Það er eðlilegt að staða lífeyrissjóðanna hafi verið til umræðu undanfarnar vikur. Sjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki í því velferðarkerfi sem Íslendingar hafa byggt upp síðustu áratugi. Þeir eiga að tryggja fólki ákveðna framfærslu á efri árum. Umræðan snýst því um hagsmuni almennings, sem treystir lífeyrissjóðunum til að ávaxta fé sitt þangað til fólk fer á eftirlaun.
Áhrif hrunsins mikil
Nýverið birtu lífeyrissjóðirnir bráðabirgðatölur yfir raunávöxtun á síðasta ári. Kom þá í ljós hversu hart efnahagsástand heimsins hefur leikið eignasafn þeirra. Að meðaltali var ávöxtunin neikvæð um 21,5% að teknu tilliti til þróunar verðlags.Þetta á ekki að þurfa að koma á óvart. Eignaverð hefur hríðfallið vegna hamfara á heimsmörkuðum í kjölfar bankakreppunnar. Þar sem fjármálakerfið var risavaxið á Íslandi miðað við umfang efnahagslífsins var höggið mikið hér á landi. Fjármálafyrirtæki voru talin traust fjárfesting. Fall bankanna og stórra fyrirtækja hefur því víðtæk áhrif á þá sem fjárfestu í þeim eða lánuðu peninga.
Þetta þarf að horfast í augu við svo hægt sé að kortleggja raunverulega stöðu lífeyrissjóðanna og hvort eitthvað megi læra af fortíðinni. Stjórnendur og samtök lífeyrissjóða hafa ekki einkarétt á þeirri umræðu. Uppgjör verður að eiga sér stað á þessum vettvangi eins og öðrum í íslensku samfélagi. Sérstaklega í ljósi þess að allir Íslendingar tengjast lífeyrissjóðakerfinu með einum eða öðrum hætti. Afdrif þeirra hafa bein áhrif á lífskjör fólks. Því verður að horfa á staðreyndirnar, læra af þróuninni og endurskoða framtíðina í ljósi þess sem gerðist.
Undan þessu víkur Morgunblaðið sér ekki. Síðustu vikur hefur blaðið reynt að meta áhrif efnahagskreppunnar á stöðu lífeyrissjóðanna. Það er meðal annars gert í þeim tilgangi að upplýsa hvort sjóðfélagar eigi eftir að tapa meiri verðmætum en þegar hefur verið gefið upp opinberlega. Einnig til að athuga hvort tilhneigingin sé sú að færa eignir ekki hratt niður í þeim tilgangi að dreifa afskriftum yfir lengri tíma.
Sé það gert er verið að mismuna kynslóðum. Þá er verið að taka peninga af þeim sem nú greiða í sjóðina og afhenda öðrum. Er til dæmis réttlátt að taka 10 til 20 krónur af hverjum 100 krónum sem hver einstaklingur leggur í lífeyrissjóð til að greiða núverandi lífeyrisþegum? Þetta er spurning um réttlæti.
Vanmat á niðurfærslum
Niðurstaðan í fréttaskýringum Morgunblaðsins var sú að eftir sé að afskrifa meira af verðbréfum banka og fyrirtækja í eignasöfnum sjóðanna en þegar hefur verið gert. Því er varlega áætlað að neikvæð raunávöxtun sjóðanna á síðasta ári sé nær 33% en 21,5%.Þetta sést meðal annars með því að bera saman eignastöðu í upphafi og lok árs 2008 miðað við tölur frá Seðlabanka Íslands og finna út hvað hefur verið fært mikið niður af þessum bréfum. Skuldabréf banka hafa sem dæmi verið færð niður um tæp 30 prósent. Skuldabréf fyrirtækja hafa verið færð niður um tæp 12 prósent á sama tímabili.
Það gefur vísbendingar um að ekki sé búið að taka fullt tillit til áhrifa kreppunnar á eignastöðu lífeyrissjóðanna. Á því geta verið eðlilegar skýringar. Markmið Morgunblaðsins var hins vegar að greina lesendum frá stöðunni eins og hún virðist vera – byggt á mati sérfræðinga og blaðamanna viðskiptaritstjórnar blaðsins.
