haldið í höndina þína, talað við þig og haldið utan um þig. Það er skrítið að fara ekki með Bjarka Þór og Steinar Örn til þín eins og ég gerði svo oft. Bjarka Þór fannst svo gaman að fara í heimsókn til þín og hann talar oft um þig núna, en hann veit að núna átt þú ekki heima í húsinu þínu í Sóltúni, heldur ertu hjá Jesú og hann er alveg viss um að núna sértu með vængi og getir flogið. Ég veit að núna ertu á góðum stað og þér líður vel.

Elsku amma mín, ég kveð þig með söknuði í hjarta og þakka þér fyrir allar yndislegu stundirnar sem þú gafst mér. Þær eru ómetanlegar. Ég er rík fyrir að hafa átt þig að og ég er rík af minningum um þig.

Guð geymi þig amma mín og hvíl í friði. Mér þykir vænt um þig.

Hinsta kveðja,

Fríða Björk og fjölskylda.

Núna er hún Ella mín farin til englanna sem munu taka henni opnum örmum. Ella mín var allra yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún var stórkostleg í alla staði. Mjög ljúf. Greiðvikin og tamdi sér það veganesti að segja já við öllu. Ég kynntist henni þegar ég var 19 ára og vegna erfiðra aðstæðna hjá fjölskyldu minni bauð hún mér að flytja inn til þeirra góðu hjóna í Skeiðarvogi. Þar var tekið vel á móti mér, allt hreint, straujað línið og frábærir tengdaforeldrar sem ég eignaðist.

Ég upplifði að ég væri komin á stórt og fjölmennt heimili þar sem margir ættliðir voru. Afi Árni var þar í herbergi og sinntu hjónin og börnin honum af mikilli umhyggju og virðingu. Margir komu í Skeiðó, ættingjar og vinir, og fengu allir þvílíkar veitingar og allt sem þurfti; gistingu, þvott á fatnaði, umhyggju, skilning og þá hjálp sem hver þurfti. Þetta stóra hús sem þau byggðu af dugnaði og þrautseigju hefur haldið þessari fjölskyldu saman. Og hefur það komið mér og mínum börnum vel. Ella var mjög skapgóð og jafnlynd. Tók mótstreymi með æðruleysi og skynsemi. Hún sá um alla hluti, hafði dagatal í eldhúsinu og skrifaði niður alla tíma sem börn hennar þurftu að sinna. Alltaf var hringt í Ellu og hún spurð um allar tímasetningar. Hún var oft slæm til heilsunnar en á seiglunni fór hún. Hún kom færandi hendi í veislur með nýjar pönnukökur og fræg er sunnudagssúkkulaðikakan hennar.

Eftir að Jónas eiginmaður hennar lést 1996 breyttist líf Ellu sem endaði með að hún fékk vistun í Sóltúni og naut þar bestu umönnunar á því fyrirmyndar hjúkrunarheimili. Ella mín hafði þá gæfu að halda reisn og minni hennar brást aldrei að fullu og þekkti hún niðja sína fram á hinstu stund. Hún kvaddi þetta líf með friði og í faðmi ættingja er söng fyrir hana Undir Dalanna sól, sem var hennar uppáhaldssöngur.

Guð varðveiti alla hennar afkomendur, heimkoma þín verður þér auðveld og ég kveð þig með trega og virðingu. Far í friði Ella mín. Kveðja,

Erla Friðriksdóttir.

Með trega kveð ég elsku frænku mína. Elín Árnadóttir var einstaklega vel gerð, heilsteypt og trygglynd. Með þessu fallega ljóði þakka ég henni stuðninginn, gleðina og umhyggjuna sem hún veitti mér og mínum í gegnum árin.

Blómin falla, fölskva slær á flestan ljóma.

Aldrei hverfur angan sumra blóma.

Þannig varstu, vinur, mér sem vorið

bjarta,

það sem gafstu geymist mér í hjarta.

Ilma sprotar, anga lauf, sem aldrei falla

Drottinn launi elskuna þína alla.

(Sigurbjörn Einarsson.)

Jóhanna Þorbjarnardóttir.

Það er margs að minnast þegar hún Ella er kvödd, ljúfar minningar úr Skeiðarvoginum, þar sem hún tók vel á móti öllum, enda var þar oftast fullt hús gesta. Tvær dætur hennar, Fríða og Dísa, eru á mínum aldri og þar sem ég bjó í Álfheimunum þegar ég var lítil var stutt að fara yfir holtið í Skeiðarvoginn og átti ég þar margar góðar stundir. Ella var hlý kona og ég man ekki eftir henni öðruvísi en í góðu skapi. Það var líf og fjör á heimili Ellu, enda börnin mörg, en þrátt fyrir það var alltaf pláss fyrir einn í viðbót við matarborðið. Minnisstæð eru fjölskylduboðin sem voru haldin annan í jólum, þar sem borðið svignaði undan veitingunum og Ella á sífelldum þeytingi til að fylgjast með að allir fengju nóg og að ekkert vantaði. Ella var minnug kona, hún mundi til dæmis eftir öllum afmælisdögum í stórfjölskyldunni og hringdi hún í móður mína á öllum afmælisdögum okkar systkinanna. Síðast sá ég Ellu á níræðisafmæli hennar, þar tók hún eins og alltaf vel á móti vinum og ættingjum sem sóttu hana heim.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Ellu og sendi nánustu ættingjum hennar mínar innilegustu samúðaróskir við fráfall hennar.

Hrefna K. Óskarsdóttir