AICON, sem er hugbúnaðarfyrirtæki, vinnur nú að því að laga Vefþuluna að pdf-útgáfu Morgunblaðsins á netinu. Vefþulan er vefþjónusta sem er þeim eiginleikum gædd að breyta texta á skjá í hljóð og nýtist því blindum, lesblindum og öðrum sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með lestur. Guðmundur Jónsson, framkvæmdastjóri Aicon, segir tæknilega ekkert þessu til fyrirstöðu og vonast til að forritið, sem gerir þetta kleift, verði komið í gagnið síðar á þessu ári.
Um nokkurt skeið hefur mátt hlýða á fréttir á mbl.is með því að velja „upplestur á frétt“ en hugmyndir um að Vefþulan nái til blaðsins alls á netinu eru nýjar af nálinni.
„Talar“ 38 tungumál
Vefþulan er margslungið fyrirbæri og önnur gáfa hennar er að þýða texta á önnur tungumál. Guðmundur segir forritið hafa 38 tungumál á sínu valdi og innan skamms verði unnt að bjóða lesendum pdf-útgáfu Morgunblaðsins upp á þýðingu. Með því að nálgast blaðið á netinu verði því hægt að hlusta á upplestur á pólsku, ensku og ýmsum öðrum tungumálum.Ekki nóg með að Vefþulan „tali“ 38 tungumál, heldur er hún líka með hreiminn á hreinu. Þannig er t.d. hægt að velja um enskan, bandarískan og ástralskan hreim.
Guðmundur viðurkennir að þýðingin verði ef til vill óþjál í fyrstu en með aðlögun og góðum ábendingum frá notendum megi án efa sníða helstu vankanta af.
Ingvar Hjálmarsson, netstjóri mbl.is, lýsir ánægju sinni með þetta fyrirhugaða samstarf sem styrki enn frekar þá stefnu Árvakurs að gera til dæmis blindum, sjóndöprum og lesblindum kleift að fá lesið efni Morgunblaðsins. Hann segir það einnig mikilvægan kost að í framtíðinni verði hægt að fá efni úr blaðinu þýtt jafnóðum á mismunandi tungumál. orri@mbl.is | 14