Svo dæmi sé tekið gerir Lífeyrissjóður verzlunarmanna ekki ráð fyrir að afskrifa neitt af skuldabréfi sem sjóðurinn keypti af Bakkavör. Í Morgunblaðinu í vikunni kom fram að Bakkavör geti ekki greitt þetta skuldabréf, sem er á gjalddaga í maí. Það er verið að reyna að semja við eigendur bréfanna um að framlengja gjalddagann fram á næsta ár. Lífeyrissjóðir og aðrir hafa ekkert val í þeim efnum því ekki er hægt að ganga að móðurfélaginu. Þangað er engar eignir að sækja.
Svigrúm til afskrifta
Ástæðulaust er að ætla annað en stjórnendur Bakkavarar ætli að greiða þessa 30 milljarða til baka á næsta ári. Það er samt ekki sjálfgefið í núverandi árferði. Árið 2008 var versta rekstrarár í sögu félagsins. Lífeyrissjóðirnir hafa svigrúm til að færa þessi bréf niður í bókum sínum til varúðar vegna ástandsins. Hins vegar gerðu það ekki allir.Ef einhverjum kann að þykja fráleitt að færa verðmæti skuldabréfs Bakkavarar niður er hægt að benda á frétt Morgunblaðsins á fimmtudaginn. Þar segir að skuldabréf Landsvirkjunar seljist nú með miklum afslætti á alþjóðlegum mörkuðum. Fjárfestar óttast að fyrirtækið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir fimm ár. Ekki eitt ár. Óþarfi er að taka fram að ríkið er bakhjarl Landsvirkjunar og eigandi.
Þetta einstaka dæmi er tekið til að sýna fram á að stjórnendur lífeyrissjóða, þrátt fyrir að hafa bæði löggilta endurskoðendur og tryggingastærðfræðinga sér til halds og trausts, hafa ákveðið svigrúm til að gera upp árið 2008. Aðferð Morgunblaðsins við að meta stöðuna felur ekki í sér ásökun um að þessir aðilar hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi. Að halda slíku fram er fullkomlega ómálefnalegt og bendir til þess að menn forðist að ræða það sem skiptir máli í þessu sambandi; raunverulega stöðu lífeyrissjóðanna og hagsmuni sjóðfélaga.
Það var því vægast sagt sérstakt að miðstjórn Alþýðusambands Íslands sá ástæðu til harma umfjöllun fjölmiðla um málefni lífeyrissjóðanna í sérstakri ályktun. Það ætti að vera keppikefli samtaka launþega að átta sig á hvaða áhrif hrun efnahagslífsins hefur á félagsmenn þeirra.
Ekkert hefur komið fram undanfarna daga sem hrekur þessa úttekt Morgunblaðsins á afkomu sjóðanna á síðasta ári. Athugasemdir hafa verið almennar og jafnvel beinst að aukaatriðum.
Ekki allir skilað uppgjöri
Auðvitað hafa sjóðir gengið mislangt í því að afskrifa eignir eins og skuldabréf fjármálastofnana og fyrirtækja. Morgunblaðið hefur sent stærstu lífeyrissjóðunum bréf og spurt ítarlega um afskriftir skuldabréfa sem ekki eru ríkistryggð. Svör hafa borist frá nokkrum þeirra. Einnig er rétt að benda á að ekki hafa allir sjóðir lokið uppgjöri sínu og eiga því erfitt með svör.Staða lífeyrissjóða er vissulega misjöfn innbyrðis. Vegna þess að tölur liggja ekki fyrir um stöðu hvers og eins lífeyrissjóðs verður að fjalla um lífeyrissjóðakerfið í heild þegar fjallað er um árangur eða árangursleysi síðasta árs. Yfirlýsingar um að ekki sé rétt að setja alla stjórnendur undir sama hatt eiga því ekki rétt á sér.
Lentu í bólunni
Stjórnendur íslenskra lífeyrissjóða soguðust eins og aðrir inn í þá eignabólu sem einkenndi fjárfestingar þegar nóg var af lausu fé í heiminum. Nú leikur vafi á hvort innstæða hafi verið fyrir stórum yfirlýsingum um mikinn árangur undanfarin ár.Sé horft til síðustu tíu ára er ljóst að fjárfestingarstefna lífeyrissjóða stendur ekki undir væntingum um 3,5% raunávöxtun. Því þarf að ná til langs tíma svo lífeyrissjóðir geti tryggt lágmarkslífeyri samkvæmt lögum að teknu tilliti til örorkugreiðslna.
