Eftir Ingveldi Geirsdóttur
ingveldur@mbl.is
ORÐIÐ pjattrófa er oft notað í neikvæðri merkingu, það þykir ekki gott að vera pjattrófa. Pjattrófur eyða miklum tíma í að hugsa um útlitið, alltaf eitthvað að pjatta sig, á meðan þær gætu vel verið að gera eitthvað gagnlegra. Það er samt ekkert neikvætt við vefsíðuna www.pjattrofur.blogspot.com, inn á hana er nauðsynlegt að kíkja öðru hverju fyrir pjattrófur og aðra sem vilja hugsa um útlitið.
Síðunni er haldið úti af nokkrum stúlkum og lýsa þær sér sem nokkrum vel puntuðum pjattrófum sem skrifi um hitt og þetta sem viðkemur pjatti.
Síðan er sett upp á einfaldan og snyrtilegan hátt í bloggstíl. Fyrir utan góð ráð sem rituð eru og myndir sem styðja málið er líka að finna kennslumyndbönd, tekin af YouTube, sem sýna hvernig má farða sig. Hverju viðfangsefni er svo skipt upp í flokka, t.d. hár, augu og húð, og er einfalt að velja það sem maður vill lesa sér til um. Stúlkurnar skrifa ekki á of miklu snyrtifræði-fagmáli svo þetta er sett fram á mjög læsilegan og skemmtilegan hátt fyrir þá sem ekki eru vel að sér í þessum fræðum.
Auðveld augnhár
Sem dæmi af síðunni má nefna eina snilldarfærslu sem fjallar um að gerviaugnhár séu auðveldari en margan grunar. Þessi færsla kom mér að miklu gagni og gaf mér kjark því ef eitthvað hefur vaxið mér í augum í gegnum tíðina er það að setja sjálf á mig gerviaugnhár. En pjattrófurnar segja að það þurfi ekki að vera mikið mál og gefa frábær ráð. Eina tækið sem þarf til að setja á sig augnhárin, sem mega víst ekki ná alla leið í innri augnkrókana, er einföld hárspenna sem er þvinguð í sundur og gúmmíið tekið af beina endanum. Síðan á að tylla augnhárunum eins nálægt hársrótunum og hægt er og nota spennuna til að ýta þeim alveg á réttan stað. Bíða svo í tíu mínútur og setja þá augnmálninguna á, renna á samt með maskara yfir augnhárin bæði áður og eftir að búið er að setja þau á. Hvert par af gerviaugnhárum má síðan nota upp undir sex sinnum.Það er alltaf ánægjulegt þegar aðrir eru til í að miðla af því sem þeir eru góðir í til hinna sem vita minna og vilja bæta sig.
Ekki spara pjattið
Miðað við þessa vefsíðu er allt jákvætt við að vera pjattrófa, konum finnst flestum gaman að vera fínar og eiga ekkert að vera að spara það við sig eins og kemur fram í einni færslunni: „Það er svolítið furðulegt hvað maður er oft að „spara“ sig í fínheitunum. Eitthvað svona „er ég ekki of fín fyrir þriðjudag?“-dæmi og svo skrúfar maður niður í pjattinu eins og kjáni.“ Hver kannast ekki við að hafa hugsað svona?Pjattrofur.blogspot.com er góð, gagnleg og skemmtileg síða og hvet ég allar pjattrófur til að kíkja á hana.