Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is SEX af tíu söluhæstu bókum landsins um þessar mundir eru íslenskar skáldsögur.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

SEX af tíu söluhæstu bókum landsins um þessar mundir eru íslenskar skáldsögur. Myrká Arnalds Indriðasonar er sem fyrr efst á lista en frá síðustu viku hafa tvær íslenskar skáldsögur bæst á listann, Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Ódáðahraun eftir Stefán Mána.

Þetta eru satt að segja ánægjulegar fréttir. Skáldskapur hefur ekki alltaf flogið hátt á þessum lista. Á meðal þessara bóka eru þrír krimmar og ein barnabók.

Vinsældir íslensks skáldskapar endurspeglast einnig á lista yfir tíu mest seldu skáldverkin, íslensk og þýdd. Þar eru eingöngu íslensk skáldverk á lista, þýðingar eru hvergi sjáanlegar sem staðfestir ef til vill þá þróun að útgefendur sinna útgáfu áhugaverðra þýðinga æ minna.

Tvær aðrar bækur eru nýjar á listanum þessa vikuna, Stórhættulega strákabókin og Förðun – þín stund.

Annað sem vekur athygli á listanum er að sex bókanna eru gefnar út af sama útgáfufélaginu, Forlaginu. Engir aðrir útgefendur eiga fleiri en eina bók meðal tíu efstu. Þetta segir sitt um markaðsyfirburði Forlagsins.

Á meðal þeirra fjögurra bóka sem dottið hafa af listanum vekur Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson mesta athygli. Hún hefur augljóslega vakið athygli fyrst eftir að hún kom út en hefur ef til vill spurst illa út. Á ævisagnalistanum er bókin nú í þriðja sæti, fyrir ofan hana eru Magnea eftir Sigmund Erni Rúnarsson og Í sól og skugga eftir Bryndísi Schram.