8. apríl 1979 : „Þjónusta við ferðamenn er orðin umfangsmikil atvinnugrein hér á landi. Á síðasta ári námu gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum svipaðri upphæð og gjaldeyristekjur af útfluttum iðnaðarvörum, þegar álið er undanskilið.
8. apríl 1979 : „Þjónusta við ferðamenn er orðin umfangsmikil atvinnugrein hér á landi. Á síðasta ári námu gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum svipaðri upphæð og gjaldeyristekjur af útfluttum iðnaðarvörum, þegar álið er undanskilið. Fjöldi þeirra, sem hafa atvinnu og tekjur af erlendum ferðamönnum, er geysilegur. Þar má nefna starfsmenn Flugleiða en þeim hlyti að fækka stórkostlega, ef verulegur samdráttur yrði í rekstri félagsins. Starfsmenn hótela, ferðaskrifstofa, bílaleigufyrirtækja, leigubílstjóra, starfsfólk á matsölustöðum, þá sem framleiða vörur, sem ferðamenn kaupa, og fjölmarga aðra starfshópa, sem með einum eða öðrum hætti hafa tekjur af erlendum ferðamönnum, tekjur, sem í mörgum tilfellum ráða úrslitum um, hvort afkoma fólks er sæmileg eða góð.“

9. apríl 1989 : „Ólafur Ragnar Grímsson stjórnar nú ríkissjóði Íslands, því fyrirtæki landsmanna, sem hefur verið rekið með mestum halla undanfarin ár. Hallarekstur þessa fyrirtækis er ekkert gamanmál vegna þess, að hann er meginástæðan fyrir þeim háu raunvöxtum, sem atvinnulífið stynur undan. Lánsfjárþörf þessa fyrirtækis er svo mikil, að eftirspurn þess eftir lánsfé keyrir upp vextina. Jafnframt er þetta eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi, sem geta skammtað sér tekjur með skattlagningu á þjóðina. Í desember og janúar beitti þessi sami fjármálaráðherra sér fyrir gífurlegum skattahækkunum, sem hafa ekki aðeins þau áhrif að skerða ráðstöfunartekjur fólks heldur hafa þær haft bein áhrif á að hækka lánskjaravísitölu og þar með skuldabyrði fyrirtækja og einstaklinga.

Sjávarútvegurinn á Íslandi er það atvinnufyrirtæki, sem þjóðin lifir á. Þetta fyrirtæki getur ekki skammtað sér tekjur. Þetta fyrirtæki getur ekki tekið ákvörðun um að mæta hallarekstri með skattlagningu á þjóðina.“