BBC Gæðamerki í sjónvarpi.
BBC Gæðamerki í sjónvarpi. — Reuters
SJÓNVARPSSTÖÐVAR á vegum breska ríkissjónvarpsins eru fjölmargar en þær sem Íslendingar þekkja best eru BBC Prime, BBC Food og BBC World. Núna hafa tvær fyrstnefndu stöðvarnar breytt um form.

SJÓNVARPSSTÖÐVAR á vegum breska ríkissjónvarpsins eru fjölmargar en þær sem Íslendingar þekkja best eru BBC Prime, BBC Food og BBC World. Núna hafa tvær fyrstnefndu stöðvarnar breytt um form. Prime heitir nú BBC Entertainment og Food gengur eftir breytingarnar undir nafninu BBC Lifestyle. Ljósvaki dagsins sér þessar stöðvar í gegnum áskrift hjá Skjánum og líst vel á breytingarnar. Efni sjónvarpsstöðvanna er orðið markvissara og auðveldara að vita hverju maður á að búast við. Núna eru allir lífsstílsþættir sem snúast um útlit, hönnun og mat komnir á Lifestyle en Entertainment einbeitir sér að leiknum þáttum og skemmtiefni. Á Prime var áður allt í bland og gat dagskráin orðið ruglingsleg en stöðugir matarþættir Food voru leiðigjarnir. BBC auglýsir þessar breytingar mikið og það er eitt sem Ljósvaki saknar í sínum áskriftarpakka. Í auglýsingunum kemur fram að þriðja stöðin hafi orðið til eftir endurskipulagninguna, BBC Knowledge. Þar eru sýndir skemmtilegir þættir eins og Top Gear. Ljósvaki skorar á Skjáinn og sambærileg fyrirtæki að bæta þessari stöð inn í áskriftarpakkann hið snarasta.

Inga Rún Sigurðardóttir

Höf.: Inga Rún Sigurðardóttir