Rod Blagojevich
Rod Blagojevich
MÁL Rod Blagojevich, ríkisstjóra í Illinois, hefur nú tekið óvænta stefnu; deilt er um það hvort lagalegur grunnur sé fyrir málsókn. Er Patrick J.

MÁL Rod Blagojevich, ríkisstjóra í Illinois, hefur nú tekið óvænta stefnu; deilt er um það hvort lagalegur grunnur sé fyrir málsókn.

Er Patrick J. Fitzgerald saksóknari lét handtaka Blagojevich sagðist hann hafa viljað koma í veg fyrir afbrotahrinu sem m.a. fæli í sér tilraun til að selja sæti í öldungadeildinni er losnaði þegar Barack Obama var kjörinn forseti. Samkvæmt lögum Illinois ákveður ríkisstjóri hver fylli skarðið. En í The New York Times er bent á að Blagojevich hafi ekki enn skipað neinn í embættið og því sé ekki hægt að fullyrða neitt um sök. Lagaspekingar hafa lengi reynt að skilgreina skýrt mun á afbrotum og hefðbundnum, pólitískum hrossakaupum, sem geta verið lögleg þótt siðferðið sé umdeilanlegt.

Lögfræðingurinn Robert S. Bennett í Washington bendir á að rætt hafi verið um að Blagojevich hafi ætlað að fá sendiherrastöðu fyrir að skipa „réttan“ mann í þingsætið. „Í þessari borg er fullt af fólki sem kallar sig sendiherra og allt borgaði það milli 200 og 300 þúsund dollara í sjóði repúblikana eða demókrata,“ segir Bennett. Menn hljóti að velta því fyrir sér hvort vandinn sé hvað Blagojevich hafi verið orðljótur og klámfenginn á upptökunum sem lögreglan hefur undir höndum eða raunverulegar gerðir ríkisstjórans. kjon@mbl.is