Framfarir? Kosið er í Makedóníu í dag en ESB-aðild hefur verið áberandi í kosningabaráttunni þar sem margir íbúar sjá lausnir margs vanda fólgna í aðild.
Framfarir? Kosið er í Makedóníu í dag en ESB-aðild hefur verið áberandi í kosningabaráttunni þar sem margir íbúar sjá lausnir margs vanda fólgna í aðild. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is Þ egar stigið er út úr flugvélinni á alþjóðaflugvellinum í Skopje blasir við upplýst skilti á flugstöðinni: „Flugvöllur Alexanders mikla.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

Þegar stigið er út úr flugvélinni á alþjóðaflugvellinum í Skopje blasir við upplýst skilti á flugstöðinni: „Flugvöllur Alexanders mikla.“ Það er lítil flugstöð með stórt nafn, en Makedóníumenn hampa Alexander sem sínum. Glæsihótelið í Skopje heitir „Höll Alexanders“ og nafn hans prýðir marga bygginguna í landinu.

Þessi árátta ungs smáríkis, sem fékk fyrst fullveldi árið 1991, er nokkuð sem ergir nágrannana Grikki verulega. Að mati Grikkja eru Makedóníumenn að reyna að ræna þá hellenska arfinum en Makedóníumenn fullyrða að auk Alexanders mikla sé heimspekingurinn Aristóteles einnig þeirra maður.

Þá hefur 18 ára löng deila um nafn landsins Makedóníu einnig valdið milliríkjadeilum. Vegna nafnadeilunnar beittu Grikkir neitunarvaldi innan Nató í fyrra, gegn inngöngu Makedóníu í bandalagið. Þá hafa Grikkir jafnframt hótað að beita neitunarvaldi vegna hugsanlegrar inngöngu landsins í Evrópusambandið.

Alþjóðasamfélagið hefur fylgst grannt með forseta- og sveitarstjórnarkosningum sem staðið hafa yfir í Makedóníu. Það er ekki síst vegna átaka sem einkenndu þingkosningar í Makedóníu í fyrra en þá lét einn maður lífið í átökum á kosningaskrifstofu í höfuðborginni Skopje.

Góðar kosningar gefa tækifæri

Fyrri umferð kosninganna lauk þann 22. mars síðastliðinn en önnur umferð reyndist nauðsynleg og fer hún fram í dag. Í kosningunum mætast forsetaframbjóðendurnir sem flest atkvæði fengu í síðustu umferð, George Ivanov fyrir Íhaldsflokkinn og sósíaldemókratinn Ljubomir Frckoski.

Það var niðurstaða alþjóðlegra eftirlitssveita Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að fyrri hluti kosninganna í Makedóníu hefði farið vel fram. „Fyrri umferð kosninganna er auðvitað bara undanúrslit í kosningaferlinu,“ sagði Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, að fyrri umferð lokinni. Með því gaf hann í skyn mikilvægi þess að seinni umferð kosninganna fari álíka vel fram og sú fyrri, það gæti orðið til þess að greiða fyrir aðgengi Makedóníu að ESB.

Evrópusambandsaðild var þungamiðjan í kosningabaráttunni í ár en margir landsmanna líta á aðild að ESB sem aðallausnina á miklu atvinnuleysi og fátækt. Kosningabaráttan var mjög umfangsmikil og settu auglýsingaspjöld af frambjóðendum svip sinn á höfuðborgina og bæi landsins. Allt mögulegt pláss var notað til að koma veggspjöldum frambjóðenda fyrir, m.a. á vegaskilti og þvottasnúrur.

Óvissa Balkanlandanna í ljósi kreppu

Vegna óvissu í efnahagsmálum hafa nokkur aðildarlönd Evrópusambandsins, með Þýskaland í broddi fylkingar, viljað hægja á stækkun sambandsins. Það hefur leitt til þess að fremur fátækar Balkanþjóðirnar, sem allar hafa rennt hýru auga til ESB, eru í óvissu um framvindu mála. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kallaði eftir því nýlega að hlé yrði gert á stækkun sambandsins þegar innganga Króatíu yrði gengin í gegn eftir nokkur ár.

