Ær og kýr Diesel getur vel við unað, hans ær og kýr eru einhliða töffarahlutverk á borð við Dom, sem hann túlkar svipbrigðalítið með sinni grafarraust.
Ær og kýr Diesel getur vel við unað, hans ær og kýr eru einhliða töffarahlutverk á borð við Dom, sem hann túlkar svipbrigðalítið með sinni grafarraust.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Justin Lin. Aðalleikarar: Vin Diesel, Paul Walker, Michelle Rodriguez, Jordana Brewster, John Ortiz, Laz Alonso. 100 mín. Bandaríkin. 2009.

Þreytumerki svífa yfir fjórðu myndinni kenndri við Fast & Furious , sjálfsagt mun hún njóta vinsælda meðal hraðafíkla af yngri kynslóðinni en sá grunur læðist að manni að endurkoma Walkers, og sérstaklega Diesels, sé tilkomin vegna minnkandi vinsælda stjarnanna. Diesel ætlaði sér greinilega að láta fyrstu myndina nægja en þeim hefur vegnað illa nánast allar götur síðan.

Ekki svo að skilja að F &F sé eitthvert metfé, en hún höfðar til þeirra sem hafa gaman af svæsnum kappakstri, dekkjabrennslu, hraðskreiðum bílum, forljótum föntum, svölum ökuþórum, flottum gellum, æsilegum augnablikum og frambærilegum, þó ekki frumlegum brellum.

Dominic Toretto eða Dom (Diesel) hefur hreiðrað um sig í Dóminíska lýðveldinu þar sem hann hokrar í kofaræksni með Letty sinni (Rodriguez). Alríkislöggan O'Conner (Walker) er sloppin úr fangelsi og sameinast gömlu fjandvinirnir samkvæmt skipunum að ofan, til að hafa uppi á mexíkóskum eiturlyfjabaróni sem dælir varasömum efnum inn á markaðinn í norðri.

Diesel getur vel við unað, hans ær og kýr eru einhliða töffarahlutverk á borð við Dom, sem hann túlkar svipbrigðalítið með sinni grafarraust. Walker ( Flags of Our Fathers ) hefur vegnað skár, og þeir pluma sig bærilega saman. Það kemur sér vel því ekki er annað að sjá í lokaatriðinu en að möguleika fyrir framhaldsmynd sé haldið opnum. Aðalstjörnur myndarinnar eru samt sem áður á fjórum dekkjum.

Fast & Furious-fernan

TRYLLITÆKIN voru fyrst gangsett í myndinni The Fast and the Furious ('01), hressilegri kappakstursmynd sem fór að mestu fram á götum Los Angeles. Alríkislöggan O'Conner smyglaði sér í þjófagengi sem keppti í kappakstri á götum borgarinnar á milli þess sem höfuðpaurinn Dom stóð í stórránum. Málin tóku óvænta sílsabeygju þegar O'Conner varð skotinn í systur erkibófans Doms. Svona er ástin óútreiknanleg. 2 Fast, 2 Furious ('03) hafði litlu við að bæta og Diesel var genginn úr vistinni. Myndinni vegnaði engu að síður mjög vel, líkt og þeirri fyrstu. Sama verður ekki sagt um 3. kaflann, The Fast and the Furious: Tokyo Drift ('06), þar var engin Los Angeles, Diesel eða Walker og uppskeran rýr. Stjörnurnar snúa til baka í fjórðu myndinni, og nú er að bíða og sjá hvort þær hjálpa upp á sakirnar.

Sæbjörn Valdimarsson

Höf.: Sæbjörn Valdimarsson