Úr landi Tveir menn voru sendir úr landi árið 2004 eftir að dómsmálaráðuneytið synjaði beiðni um að þeir fengju að dvelja á Íslandi á meðan ráðuneytið afgreiddi kæru þeirra á úrskurði Útlendingastofnunar um að senda þá úr landi.
Úr landi Tveir menn voru sendir úr landi árið 2004 eftir að dómsmálaráðuneytið synjaði beiðni um að þeir fengju að dvelja á Íslandi á meðan ráðuneytið afgreiddi kæru þeirra á úrskurði Útlendingastofnunar um að senda þá úr landi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.is Grundvallarréttur hvers manns er að geta flúið heimaland sitt og fá vernd í öðru landi verði hann fyrir ofsóknum af hendi ríkisvalds í eigin ríki eða ef ríkisvaldið getur ekki veitt viðkomandi vernd fyrir ofsóknum.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Grundvallarréttur hvers manns er að geta flúið heimaland sitt og fá vernd í öðru landi verði hann fyrir ofsóknum af hendi ríkisvalds í eigin ríki eða ef ríkisvaldið getur ekki veitt viðkomandi vernd fyrir ofsóknum. Umsóknir um hæli eru hlutfallslega færri en í nágrannalöndum Íslands og þykir málsmeðferðin bæði löng og torsótt að fá hér hæli. Dómsmálaráðherra hefur af þessum sökum ákveðið að fara yfir alla ferla í málum hælisleitenda. Starf hennar hófst nýverið en óvíst er hvenær því lýkur.

Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi (ECRI) mælist til þess í skýrslu sinni um Ísland árin 2006 og 2007 að fyrsta stigs ákvarðanataka sé bætt auk þess sem áhyggjur eru hafðar af því að dvalarleyfi af mannúðarástæðum sé veitt í stað stöðu flóttamanns. Útlendingastofnun sér um fyrstu stigs ákvarðanatöku og hefur hún sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár.

Dyflinnarreglugerðin notuð stíft

Í byrjun síðustu viku hélt tuttugu til þrjátíu manna hópur hælisleitenda og stuðningsmanna þeirra á fund dómsmálaráðherra. Þar voru áhyggjur af málsmeðferð hælisleitenda viðraðar og kröfur til núverandi og næstkomandi ríkisstjórnar færðar fram. Meðal krafna eru þær að íslensk stjórnvöld láti af því að synja hælisleitendum um efnislega meðferð mála sinna hér á landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og sendi þá til þriðja lands. Íslandsdeild Amnesty International hefur tekið undir þetta og sendi dómsmálaráðherra erindi þess efnis í vikunni.

Í erindinu segir að það sé mikið áhyggjuefni að íslensk yfirvöld taki æ færri hælisumsóknir til efnislegrar meðferðar. Á árinu 2008 var 28 hælisleitendum birt ákvörðun Útlendingastofnunar um endursendingu á grundvelli Dyflinnar-samkomulagsins.

Ef hælisleitandi á Íslandi hefur áður leitað hælis í öðru ríki sem er aðili að samningnum, eða fengið þar vegabréfsáritun, senda íslensk yfirvöld hann aftur þangað án þess að taka mál hans til efnislegrar skoðunar hér. Ríkjum ber hins vegar ekki skylda til að endursenda hælisleitendur til annarra ríkja samkvæmt Dyflinarreglugerðinni heldur er um heimildarákvæði að ræða.

Málsmeðferðartíminn hefur þó styst

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra segir umræðuna um hælisleitendur af hinu góða og vill að sem flest sjónarmið komi fram. Ragna segist vel skilja að það sé óskaplega erfitt fyrir þá sem bíða eftir niðurstöðu að málin skuli taka jafnlangan tíma og raun ber vitni. Hún tekur hins vegar fram að það verði að líta til þess að yfirvöld verði að vanda sig og að eðli þessara mála sé þannig að þau taki langan tíma. Ráðherrann hefur hins vegar tekið málið til allsherjarskoðunar.

Fulltrúar dómsmálaráðuneytis áttu þannig fundi fyrir helgina með yfirmönnum Útlendingastofnunar. Var þar um að ræða svonefnda kortlagningar-fundi. Einnig verður fundað með lögreglu. Meðal annars verður farið yfir hvernig mál hælisleitenda eru unnin og hvaða tíma þau taka.

Þrátt fyrir að málsmeðferðin taki langan tíma verður að taka fram Útlendingastofnun til hróss, að sá tími hefur verið að styttast. Stofnunin hefur enda lagt mikla áherslu á það að undanförnu.

Óvissan er pyntingartæki

Forsvarsmenn hópsins sem heimsóttu Rögnu fjölluðu m.a. um hversu erfitt væri að horfa upp á unga menn deyja lifandi og „sjá þá breytast í einhvers konar drauga“. Var vitnað til biðarinnar eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar. „Þeir fá lítið sem ekkert að vita af framgangi sinna mála og lifa í stanslausri óvissu. Þetta er pyntingaraðferð, sem hefur hræðileg áhrif á sálarlíf fólks,“ sagði Bryndís Björgvinsdóttir, ein úr hópnum.

