„ÆTLI þessi afmælishelgi verði ekki með þeim eftirminnilegri,“ segir Birgir D. Sveinsson sem fagnar sjötugsafmæli sínu í dag, þegar hann er spurður um eftirminnileg stórafmæli í gegnum tíðina.

„ÆTLI þessi afmælishelgi verði ekki með þeim eftirminnilegri,“ segir Birgir D. Sveinsson sem fagnar sjötugsafmæli sínu í dag, þegar hann er spurður um eftirminnileg stórafmæli í gegnum tíðina. Birgir hyggst halda upp á daginn í faðmi fjölskyldunnar, en hann er kvæntur Jórunni Árnadóttur og eiga þau 17 afkomendur.

Birgir starfaði við Varmárskóla í Mosfellsbæ í 40 ár sem kennari og skólastjóri. Fyrir 45 árum stofnaði hann Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og stjórnaði henni fyrstu 40 árin. Hljómsveitin fagnaði 45 ára starfsafmæli sínu með heilmiklum tónleikum í Íþróttaheimilinu að Varmá um miðjan dag í gær, þar sem einnig tóku þátt tíu kórar sveitarfélagsins og Sigrún Hjálmtýsdóttir.

Að sögn Birgis taka um 150 börn og unglingar á aldrinum 9-20 ára þátt í skólahljómsveitinni, sem er lúðrasveit. Aðspurður segir hann afar gefandi að umgangast unga fólkið, en Birgir kennir ennþá ungmennum á trompet líkt og hann hefur gert síðustu áratugina. Að tónleikunum loknum bauð Birgir vinum og ættingjum í afmælisveislu í Harðarbóli, félagsheimili hestamanna í Mosfellsbæ, og sagðist hann eiga von á vel á annað hundrað manns í þá veislu. silja@mbl.is