Víkverji kemst alltaf í óvenjugott skap þegar hann sér vörur á útsölu. Samstundis gerir hann sér glögga grein fyrir því að ýmislegt vantar á hans heimili.

Víkverji kemst alltaf í óvenjugott skap þegar hann sér vörur á útsölu. Samstundis gerir hann sér glögga grein fyrir því að ýmislegt vantar á hans heimili. Hann borgar því glaður fyrir útsöluvöruna og reiknar út hversu mikið hann hefur grætt á því að kaupa hana. Og stundum hefur hann grætt býsna mikið.

Um daginn kom Víkverji inn í verslun og sá þar barstól á útsölu. Stólinn hafði kostað 35.000 en kostaði nú 9.000. Þetta fannst Víkverja sérlega freistandi tilboð. Stólinn var gylltur með svartri leðursessu. Eiginlega fjarska eigulegur gripur. Eina vandamálið er að Víkverji hafði enga þörf fyrir barstól – og það þótti honum slæmt.

Víkverji fór heim og mátaði barstólinn hvað eftir annað í huganum við litlu íbúðina. Niðurstaðan var ætíð hin sama: það var engin þörf á barstól. Víkverja leið eins og hann hefði misst af einhverju sem hann hefði átt að fá.

Víkverji er reyndar mjög gjarn á að kaupa hluti sem hann hefur enga þörf fyrir. Það sér hann þó ekki fyrr en hann er búinn að kaupa hlutinn. Honum finnst svo gaman að kaupa og ræður ekki við þessa þörf sína. Víkverji er sennilega draumaneytandi stórverslana.

Um daginn komst Víkverji heldur betur í feitt þegar hann rakst inn í verslun sem var að hætta rekstri og seldi vörur á 70 prósent afslætti. Víkverji keypti fullt af jólaskrauti. Þegar heim var komið mundi Víkverji reyndar eftir því að jólaskrautið sem hann á fyrir er svo mikið að hann kemur því ekki öllu fyrir. „Ég verð að kaupa mér stærri íbúð,“ hugsaði Víkverji en mundi þá skyndilega eftir því að það er kreppa sem gerir honum ókleift að standa í stórframkvæmdum. En það breytir ekki því að útsölurnar halda áfram að heilla.