Garðar H. Hjörgvinsson
Garðar H. Hjörgvinsson
Frá Garðari H. Björgvinssyni: "ÞAÐ FER ekki fram hjá neinum að þjóðfélag vort er í afar djúpum öldudal, en erfiðleikar herða manninn og minna á að við erum af víkingum komin. Landið okkar er besta landið í heimi með nægar auðlindir, en þar ber hæst sjávarauðlindina."

ÞAÐ FER ekki fram hjá neinum að þjóðfélag vort er í afar djúpum öldudal, en erfiðleikar herða manninn og minna á að við erum af víkingum komin. Landið okkar er besta landið í heimi með nægar auðlindir, en þar ber hæst sjávarauðlindina. En því miður hefur skammsýni valdið misþyrmingu á landgrunninu og með síaukinni veiðitækni og aflmeiri skipum, þá er búið að gjöreyða öllu skjóli og afdrepi á uppeldisstöðvum fiskistofna á landgrunninu.

Meiri hagsmunum hefur verið fórnað fyrir minni, og nægir þar að nefna allt of græðgisfullar loðnuveiðar með stórvirkum nótum og flottrollum, en notkun flottrolla ætti alfarið að banna við veiðar á uppsjávarfiski, sér í lagi á síld, kolmunna og loðnu.

Ég undirritaður hef sagt mig úr Frjálslynda flokknum því honum hefur mistekist það ætlunarverk sitt að koma böndum á kvótakerfið. Ég tel farsælast að efla Samfylkinguna og Vinstri græna, ég tel að Jóhanna Sigurðardóttir sé löngu búin að sanna það að henni er best trúandi fyrir stýri þjóðarskútunnar. Heiðarleiki og drengskapur hafa ávallt einkennt hennar vinnubrögð. Ég tel að lýðræðishreyfingin eigi erindi inn á þjóðþingið, því lýðræði skal alltaf í hávegum haft, hver svo sem stjórnar þjóðfélaginu. Framtíð fiskveiða felst í þessu.

Snúum vörn í sókn með aflahámarkstillögu sem hlaut sigur á aðalfundi smábátaeigenda 13. október 1995 og hljóðar svona: „Tíu tonn þorskur á stærðartonn viðkomandi báts.“ Aðrar fisktegundir sem á krókana koma verði utan hámarksins. Fiskur sem er undir 40 cm verði einnig utan hámarksins, en söluverðmæti hans greiðist að hálfu til veiðandans og að hálfu til slysavarna, björgunarþyrlu og hafrannsóknaverkefna. Með því að greiða smáfiskinn að hálfu er allt frákast úr sögunni nema á lifandi fiski.

Bátar upp að 12 lestum verði teknir í krókakerfið, en þó bátur sé yfir 6 tonn þá verði hámarkið aldrei hærra en 60 tonn af þorski. Varðandi báta yfir 6 tonn að stærð, að þessi 60 tonna viðmiðun verði til prufu þar til jafnvægi næst og aflahámarkskerfið verður viðurkennt sem fiskveiðistýring yfir allan flotann. Að þeir sem nú eru með aflareynsluhámark sem er hærra en 60 tonn fái að halda því aflareynslumagni á meðan þeir veiða það sjálfir.

Öll sala og leiga aflaheimilda verði aflögð.

Að 10% af uppvigtuðu aflaverðmæti renni beint frá fiskkaupanda í ríkissjóð. Þeir sem borga aflagjaldið fái rétt til að ráðstafa því samkvæmt vilja félags krókaveiðimanna á Íslandi. Varðandi forgangsröð gjaldsins: Fyrst verði það látið renna til heilbrigðiskerfisins, síðan koll af kolli til þeirra málaflokka sem mest þarfnast fyrirgreiðslu til almannaheilla. Þannig skilar sjávarútvegurinn í raun arði til þjóðarinnar. Geri allur flotinn þetta sem trillukarlar bjóða að greiða 10% af aflaverðmæti, skilar það rúmum 6 milljörðum í ríkissjóð árlega. Aflahámarkskerfi gerir alla banndaga óþarfa og því ríkir frelsi að vissu marki. Afþakka þarf ýmsa gjaldliði sem nú eru við lýði og sameina þetta 10% aflagjald undir einn hatt.

Hverju mun aflahámarkstillagan valda? Aflahámarkstillagan mun valda því að landsbyggðin fer á fullan damp, öll mannlaus hús á landsbyggðinni svo og íbúðir munu fyllast af fólki. Félagsheimili, heilsugæslustöðvar og önnur slík mannvirki verða tekin í fulla notkun, því 20.000 störf verða til á innan við tveim mánuðum.

Ég vil einnig endurreisa skipaiðnað en við það skapast 10.000 störf. Það gerum við svona: Við gerum það að lögum að úrelda skuli 50 tonn fyrir hvert tonn í stækkun skipa. Menn skuli borga í ríkissjóð 3 milljónir fyrir hvert tonn í stækkun.

Fyrir hönd Framtíðar Íslands,

GARÐAR H. BJÖRGVINSSON,

Herjólfsgötu 18, Hafnarfirði.

Frá Garðari H. Björgvinssyni

Höf.: Garðari H. Björgvinssyni