Á fundi utanríkisráðherra ESB um síðustu helgi reyndu ráðherrarnir að létta á áhyggjum yfirvalda Albaníu, Bosníu, Króatíu, Makedóníu, Svartfjallalands og Serbíu. Áhersla var lögð á mikilvægi þess að löndin héldu markmiðum sínum um inngöngu í ESB til streitu. Það væri grundvallaratriði fyrir stöðugleika, sættir og framtíð Balkansvæðisins.

´

Kosningaeftirlit í hnédjúpum snjó

Blaðamaður Morgunblaðsins fékk í liðnum mánuði tækifæri til að sinna kosningaeftirlitsstörfum á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í forseta- og sveitarstjórnarkosningum í Makedóníu. Förinni var heitið til eftirlits í bænum Krusevo og nærliggjandi sveitum í suðurhluta landsins.

Krusevo er frægur bær að mörgu leyti, hann er talinn liggja hæst allra bæja á Balkansvæðinu, eða í 1.350 metra hæð. Þar átti Ilinden-uppreisnin gegn Tyrkjum sér einnig stað árið 1903 en hún er Makedóníumönnum hjartfólgin sem tákn um baráttu þjóðarinnar fyrir frelsi og lýðræði.

Svæðið þykir nokkuð rólegt og þar búa Albanar og Makedóníumenn að mestu leyti í sátt og samlyndi. Helsta ógnin við viðunandi framkvæmd kosninganna í Krusevo reyndist því ekki vera af mannavöldum heldur náttúrunnar. Á sjálfan kosningadaginn og daginn áður gerði mestu snjóa sem um getur í Krusevo á þessum árstíma í 20 ár. Snjónum kyngdi niður og ferja þurfti kosningagögn með herbílum upp í þorp sem hafði fennt inni og aflýsa varð kosningum í nokkrum þeirra.

Bílakostur Makedóníumanna er ekki upp á marga fiska og því stöðvaðist fljótlega öll umferð í sveit og bæ. Snjórinn gerði því einnig kosningaeftirlitsfólki erfitt fyrir sem varð að taka fram gönguskóna og ganga á milli kjörstaða í bröttum brekkum og hnédjúpum snjó.

Staðreyndir

Spurningin um Alexander mikla og hellenska arfinn er ekki eina málefnið sem angrar Grikki. Að mati grískra yfirvalda býður Makedóníu-nafnið þeirri hættu heim að Makedóníumenn falist smám saman eftir yfirráðum í héraðinu Makedóníu, sem er í norðurhluta Grikklands.

Vegna þrýstings frá Grikkjum hafa Makedóníumenn neyðst til að nefna land sitt „Fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía“ á alþjóðavettvangi.

Deilur þjóðanna náðu vissu hámarki á milli 1992 og 1995 þegar grískir stjórnmálamenn lýstu yfir vilja til að hefja stríð við Makedóníu til að þvinga yfirvöld til nafnbreytingar. Reynt var að knésetja Makedóníu með efnahagsþvingunum en það varð einungis til að einangra stöðu Grikklands í Evrópu.

Átök á milli vopnaðra hópa Albana voru byrjunin á átökum sem breiddust út árið 2001. Átökin hófust við landamæri Kosovo en breiddust fljótt út um fjallahéraðið Tetovo og fleiri norðurhéruð landsins.

Átökin leiddu til þess að um 100.000 manns hröktust frá heimilum sínum eða flúðu úr landi.

Markmið frelsishers Albana voru að ná fram stjórnarskrárbreytingum til að tryggja aukin réttindi Albana, sem eru minnihlutahópur í Makedóníu.

Vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu var mynduð ríkisstjórn fjögurra helstu flokka þingsins árið 2001. Formlegt friðarsamkomulag, sem nefnist Ohrid-samkomulagið, var undirritað í kjölfarið.

Samkomulagið veitti Albönum aukin réttindi, m.a. rétt til opinberrar notkunar albanskrar tungu og aukinnar þátttöku í stjórnsýslu landsins. Samkomulagið kom því mjög til móts við kröfur albanska frelsishersins.