Frá Vilhjálmi Snædal: "GÓÐAN daginn, Friðrik. Ekki get ég þakkað þér fyrir síðast (á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú á dögunum). Það hefði verið þér til sóma að fara frekar í pontu og skamma mig þaðan en að koma út í sal með hávaða og látum."

GÓÐAN daginn, Friðrik. Ekki get ég þakkað þér fyrir síðast (á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú á dögunum). Það hefði verið þér til sóma að fara frekar í pontu og skamma mig þaðan en að koma út í sal með hávaða og látum. Hitt er svo annað mál að aldrei má taka þann helga rétt af mönnum að verða sér til skammar. Ég ætla lítillega að útskýra fyrir þér ástæður fyrir því sem ég sagði á fundinum um framkomu Landsvirkjunar við landeigendur á Fljótsdalshéraði við undirbúning og gerð Kárahnúkavirkjunar. Sendiboðar Landsvirkjunar komu t.d. á heimili á Héraði og tóku upp úr tösku sinni samning um bætur vegna línu- og vegalagninga á viðkomandi jörð og buðu um eina milljón króna fyrir land og efni. Þegar bóndinn gerði athugasemdir við útreikninga Landsvirkjunar og þeir sáu að hann kunni á ýmsu skil, kipptu þeir blaðinu að sér og stungu í púss sitt og tóku upp annað og spurðu hvort honum litist betur á það. Þar var upphæðin fjórum til fimm milljónum hærri.

Finnst þér sæmandi fyrir stofnun eins og Landsvirkjun sem er í eigu ríkisins að fara svona á milli bæja eins og Gróa á Leiti? Hefði ekki verið smekklegra að koma í upphafi með vandað tilboð frekar en að reyna að plata þá sem fylgjast kannski ekki nógu vel með málum?

Ég vil ennfremur nefna aðferðafræðina sem notuð var við að meta verðmæti orkunnar til virkjunarinnar. Það var gert þannig að Stefán Pétursson, fjármálamógúll Landsvirkjunar, fór til verkfræðistofu föður síns og fékk þar það sem Landsvirkjun kallar „hlutlaust mat“. Með slíkum vinnubrögðum er okkur, þinglýstum eigendum réttinda á Fljótsdalshéraði, sýnd fádæma fyrirlitning. Ég vil endurtaka það sem ég sagði á fundinum, það er þér og Landsvirkjun til vansa að vinna svona, ekki síst þér sem einum höfunda slagorðsins Báknið burt!

Þó hafa svo sem fleiri en þú, býsna valdamiklir í Sjálfstæðisflokknum, verið ótrúlega ómerkilegir, t.d. í þjóðlendumálum. Það er góður siður fyrir pólitíkusa að muna síðdegis það sem sagt var fyrir hádegi. Fallegar ræður um einstaklingsfrelsi á öllum sviðum eru góðar ef menn gleyma ekki að vinna eftir þeim. Það gladdi mitt gamla hjarta að finna á Landsfundinum raunverulegan vilja sjálfstæðismanna til að standa vörð um einstaklingsfrelsið og hin gömlu gildi. Hinn almenni flokksmeðlimur gefur ekki mikið fyrir fólkið í fílabeinsturninum. Það er ekki nóg fyrir drengi úr stuttbuxnadeildinni að fara í síðbuxur ef ekki fylgir með raunveruleikatengd vitræn hugsun. Það væri sómavottur að því fyrir Landsvirkjun og forstjórann að biðjast afsökunar á þeim vinnubrögðum sem ég hef hér lýst. Með takmarkaðri virðingu,

VILHJÁLMUR SNÆDAL,

bóndi og landeigandi.

Frá Vilhjálmi Snædal

Höf.: Vilhjálmi Snædal