Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
Einar Benediktsson skrifar um mikilvægi góðra samskipta á milli þjóða: "Á þetta er minnst vegna þess að hafi nokkurn tíma verið þörf jákvæðri kynningu í Bretlandi, þá er það nú."

SAGA sendiráðs Íslands í London hófst sem kunnugt er í heimsstyrjöldinni síðari og var Pétur Benediktsson fyrsti sendiherrann. Í blíðu og stríðu hafa samskiptin við Breta vissulega haft mikla þýðingu fyrir okkur og oft mætt á sendiráðinu. Verst viðfangs voru þorskastríðin vegna harðrar framgöngu fjölmiðla gegn Íslendingum. En þetta leið hjá og á árum mínum sem sendiherra í London, 1982-1986, má segja að sól hafi skinið í heiði. Þá var gott lag til að auka starf á sviði kynningarmála og sendiráðið gat stuðlað að samstilltu átaki með öllum íslensku fyrirtækjunum í Bretlandi. Forstöðumenn þeirra allra féllust fúslega á að ráðast sem fyrst í viðamikið sameiginlegt kynningarstarf fyrir útflutninginn og fyrir Ísland sem ferðamannaland á vegum óformlegs samstarfshóps. Var ætlunin að halda það sem við kölluðum Íslandsvikur og var það að fyrirmynd slíks átaks í Frakklandi nokkru áður.

Fljótlega hófst mikill undirbúningur fyrsta kynningarátaksins í þrem borgum og var sendiráðið aðalvettvangur starfsins með fyrirtækjunum, en við nutum stuðnings ræðismanna okkar og Ferðamálaráðs heima. Árangurinn var það góður að næstu tvö árin efndum við að nýju til Íslandsvikna, ávallt í þrem borgum. Við byrjuðum í Edinborg eða Glasgow, fórum svo til einnar þeirra, Manchester, Birmingham eða Brighton, en enduðum í London. Ef litið var á framlag okkar sem unnum í þessu sem sjálfsagðan stuðning, og sömuleiðis fyrirgreiðslu Icelandair um farmiða, var útlagður kostnaður mjög í hófi að allra dómi. Algengur mælikvarði á árangur er að taka alla fjölmiðlaumfjöllun og meta til auglýsingagildis á lágmarksverði hjá prentmiðlum, útvarpi og sjónvarpi. Þá kom í ljós að við vorum að uppskera hátt margfeldi kostnaðar. Við vorum oft ótrúlega áberandi í pressunni, sérstaklega utan London, en þar voru áhrifin frekar bundin við þá sem komu á kynningarmóttökurnar. Þetta voru viðskiptavinir fyrirtækja, fjölmiðla- og stjórnsýslufólk, venjulega 200-300 manns. Fjölmiðlaumfjöllun á Íslandsvikum okkar naut þess að Icelandair efndi áður til boðsferða nokkurra fulltrúa fjölmiðla frá borgunum sem valdar voru. Við sýndum íslenska ullartísku, sem þá var vinsæl í Bretlandi, og ekki töpuðum við á glæsileik íslensku sýningarstúlknanna! Við kynntum einnig íslenskar kvikmyndir í Edinborg og London, og í sjónvarpsútsendingum var Magnús heitinn Magnússon frábær liðsauki.

Á þetta er minnst vegna þess að hafi nokkurn tíma verið þörf jákvæðri kynningu í Bretlandi, þá er það nú. Ímynd Íslands, trausti rúið í fjármálaheiminum, er skelfileg. Alþjóðlegir bankar eru sagðir líta á okkur sem ógjaldfæran viðskiptavin sem hafi komið sér undan kröfum með ólögmætum hætti. Ef ráða á bót á þessu og forða okkur frá vaxandi fjárhagslegri einangrun, þarf að sjálfsögðu að ná samningum í Icesave-málinu og hreinsa upp skuldir viðskiptabanka. Þetta verður að gerast til þess að erlent lánsfé og fjárfestingar geti komið til og hlýtur að verða forgangsverkefni stjórnvalda. En að þeim birni unnum taka við verkefni einkaaðila á breska markaðinum. Kynningarátak þeirra á níunda áratugnum var unnið fyrir takmarkað fé, en með góðum árangri, og gæti því verið til fordæmis. Slíkt samstarf mundi njóta þess að á undanförnum árum hafa samskipti átt farsæla þróun á vettvangi bresk-íslenska verslunarráðsins. Ísland er þekkt meðal fólks og nýtur viðurkenningar vegna framlags okkar í tónlist og frumkvæðis á sviði leiklistar. Það var merkileg reynsla að vera í New Old Vic um árið við frumlegan flutning Íslendinga á Rómeó og Júlíu eftir sjálfan William Shakespeare og finna hrifningu Bretanna í salnum. Við erum með sitthvað fleira en hina ástsælu Björk í farteskinu og getum óhikað stigið fram til að kynna okkur.

Höfundur er fv. sendiherra.

Höf.: Einar Benediktsson