Í frétt á heimasíðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins segir til dæmis að með vissum rökum megi halda því fram að ekki hafi verið innstæða fyrir þeim hækkunum sem bókfærðar voru á undanförnum árum vegna innlendra hlutabréfa.
Reyndar má spyrja almennt um hvatann á bak við fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Af hverju var svo lítil áhersla lögð á kaup á verðtryggðum ríkisbréfum? Lífeyrissjóðir hefðu þannig getað tryggt sér áhættulausa raunávöxtun til langs tíma. Vextir á lengstu ríkistryggðu verðtryggðu skuldabréfunum hafa að meðaltali verið 4,5% síðastliðin tíu ár. Þróun á samsetningu eigna lífeyrissjóðanna, sem greint var frá í Morgunblaðinu 26. mars, sýnir að hlutabréf urðu æ stærri hluti eignasafna.
Auðvitað er rétt, sem fram kemur í svörum lífeyrissjóðanna, að ekki voru tækifæri til að kaupa bara ríkistryggð verðbréf. Hins vegar er hlutfall þeirra í eignasöfnum minna en æskilegt er. Það vekur þá spurningu hvort markmið stjórnenda var að vera stórir þátttakendur á markaðnum í stað þess að velja áhættuminni leiðir.
Áhættusæknin var verðlaunuð í bókum lífeyrissjóðanna. Eftir því sem útgefandi skuldabréfs var ótraustari og ávöxtunarkrafan þar af leiðandi hærri því meiri hagnað gátu lífeyrissjóðirnir fært í bækurnar við kaup á slíku bréfi. Nú súpa sjóðfélagar seyðið af því. Áhættan vó ekki upp á móti væntri ávöxtun af áhættuminni kostum.
Það er því ljóst að það sem kallað er tryggingafræðilegur útreikningur þarf að endurskoða. Ávöxtun undanfarin ár var að vissu leyti byggð á tálsýn.
Áhættudreifing bágborin
Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, segir í Morgunblaðinu að auðvelt sé að gagnrýna fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna eftir á. „Ef gagnrýna á íslenska lífeyrissjóði fyrir lélega áhættustýringu hlýtur gagnrýnin fyrst og fremst að vera sú að þeir hafi fjárfest of mikið í eigin hagkerfi.“Það er rétt hjá Kára. Skynsamlegt er að dreifa áhættunni. Hins vegar er furðulegt að skoða hvernig áhættunni var dreift þegar fjárfest var erlendis. Erlend skuldabréfaeign lífeyrissjóðanna í árslok 2008 nam aðeins 7,2 til 10,8% af erlendri hlutabréfaeign. Því fer fjarri að öll erlend skuldabréf sjóðanna hafi verið ríkisskuldabréf.
Af hverju var ekki fjárfest meira í erlendum ríkisskuldabréfum til að dreifa áhættunni? Því verða stjórnendur lífeyrissjóðanna að svara. Ávöxtun af erlendum ríkisskuldabréfum hefur almennt verið ágæt undanfarin ár og ólíklegt að sjóðirnir hefðu tapað á slíkum fjárfestingum. Hvað þá í ljósi þess sem hefur gerst.
Við höfum oft státað okkur af besta lífeyrissjóðakerfi í heimi. Vandamálunum er ekki safnað upp heldur sýnd fyrirhyggja og lífeyri safnað til elliáranna. Ekki er ástæða til að vefengja þá leið núna. Hins vegar verður að horfa gagnrýnum augum á þá stefnu sem fylgt hefur verið. Og læra af reynslunni.
LífYRISSJÓÐIR
Hrein eign janúar 2009
1.615
milljarðar króna
Nettó Iðgjöld árið 2008
93,5
milljarðar króna
Nettó tap árið 2008
175,5
milljarðar króna
Árleg meðalraunávöxtun sl. 5 ár
1,7%
Markmið um meðalraunávöxtun á ári
3,5%