Á fæðingardeildinni Leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir, með litlu Skrítlu í fanginu, og Linda Ásgeirsdóttir. Kvikmyndin um Skoppu og Skrítlu, sem er fyrir alla fjölskylduna, verður frumsýnd á annan í jólum.
Á fæðingardeildinni Leikkonurnar Hrefna Hallgrímsdóttir, með litlu Skrítlu í fanginu, og Linda Ásgeirsdóttir. Kvikmyndin um Skoppu og Skrítlu, sem er fyrir alla fjölskylduna, verður frumsýnd á annan í jólum. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@mbl.is

Á SAMA augnabliki og Hrefna Hallgrímsdóttir, sem leikur Skrítlu í barnaþáttunum Skoppa og Skrítla, eignaðist sitt þriðja barn í gær var Linda Ásgeirsdóttir, sem leikur Skoppu, á leið með fyrstu kópíuna af bíómynd þeirra í Kvikmyndasafn Íslands.

„Það má eiginlega segja að Hrefna, sem er handritshöfundur myndarinnar, hafi eignast tvö börn á þessari stundu,“ segir Linda.

Hrefna, sem var að vonum ánægð með litlu Skrítluna sína sem kom í heiminn í gær, segir bíómyndina um þær stöllur, sem frumsýnd verður á annan í jólum, vera sannkallaða fjölskyldumynd.

„Það ríkir mikill kærleikur og gleði í þessari mynd og það er mikið sungið og dansað. Skoppa og Skrítla lenda í hinum ótrúlegustu ævintýrum,“ greinir Hrefna frá.

Hún segir helming myndarinnar hafa verið tekinn upp á Íslandi og helminginn í Flórída þar sem hún þekkir vel til frá því að hún var þar í leiklistarnámi. „Það varð til ævintýraheimur þegar ég var að skrifa handritið og myndin var að hluta tekin upp á fallegum stöðum sem manni hefði ekki dottið í hug nema af því að maður þekkti til þeirra, eins og til dæmis á strönd og í dýragarði.“

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Skoppa og Skrítla brugðu sér út fyrir landsteinana. „Við höfum farið í tvær leikferðir til Bandaríkjanna, til New York og Flórída. Í New York sýndum við í norrænu menningarhúsi á hátíð þar auk þess sem við vorum eiginlega keyptar út af félagasamtökum sem eru með dagskrá fyrir börn innflytjenda.“

Leikhús sem Hrefna hafði leikið í á Flórída bauð þeim stöllum síðan að sýna þar. Þær hafa einnig haldið sýningar fyrir börn í Tógó í Afríku og í Danmörku og kunnu þau vel að meta gleðigjafana.