Hagsýnar húsmæður Margrét og Þórunn luma á ýmsum góðum ráðum.
Hagsýnar húsmæður Margrét og Þórunn luma á ýmsum góðum ráðum. — Ljósmynd/Ólafur Þórisson
Þórunn Erna Clausen og Margrét Kaaber syngja, dansa og skemmta sér og öðrum sem tvíeykið Clausen & Kaaber, vel klæddar dömur úr fortíðinni.

Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur

ingarun@mbl.is

Leikkonurnar Þórunn Erna Clausen og Margrét Kaaber skipa dúettinn Clausen & Kaaber. Þær hafa mikið dálæti á stemningunni og stílnum sem ríkti á árunum 1940-1960. Clausen & Kaaber býður upp á skemmtidagskrá sem samanstendur af söng, uppistandi og vel völdum danssporum í anda gömlu Hollywood-myndanna. Til viðbótar taka stelpurnar að sér veislustjórn.

„Ég er alin upp við gamaldags tónlist og hef alltaf verið mjög heilluð af þessum tíma. Ég hef oft séð fyrir mér að ég hefði átt að vera uppi á einhverjum öðrum tíma en núna,“ segir Þórunn um fortíðarþrá tvíeykisins.

Í ballkjólum með uppsett hár

Þórunn og Margrét nota að sjálfsögðu tækifærið til að klæða sig upp en þær koma fram í ballkjólum með uppsett hár. „Það gerir þetta að meira leikhúsi,“ segir Þórunn og bætir við að búningarnir hjálpi til við að gera tilveruna líflegri. „Það er skemmtilegra að koma fram sem karakter heldur en maður sjálfur.“

Tónlistarmaðurinn Stefán Örn Gunnlaugsson úr hljómsveitinni Buffi spilar undir á píanó hjá tvíeykinu. Þórunn lýsir Stefáni sem góðum tónlistarmanni, hressum og skemmtilegum. „Eitt af því sem er skemmtilegt við þetta verkefni er að við erum að setja ný lög í gamlan búning.“

Á dagskránni eru lög, sem slógu í gegn í kringum seinni heimsstyrjöldina, gömul, góð og þekkt íslensk lög frá árunum 1950-1960, Abba-lög í örlítið breyttum búningi, nýleg íslensk lög sem trónað hafa á vinsældalistum undanfarin ár og þekktar lagasyrpur, þar sem allir geta sungið með.

„Við erum búnar að ganga með þetta í maganum frá því fyrir rúmu ári. Við erum bara búnar að vera að bíða eftir rétta tímanum og höfum verið að vinna markvisst að þessu frá því í janúar. Við stefnum að því að gera sýningu,“ segir Þórunn. Dagskráin er 25-30 mínútur að lengd en er hægt að stytta eða lengja og laga að aðstæðum hverju sinni, útskýrir hún.

Kynntust í Þjóðleikhúsinu

Þórunn og Margrét kynntust þegar þær voru að vinna saman í Þjóðleikhúsinu. „Við kynntumst í Sitji guðs englar en við lékum báðar í því. Verkið gerist einmitt á stríðsárunum. Kannski hefur hugmyndin fæðst þar!“

Þær stöllur þekktu þó eitthvað hvor til annarrar áður en leiðir þeirra lágu saman í íslensku leikhúsi en báðar lærðu þær leiklist í London. Þórunn stundaði nám við Webber Douglas Academy og Margrét við The Arts Educational School of Acting. Báðar útskrifuðust þær árið 2001 og hafa ekki setið auðum höndum síðan.

Þórunn lofar því að Clausen & Kaaber komi landanum til að hlæja með fallegum söng, dansi og hagnýtum ráðum í ástamálum, heimilishaldi, hreinlæti og samskiptum við hitt kynið. „Ráðin eru reyndar misnothæf,“ segir hún og hlær. „Þetta er svolítið „sjón er sögu ríkari“.“