Sinn er siður í landi hverju József Balá Kiss felur jólatréð fyrir börnunum.
Sinn er siður í landi hverju József Balá Kiss felur jólatréð fyrir börnunum. — Morgunblaðið/Andrés Skúlason
Eftir Andrés Skúlason Djúpivogur | Síðastliðið haust tók til starfa nýr skólastjóri við Tónskóla Djúpavogs, József Belá Kiss, að nafni, en hann kemur alla leið frá Ungverjalandi.

Eftir Andrés Skúlason

Djúpivogur | Síðastliðið haust tók til starfa nýr skólastjóri við Tónskóla Djúpavogs, József Belá Kiss, að nafni, en hann kemur alla leið frá Ungverjalandi.

József hefur aðlagast mannlífinu vel á Djúpavogi á þeim skamma tíma sem hann hefur verið við störf og hefur þegar komið fram á nokkrum skemmtunum sem haldnar hafa verið í bænum. József starfaði m.a. við óperuhús í heimalandi sínu og hefur nú þegar heillað heimamenn á Djúpavogi bæði með söng og leikrænum tilburðum.

Fyrstu jólin fjarri heimahögum

József mun nú halda sín fyrstu jól fjarri heimalandi sínu og segist hann hlakka mikið til, enda hefur hann nýverið fengið fjölskyldu sína, konu og tvö börn til Djúpavogs. Kona Józsefs er einnig menntuð á sviði tónlistar og mun hún m.a. taka að sér hlutastarf við tónlistarkennslu hjá leikskólabörnum á Djúpavogi, sem á án nokkurs vafa eftir að mælast vel fyrir.

József og fjölskylda hafa síðustu daga verið í óða önn við undirbúning jólanna og að því tilefni keypti József sér m.a. fallegt grenitré á hinum árlega Jólatrjámarkaði Skógræktarfélags Djúpavogs.

En sinn er siður í landi hverju, að sögn József háttar því þannig til í Ungverjalandi að það er Jesús sjálfur sem gefur jólatréð og er því trénu haldið alveg leyndu fyrir börnunum allt fram á aðfangadag.

József var því eðli málsins samkvæmt einn á ferð í skógræktinni, meðan innfæddir leiddu börnin um svæðið í ákafri leit að hinu eina og sanna jólatré.