Haukur Guðmundsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, segir fyrst og fremst hægt að koma í veg fyrir óvissu hælisleitenda með því að stytta málsmeðferðartímann. „Við getum ekki farið að draga úr þessari óvissu með því að giska á hvernig mál þeirra fari.“

Bryndís benti einnig á að hælisleitendur hefðu lítið við að vera á meðan þeir biðu. Undir það getur forstjórinn tekið en bendir á að ástandið hafi verið mun betra. „Við höfum markvisst reynt að greina hópinn og aðstoða sem allra flesta við að reyna komast inn á vinnumarkaðinn í stað þess að sitja og bíða.“ Það er hins vegar staðreynd að afar erfitt er að fá vinnu á Íslandi um þessar mundir. Auk þess hefur Vinnumálastofnun tekið fyrir útgáfu bráðabirgðaleyfa.

Styttri málsmeðferðartími markmið

Áherslur

„Allar umsóknir um hæli ætti að meðhöndla og afgreiða með nauðsynlegri gætni, vandvirkni og hraða, en gæta að þær ílengist ekki hjá stjórnvöldum að óþörfu,“ segir Atli Viðar Thorstensen, verkefnastjóri hjá Rauða krossi Íslands, spurður um megináherslur varðandi málsmeðferð hælisumsókna.

Á meðan á málsmeðferð stendur leggur Rauði krossinn áherslu á að þjónusta og aðbúnaður hælisleitenda sé með þeim hætti að þeim einstaklingum sem sækja um hæli sé gert kleift að lifa eðlilegu og mannsæmandi lífi. Sjálfboðaliðar Rauða krossins heimsækja hælisleitendur einu sinni í viku til að veita félagslegan stuðning og draga úr einangrun og frekara starf með og í þágu hælisleitenda er í undirbúningi.

Atli segir að eitt helsta markmið stjórnvalda ætti að vera að takmarka þann tíma sem málsmeðferð hælisumsókna tekur, án þess þó að hvika frá því meginmarkmiði að hver umsókn fái vandlega og málefnalega umfjöllun sem standist þær kröfur sem gerðar séu til stjórnvalda. „Og í þeim tilvikum sem ljóst er að umsóknir muni taka langan tíma, ættu stjórnvöld eftir fremsta megni að reyna að segja fyrir um hversu langan tíma líklegt er að umsókn taki. Það gerir hælisleitendum auðveldara að skilja eðli málsmeðferðar og gefur þeim um leið einhverja hugmynd um hvað næstu vikur og mánuðir muni bera í skauti sér,“ segir Atli.

Hann telur að ef hælisleitendur fengju frekari upplýsingar „losni þeir við þann stöðuga ótta og kvíða sem margir eru haldnir gagnvart því að verða fluttir á brott, jafnvel næsta dag“.

Atli Viðar Thorstensen verkefnisstjóri

Hælisleitendur bíða

Ungur blaðamaður frá Balkanskaga hefur verið í hungurverkfalli frá 24. mars sl. á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ. Með því mótmælir hann því að hafa ekki fengið bráðabirgðaatvinnuleyfi á meðan hælisumsókn hans er til meðferðar.

Maðurinn sem er 24 ára kom til landsins síðasta sumar ásamt eiginkonu sinni, en hann varð fyrir ofsóknum í heimalandinu vegna fréttaskrifa. Í september sl. vísaði Útlendingastofnun úr landi en sá úrskurður varð kærður. Mál blaðamannsins er á borði dómsmálaráðuneytis og bíður afgreiðslu.

Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum segist hafa miklar áhyggjur af manninum, en vel sé fylgst með líðan hans. Hann drekkur þó vökva, þ.e. salt- og sykurvatn.

Albaninn Thoma Hysaj sagði Morgunblaðinu sögu sína í júní á síðasta ári. Þá hafði hann beðið í meira en átta mánuði eftir úrlausn mála sinna. Hysaj býr enn á gistiheimilinu Fit níu mánuðum síðar.

Ekki náðist í Hysaj en starfskona á gistiheimilinu sagði hann hafa fengið dvalar- og atvinnuleyfi. Eftir að hann missti vinnuna var grundvöllurinn hins vegar farinn og er hann því á sama stað, og bíður enn eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar.

Mál Keníamannsins Paul Ramses hlaut mikla athygli á Íslandi í kjölfar þess að hann var sendur til Ítalíu í júlí sl. eftir að Útlendingastofnun neitaði að taka mál hans til efnislegrar meðferðar.

Efnt var til mótmælafunda og þess krafist að Ramses og fjölskylda hans fengi að vera á Íslandi. Þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, úrskurðaði í ágúst að beiðni Pauls um hæli skyldi vera tekin til efnislegrar meðferðar.

Fjölskyldan, sem fékk tímabundið dvalarleyfi, bíður enn niðurstöðu Útlendingastofnunar.