ÞEGAR Adolf Hitler ræsti vígvélarnar og geystist yfir Evrópu varð fátt um varnir. Brynsveitir hans brenndu, sprengdu og tortímdu öllu sem fyrir þeim varð. Hvert ríkið af öðru féll í valinn.

ÞEGAR Adolf Hitler ræsti vígvélarnar og geystist yfir Evrópu varð fátt um varnir. Brynsveitir hans brenndu, sprengdu og tortímdu öllu sem fyrir þeim varð. Hvert ríkið af öðru féll í valinn. Þegar Frakkland var fallið og franska þjóðin lá veinandi í brunarústunum safnaði Charles de Gaulle um sig nokkrum harðsnúnum köppum, neitaði að gefast upp og sór að vinna föðurland sitt úr hrammi Hitlers. Hann stóð við orð sín og þegar Hitler var genginn ætlaði de Gaulle að reisa Frakkland úr rúst með fulltingi stjórnmálaflokkanna. En honum hugnaðist ekki ragmennska stjórnmálaskúmanna, klækir þeirra og málskraf. Hann hvarf heim á búgarð sinn í Dúfnadal og ornaði sér á síðkvöldum við rauðvínsdrykkju og sagnaritun.

Eftir nokkur ár voru stjórnmálaskúmarnir búnir að traðka frönsku þjóðina niður í foraðið og þá kölluðu Frakkar aftur á de Gaulle: hér er allt í volli, herra minn, nú verður þú að koma til Parísar og redda málunum.

De Gaulle brá við skjótt, skundaði burt úr Dúfnadal, endurreisti Frakkland og markaði þjóð sinni nýja og glæsilega framtíðarbraut. De Gaulle er stórbrotnasta þjóðhetja Frakklands á vorum tímum.

Fyrir nokkrum árum vorum við Íslendingar stöndugasta þjóð heimsins og sú hamingjusamasta. Fall okkar varð þeim mun hastarlegra sem við hreyktum okkur hærra. Nú liggjum við helaumir í rústunum og þörfnumst okkar De Gaulle. Hvar er þann mann að finna? Það er kannski ofmælt að ríkisstjórnin sé liðónýt, en hún er veiklunduð, úrræðalítil og fálmandi í öllum sínum handatiltektum. Hún hefur áorkað svo undarlega litlu á nálega hálfu kjörtímabili. Hún er Samfylkingarstjórn og þess vegna sýkt af hégilju samræðustjórnmálanna, sem gengur út á að gera pólitík að einskonar saumaklúbbi þar sem skrafskjóður koma saman og hjala frá sér allt vit meðan jörðin brennur. Samræðustjórnmál er vond pólitík. Það er langbest að hafa orðræðuna snarpa, átökin hörð og beinskeytt, athafnirnar skjótar og afdráttarlausar.

Ríkisstjórnin sá að hverju stefndi en hafðist ekki að. Hafi hún ekki kært sig um viðvaranir Davíðs Oddssonar þá var nóg fyrir hana að lesa blöðin. Vera má að hún hafi talið sig skorta vopn og verjur til að hemja braskarana og afstýra hruni bankanna en hún gat búið sig undir það og dregið úr banvænum afleiðingum þess með svo mörgu móti – hún gat það en brast áræði.

Hún gat bannað til dæmis myntkörfulán, undirbúið bjargráð fyrir fjölskyldur sem nú liggja sundurflakandi, haft tilbúna neyðaráætlun um hækkun á atvinnuleysisbótum og ríflega styrki til þeirra sem misstu vinnu vegna bankahrunsins, fryst verðtrygginguna, skilað kvótanum heim í sjávarþorpin og rifið landsbyggðina upp úr doðanum. Ef ríkisstjórnin hefði keyrt í gang þessi úrræði og önnur betri um leið og hrunið varð, þá hefði áfallið orðið þjóðinni miklu léttbærara. Auðvitað gerir það ríkisstjórninni erfitt um vik að Samfylkingin er ekki fyllilega stjórntækur flokkur; þar er hver höndin uppi á móti annarri, undirmálsfólk í fyrirrúmi, dáðlaus formaður og þótt Össur sé borubrattur í sínu döggvota næturbloggi þá á hann ekki erindi í ríkisstjórn frekar en Ástþór Magnússon.

Það hefði aldrei farið svona hræðilega fyrir okkur ef Davíð Oddsson hefði verið áfram í ríkisstjórn. Hann hefði brugðist við í tíma. Hann hefur farið á kostum í Seðlabankanum – líklega eina stjórnvaldið sem hefur staðið vaktina með prýði og hann mun koma langbest út þegar bankahrunið verður loksins rannsakað.

En nú verður Davíð að yfirgefa Dúfnadal. Hann er okkar de Gaulle. Þessi ríkisstjórn hefur enga burði til að endurreisa landið. Hún er bæði úrræðalaus og ófarsæl. Við verðum að fá kosningar fyrir vorannir og þá verður Davíð að koma aftur á þing. Geir yrði að sjálfsögðu áfram fjósameistari en Davíð fengi að annast bolabásana þrjá: ráðuneyti fjármála, viðskipta og iðnaðar. Og þá yrði drjúgur liðsmunur að Steingrími ef hann fengist til að leggja þar gjörva hönd að verki í stað þess að lumbra á mönnum.

Köllum á Davíð. Köllum foringjann heim úr Dúfnadal.

Baldur Hermannsson eðlisfræðingur.