FYRIR nálægt 60 árum kom út bókin Blekking og þekking eftir Níels Dungal prófessor. Þetta er sígild bók sem fjallar að mestu leyti um blekkingar kirkjunnar í gegnum aldirnar en einnig almennt um sífellda togstreitu blekkingar og þekkingar. Þetta rifjast upp núna þegar páfinn er líklega nýbúinn að dæma milljónir manna til dauða í Afríku með fordæmingu sinni á notkun smokka í baráttunni við alnæmi. Sífellt er verið að blekkja fólk, stundum í fjármálum en oft í læknisfræði. Lofað er lækningu og bættri heilsu ef fólk bara fjárfestir í viðkomandi vöru. Oftast er um að ræða innantóm loforð sem eiga sér engan vísindalegan bakgrunn og þessar vörur eru venjulega dýrar. Annað einkenni á þessum vörum er að þær ganga oft vel í vissan tíma en falla síðan í gleymsku. Stundum ganga auglýsingarnar og blekkingaleikurinn alveg fram af manni.
Ein vara sem mikið er auglýst um þessar mundir nefnist Immiflex og er sögð innihalda nýtt og byltingarkennt efni sem læknar kvef og alls kyns pestir. Ég hélt að svona auglýsingar væru bannaðar en þetta er látið óátalið. Manni er sagt að þessi vara innihaldi Wellmune sem sé öflugasta beta-glúkan í heimi en beta-glúkön efli ónæmiskerfið. Beta-glúkön eru margvísleg efni sem þekkt hafa verið lengi og gerður hefur verið fjöldi rannsókna á þeim. Erfiðlega hefur þó gengið að sýna fram á ágæti þeirra við kvefi og öðrum öndunarfærasýkingum.
Í stórum læknisfræðilegum gagnagrunnum er ekkert að finna um Immiflex eða Wellmune sem þýðir að engar rannsóknaniðurstöður með þessi efni hafa verið birtar í tímaritum. Á vefsíðu framleiðandans (wellmune.com) er greint frá fjórum rannsóknum sem ýmist gefa enga marktæka niðurstöðu eða eru þannig gerðar að ekki er hægt að draga af þeim neinar ályktanir og engin þeirra hefur verið birt. Ekki er hægt að fullyrða að Immiflex geri ekkert gagn en meðan ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi með rannsóknum er engin ástæða til að trúa auglýsingunum.
Þetta er þó hátíð miðað við Lifewave plástrana sem eru fokdýrir enda lækna þeir nánast allt. Mikið hefur verið skrifað um Lifewave erlendis enda um að ræða óvenju ósvífnar blekkingar. Í lýsingum á því hvernig plástrarnir verka eru notuð alls kyns orð eins og nanótækni, rafsegulbylgjur, útvarpsbylgjur og hitasegulsvið til að láta fólk halda að um hátæknilega vöru sé að ræða. Eigandi fyrirtækisins segist hafa fundið þetta allt upp en hann hefur aldrei birt eina einustu fræðigrein og neitar að gefa upplýsingar um menntun og fyrri störf. Á vefsíðu fyrirtækisins er sagt að gerðar hafi verið 16 klínískar rannsóknir en engin þeirra hefur verið birt. Einnig er sagt að sumar þessara rannsókna hafi verið gerðar í samvinnu við Troy-háskólann í Bandaríkjunum en aðspurðir fullyrða talsmenn skólans að engar slíkar rannsóknir hafi farið þar fram og skólinn hafi engin tengsl við þetta fyrirtæki. Óháðir vísindamenn í Bandaríkjunum og Bretlandi sem kannað hafa Lifewave hafa komist að þeirri niðurstöðu að málið sé ein allsherjar blekking frá upphafi til enda. Þessar upplýsingar eru allar aðgengilegar á netinu og fólk er hvatt til að kynna sér staðreyndir áður en það eyðir stórfé í heilsuvörur.
Af nógu er að taka en mig langar að nefna í lokin blekkingarnar í kringum bólusetningar sem orsök sjúkdóma. Því miður er til fólk sem er svo illa upplýst og fordómafullt að það berst gegn bólusetningum sem er sú aðferð sem hefur gert mest gagn í baráttunni við sjúkdóma í heiminum. Enginn heldur því fram að bólusetningar séu fullkomlega hættulausar en hættan sem fylgir þeim er ákaflega lítil. Það alvarlega í þessu máli er að þessi barátta er farin að kosta líf og heilsu fólks, langmest barna. Fyrst snerist málið um MMR-bóluefnið (mislingar, hettusótt og rauðir hundar) og einhverfu en breiddist síðan út til annarra bóluefna, einkum þeirra sem innihalda rotvarnarefni sem í er kvikasilfur (tíómersal). Málið er í raun sáraeinfalt ef litið er til staðreyndanna. Aldrei hafa sést nein tengsl milli bólusetninga og einhverfu, þvert á móti liggja fyrir niðurstöður margra rannsókna sem mæla mjög eindregið gegn slíkum tengslum. Breski læknirinn sem fyrst stakk upp á þessu varð uppvís að fölsunum sem rekja má til hagsmunatengsla og er nú landflótta og útskúfaður. Allt bendir til þess að tíómersal sé meinlaust efni en notkun þess er að miklu leyti hætt og það er ekki í MMR-bóluefninu. Þeir sem berjast gegn MMR-bólusetningum vita sennilega lítið um mislinga og hvernig þessi sjúkdómur lagði börn í stórum stíl í gröfina í Evrópu en gerði önnur örkumla. Áætlað hefur verið að síðan bólusetningar af þessu tagi urðu algengar upp úr 1970 hafi þær forðað milljónum barna frá dauða eð alvarlegri fötlun. Barátta umræddra hópa gegn bólusetningum hefur leitt til þess að nú eru börn aftur farin að deyja úr mislingum (í Evrópu og Ameríku) og þá spyr maður sig hver sé ábyrgð þessa baráttufólks, er það e.t.v. farið að hafa líf og heilsu barna á samviskunni.
Höfundur er læknir og prófessor við Háskóla Íslands og starfar fyrir Lyfjastofnun.