Hallur Hallsson
Hallur Hallsson
Hallur Hallsson fjallar um Nýfundnaland, inngöngu þess í Kanada og stefnuna í Evrópu: "Verður aftur snúið ef íslensk þjóð gengur í Evrópusamband sem breytist í Bandaríki Evrópu? Hver verður þá dómur sögunnar?"

31. MARS 1949 er örlagadagur í sögu nýfundlensku þjóðarinnar. Þá gekk þjóðin í kanadíska ríkjasambandið eftir tvennar umdeildar kosningar. Kreppan hafði skollið af þjóðinni af miklum þunga svo hún missti sjálfstæði sitt nokkrum misserum eftir að Íslendingar höfðu öðlast sjálfstæði. Daginn eftir að íslensk þjóð gekk til samstarfs við fullvalda vestrænar þjóðir í Nato gengu Nýfundlendingar hnípnir inn í Kanada.

Pólitíkin í St. John's mótast af andófi við alríkisstjórnina í Ottawa. Í kanadísku þingkosningunum 2008 skar leiðtogi íhaldsmanna á Nýfundnalandi, Danny Williams, upp herör gegn stjórn Íhaldsins í Ottawa. Hann sakaði íhaldsstjórn Stevens Harper um að svíkja loforð gagnvart Nýfundlendingum. „ Easy as ABC “ var slagorð Williams og félaga en ABC stóð fyrir Anything but Conservative – allt nema Íhaldið! Williams og félagar sumsé snérust gegn eigin flokki, tóku þjóðarhagsmuni fram yfir flokkshagsmuni. Nýfundlendingar urðu við kallinu. Enginn íhaldsmaður var kjörinn á þingið í Ottawa en af 308 þingmönnum eru sjö frá Nýfundnalandi.

Þjóðinni fækkaði og fáninn dreginn niður

Íhaldsmaðurinn Danny Williams er dýrkaður í Nýfundnalandi. Í kosningum 2007 fékk Íhaldsflokkurinn 44 af 48 þingsætum sem í boði voru á fylkisþinginu í St. John's. Íhaldsmenn nánast þurrkuðu út Frjálslynda flokkinn sem hafði forgöngu um inngönguna í kanadíska ríkjasambandið undir stjórn kratans Joey Smallwood. Þjóðargjaldþrot í kreppunni miklu reyndist Nýfundlendingum dýrkeypt. Síðustu tvo áratugi 20. aldar fækkaði Nýfundlendingum úr 568 þúsundum í 505 þúsund meðan Íslendingum fjölgaði úr 230 þúsundum í liðlega 300 þúsund.

Danny Williams komst til valda í St. John's árið 2003. Hann er óragur við að takast á við alríkisstjórnina í Ottawa. Í árslok 2004 lét hann taka niður kanadíska fána við opinberar byggingar á Nýfundnalandi. Það var dramatísk gjörð, mótmæli gegn kanadísku valdi vegna deilna um arð af olíuvinnslu á Miklabanka. Forsætisráðherra Nýfundnalands sakaði kanadísk stjórnvöld um svik við Nýfundlendinga. „Flag Flap“ var hitamál í Kanada.

St. John's úthlutaði kvóta þegar Ottawa bannaði veiðar

Árið 1992 bönnuðu yfirvöld í Ottawa þorskveiðar á Miklabanka. Þorskurinn hefur þó ekki náð sér á strik eftir áratuga veiðar útlendra ryksugutogara meðan kanadísk stjórnvöld litu undan en Íslendingar háðu sín þorskastríð. Hrun þorsksins var þungur kross að bera og draugabæir algeng sjón en 13,7% atvinnuleysi er á Nýfundnalandi. Þegar sjávarútvegsráðherra Kanada lagði bann við þorskveiðum á Miklabanka og Lawrenceflóa árið 2003 gáfu yfirvöld í St. John's út eigin þorskkvóta í Lawrenceflóa. Enginn yrði sóttur til saka fyrir að brjóta fiskveiðibann alríkisstjórnarinnar! Þrátt fyrir menningarlega einsleitni snýst pólitíkin í St. John's um andóf gegn Ottawa.

Ísland í Europe Unie?

Á nýrri öld er Evrópa að sameinast. Með gildistöku Lissabon-samningsins verða til staðar helstu stofnanir sem einkenna þjóðríki; embætti forseta, utanríkisstefna, varnarstefna, [þjóð]þing, [ríkis]stjórn, gjaldmiðill, dómskerfi, fáni, þjóðsöngur, þjóðhátíðardagur – svo helsta sé nefnt. Og evrópskur her er á næsta leiti. Margra dreymir um Bandaríki Evrópu. Giscard D'Estaing, gamli Frakklandsforseti, vill helst kalla ríkið Europe Unie. Eru jafnar líkur á evrópsku stórríki, 25% líkur, 10%?

Hvert stefnir Evrópa? Um það vitum við ekki því engin pólitísk markmið hafa verið gefin út. Brusselvaldið bara vex og dafnar á kostnað þjóðríkja. Þurfa komandi kynslóðir að glíma við fjarlægt vald í evrópsku stórríki? Hvernig taka íslenskir sjómenn brusselskum kvótatilskipunum í hörðu ári? Hvað um mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu og umræðu um samevrópska orkustefnu og olíu?

Eignast íslensk þjóð sinn Williams til þess að verjast ásælni Brussel ef Evrópa breytist í stórríki; eða annan Jón Sigurðsson sem leiðir baráttu þjóðar til sjálfstæðis? Fyrir Nýfundlendinga verður ekki aftur snúið. Verður aftur snúið ef íslensk þjóð gengur í Evrópusamband sem breytist í Bandaríki Evrópu? Hver verður þá dómur sögunnar?

Íslensk þjóð verður að vita hvert Evrópa stefnir áður en hún tekur jafn örlagaríka ákvörðun. Ef Evrópusambandið verður klúbbur þjóðríkja sem hafa samvinnu um efnahagsmál þá er einsýnt að knýja dyra í Brussel. En þar liggur efinn. Á meðan Evrópa hefur ekki gert upp hug sinn á íslensk þjóð að fara sér hægt og forðast að binda hendur komandi kynslóða. Nokkrum misserum eftir að Íslendingar gengust undir Gamla sáttmála hófst hrunadans norska stórríkisins; Suðureyjar og Mön fóru undir Skotakonung, svo var konungsvald flutt frá Björgvin til Oslóar. Stuttu síðar vorum við í konungssambandi við Svía og lentum svo í skúffu í Kaupmannahöfn með sameiningu Norðurlanda. Í upplausn danska ríkisins á 19. öld náðum við vopnum okkar og fengum heimastjórn 1904. Í hinu kalda stríði 20. aldar varð Ísland áhrifamesta smáríki veraldar meðan Evrópa var í sárum eftir tvær heimsstyrjaldir. Nú er Evrópa að ná vopnum sínum og bankar uppá á ný. Kynslóðir sem nú halda á fjöreggi þjóðar verða að vanda val sitt.

Höfundur er blaðamaður.

Höf.: Hallur Hallsson fjallar um Nýfundnaland, inngöngu þess í Kanada, stefnuna í Evrópu