Sumir ráðherrar virðast hafa misskilið hlutverk sitt í ríkisstjórn, sem horfist í augu við einhvern mesta niðurskurð ríkisútgjalda, sem nokkru sinni hefur þurft að ráðast í.
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra var á dögunum spurð um niðurskurð á fjárframlögum til þjóðgarðsins á Snæfellsnesi, sem ákveðinn var í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Ráðherrann sagði í fréttum RÚV: „Það sem er mjög miður er að það skyldi hafa verið skorið niður fjárframlag til gestastofu í þjóðgarðinum Snæfellsjökli um 50 milljónir [...] En það breytir ekki því að ég sko, það er ekkert sem mælir þessu bót.“
Ekkert sem mælir því bót að því sé frestað að byggja gestastofu fyrir ferðamenn?
Ekki einu sinni það að íslenzka ríkið er á hausnum og ýmis brýnni verkefni?
Í sama viðtali lifnaði aðeins yfir umhverfisráðherranum þegar hún lýsti hugmynd sinni um nýja ríkisstofnun: „Þjóðgarðastofnun Íslands, sem hefði með stjórnsýslu með öllum þjóðgörðunum okkar að gera og ég tel það vera svona eitt af því sem við þurfum að fara að huga að alveg á næstu, í nánustu framtíð, að gera slíkar breytingar.“
Þetta er í fullu samræmi við erindi Kolbrúnar á ársfundi Umhverfisstofnunar. Þar sagði hún: „Mín sýn til framtíðar gengur út á það að umhverfisráðuneytið fái hliðstæða stöðu í Stjórnarráði Íslands og ráðuneyti fjármála og efnahagsmála.“