Seinkun Opnun menningarhússins Hofs verður frestað til vors 2010.
Seinkun Opnun menningarhússins Hofs verður frestað til vors 2010. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is GERT er ráð fyrir eins milljarðs króna halla á rekstri Akureyrarbæjar og fyrirtækja hans á næsta ári.

Eftir Skapta Hallgrímsson

skapti@mbl.is

GERT er ráð fyrir eins milljarðs króna halla á rekstri Akureyrarbæjar og fyrirtækja hans á næsta ári. Helsta ástæða hallans er mikill fjármagnskostnaðar Fasteigna Akureyrarbæjar, sem áætlaður er tæpir tveir milljarðar. Útsvar og fasteignaskattar hækka, svo og máltíðir í skólum og leikskólum, og aðgangur að skíðasvæðinu og sundlaugum.

Sú nýbreytni var tekin upp við gerð fjárhagsáætlunar að þessu sinni að oddvitar allra flokka í bæjarstjórn unnu saman að henni, ásamt starfsmönnum bæjarins. Að sögn oddvitanna var haft að leiðarljósi að verja grunnstoðir í þjónustu bæjarfélagsins í þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir þjóðfélagið.

„Sérstaklega var horft til þess að halda vel utan um starfsemi grunn- og leikskóla bæjarins, sem og félagsþjónustuna, og einnig að verja störf og mannaflsfrekar framkvæmdir eftir því sem kostur er. Í ljósi stöðunnar er betra að búa við tímabundinn hallarekstur en skera niður í mannafla og framkvæmdum. Það er gert í þeirri von að staðan verði betri á árinu 2010,“ segir í tilkynningu frá oddvitunum.

Fyrri umræða um áætlunina fór fram í bæjarstjórn í gær en sú síðari verður í janúar.

Forsendur áætlunarinnar eru að meðalverðbólga hér á landi verði 7% á næsta ári og að íbúum á Akureyri fjölgi um 200 manns, sem er nokkuð minna en í fyrra.

*Tekjur aðalsjóðs verða rúmir 9,8 milljarðar en heildargjöld tæpir 10,7 milljarðar. Fjármunatekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæpir 1,2 milljarðar.

*Í áætlun sem unnin hafði verið var gert ráð fyrir að útsvar yrði 13,03% en skv. tillögu oddvitanna frá því í gær hækkar útsvarið í 13,28%.

*Álagningarprósenta fasteignaskatta hækkar um 10% en ekki er gert ráð fyrir að stofn fasteignamats hækki.

*Leikskólagjöld og frístund hækka ekki en almennt hækka gjaldskrár um 10%, þar má nefna hækkun á fæði í leik- og grunnskólum og aðgangi að skíðasvæðinu og í sundlaugar bæjarins.

*Sorphirðugjald hækkar um 2.700 kr. og verður rúmar 15.000 á hvert heimili.

*Laun bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og nefndarfólks lækka um 10%.

*Dregið verður úr yfirvinnu þar sem það er mögulegt. Ekki verða uppsagnir meðal starfsmanna bæjarins en öll störf sem losna verða skoðuð sérstaklega og reynt að forðast allar nýráðningar.

*Í almennum rekstrargjöldum stofnana og deilda er skorið niður um 200-300 milljónir.

*Mörgum framkvæmdum er seinkað. Áætlað var að taka menningarhúsið Hof í notkun næsta haust, en það frestast til vors 2010 og það sama gildir um opnun íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla. Naustaskóli verður hins vegar tekinn í notkun næsta haust eins og ráðgert var.

*Samtals eru framkvæmdir áætlaðar fyrir tæpa 2,6 milljarða hjá bænum og fyrirtækjum hans. Það er nokkur lækkun frá gildandi þriggja ára áætlun.

*Afborganir lána á árinu nema 2,3 milljörðum. Ný lán verða tekin fyrir rúman 3,1 milljarð svo mismunurinn er skuldaaukning um rúmar 800 milljónir króna.