Alexander Valdimarsson
Alexander Valdimarsson
Alexander Valdimarsson skrifar um mannleg samskipti og hjólreiðar: "Þá ungur ég var heyrði ég aldrei talað um „mannleg samskipti“. Nú er þetta orðið undirstöðuatriði í bisness-miðuðu samfélaginu."

MÉR hefur stundum dottið í hug að skrifa grein í Moggann. Um daginn sá ég grein um hjólreiðar allt árið, sem sagt að hjóla á reiðhjóli allan veturinn í Reykjavík! Ekki nennti ég að svara greininni en fann þó að ég hafði eitthvað að segja. Ég á engan bíl og er slæmur í ökkla og mér leiðist að fara í strætó þannig að ég er oftast á mínu reiðhjóli. Ég nota nagladekk á veturna. Ég he fengið þessi dekk á góðu verði og þar sem nagladekk eru misdýr og misgóð kaupi ég þau dekk sem eru svona „nokkuð góð“. Svo er það sálfræðilega hliðin á hjólreiðum. Mitt prinsipp, þ.e. grundvallarregla, er það að þvælast sem minnst fyrir bílunum. Ég hjóla í vinnuna frá Sóltúni og til Loftleiða. Ég bíð eftir að bílarnir fari upp Nóatúnsbrekkuna og þá legg ég af stað. Ef mikil ófærð er á gangstéttum reynir á samvinnu milli mín og bílstjóra. Ég er kannski að hjóla á Nóatúninu frá Skipholtinu og heyri í bíl. Þá hjóla ég á nöglunum upp á klakann og bíllinn kemst fram hjá. Við erum öll að flýta okkur, hvort sem við erum á Bens eða hjóli.

Um konur í bókinni „AEV junior“

Ég gaf nýlega út sjálfsævisögu. Bókin heitir „AEV junior,“ (junior merkir sá yngri.) Undirtitill er: Alexander E. Valdimarsson: Sjálfsævisaga. Bókin fæst í nokkrum bókaverslunum. (Í viðtali við mig, sem birtist á baksíðu Moggans, er skýrt frá því að bókin eigi að koma út í aðeins 100 eintökum. Vegna viðtalsins ákvað ég að láta prenta meira.) Ég hef nokkrar áhyggjur af því að jafnréttiskonur reiðist mér, vegna þess að ég segi farir mínar ekki sléttar af viðskiptum við konurnar í lífi mínu. En málið er það að ég er menntaður sem raunvísindamaður og þess vegna skoða ég veröldina með vissum gleraugum. Hver er sannleikurinn um konur, (þ.e. frá mínu sjónarmiði)? Ég lýsi því sem gerðist. Ég safna upplýsingum. Svo heldur vísindalegt ferli áfram. Hvert var ástand viðkomandi kvenna frá ýmsum sjónarmiðum: Tilfinningalega, vitsmunalega, þroskastig, samband við annað fólk? Á bak við allt þetta er að sjálfsögðu mitt eigið ástand og hvernig það breyttist.

Mannleg samskipti

Torfi heitinn (eldri sonur minn) sagði einu sinni við mig, að sá sem sigraði í slagsmálum væri eiginlega sá sem væri brjálaðri. Hann mundi slá fyrst, af meiri krafti og á hættulega staði á höfðinu. Ég spyr sjálfan mig: Hvers vegna myndi ég aldrei vera sá brjálaði? Til að svara heimspekilegri spurningu er ágætt að byrja á því að taka dæmi: Eitt sinn sem oftar stóð yfir líffræðiorgía. Einn af hressari kennurunum kom til mín og sagði að ég væri aumingi. Hvernig brást ég við? Varð ég brjálaður og sló hann samstundis á hættulegan stað? Nei. Í fyrsta lagi var hann kennari minn sem mér þótti vænt um. Í öðru lagi hef ég aldrei á ævinni slegið neinn þannig högg. (Í bók minni er því lýst, þegar sterkur 7 ára strákur sló mig þungt högg undir vinstra kjálkabarðið. Ég var 8 ára og hefði getað svarað fyrir mig. Ég hafði komið inn á lóð stráksins og eldri bróður hans til þess að reyna að stofna til vináttu við þá. Því gekk ég sorgmæddur í huga í burtu. Samskiptum mínum við þá bræður var lokið.)

Nú vildi ég (ef ég kynni það) fara í heimspekilegan spurningaleik. Hvernig væri hægt að tengja þessar örsögur við myndun tengsla og samskipta milli fólks á Íslandi kreppunnar í dag? Ég kann ekki að horfast æ dýpra í augu við fólk eins og ég sé konur gera. Ég hef undanfarið verið að æfa mig í ýmsu sem varðar mannleg samskipti: a) Æfa mig framan við spegil í grettum og brosum, b) Tala við unga konu sem ég rekst á þannig, að hún finni á röddinni og öðru að ég sé þess trausts verður, að hún gefi mér hálfa mínútu af lífi sínu í vinsamlega samræðu.

Þá ungur ég var heyrði ég aldrei talað um „mannleg samskipti“. Nú er þetta orðið undirstöðuatriði í bisness-miðuðu samfélaginu. Ég býst við að flest baráttufólk berjist fyrir því sem því þykir vænst um. Núna þykir mér vænt um bókina mína. Bók líður vel ef einhverjir lesa hana, og lesa hana vel.

Ég vona að væntanlegir lesendur hafi ánægju af lestrinum og myndunum í bókinni.

Höfundur er rithöfundur, líffræðingur og vaskari.

Höf.: Alexander Valdimarsson