[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún var heldur betur afdráttarlaus og þverpólitísk slátrun viðskiptanefndar Alþingis á frumvarpi Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, um breytingu á ýmsum lögum um fjármálamarkaði.

Hún var heldur betur afdráttarlaus og þverpólitísk slátrun viðskiptanefndar Alþingis á frumvarpi Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, um breytingu á ýmsum lögum um fjármálamarkaði. Nefndin lagði einfaldlega til að allar greinar frumvarpsins, er lutu að heimildum Fjármálaeftirlitsins til að falla frá saksókn vegna brota á lögum um fjármálamarkað, væru felldar út. Átta af níu nefndarmönnum lögðu þetta til, sá níundi var fjarverandi.

Ég verð að viðurkenna, að mér þykir nokkuð til þess koma, þegar þverpólitísk samstaða skapast í nefndum Alþingis um afgreiðslu mála og því fór ég að glugga í álit viðskiptanefndar og finnst flest þar til mikilla bóta.

Nú halda lesendur örugglega að ég sé komin á einhverjar gleðipillur, en svo er ekki. Mér datt bara í hug að fjalla aðeins um þetta nefndarálit og afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu, því ég tel að vinnubrögð nefndarinnar gætu verið vegvísir um ný og betri vinnubrögð.

Viðskiptanefnd sagði í áliti sínu ljóst að svo umfangsmiklar breytingar, sem mælt hefði verið fyrir um í frumvarpinu og fælust í því að eftirlitsstofnun gæti ákveðið að kæra tiltekin brot ekki til lögreglu, væru umdeildar. Það finnst mér vægt til orða tekið. Með lögfestingu þeirra yrði úrslitavald um það hvort brot á fjármálamarkaði væru rannsökuð af lögreglu og sættu eftir atvikum ákærumeðferð af hálfu ákæruvalds, fært í hendur eftirlitsstofnunar (FME).

Nefndin benti á að brot sem féllu undir FME kynnu að vera alvarleg og gætu einnig varðað við ákvæði annarra laga, svo sem almennra hegningarlaga.

„Um það var rætt í nefndinni að almennt er ekki og á ekki að vera unnt að semja sig frá ákvörðun um saksókn... Nefndin telur að ákvarðanir um niðurfellingu saksóknar ætti að taka innan refsivörslukerfisins,“ segir orðrétt í álitinu.

Ég fæ ekki betur séð en nefndarálit viðskiptanefndar sé mjög skynsamlegt og að niðurfelling þeirra átta greina sem nefndin lagði til sé til þess fallin að draga úr tortryggni í garð FME. Ég held að það séu einmitt svona vinnubrögð sem Alþingi þurfi að ástunda. Vitanlega er ekki hægt að gera þá kröfu í þingnefndum Alþingis, að það sé einhver regla fyrir því að nefndirnar nái ávallt sameiginlegri niðurstöðu. Eðli málsins samkvæmt er oft um álit meirihluta og álit minnihluta að ræða.

En í þessum efnum held ég að við verðum sérstaklega að horfa til þeirrar stöðu sem Fjármálaeftirlitið er í. FME nýtur takmarkaðs trausts, enda hafa vinnubrögð þess ekki beinlínis verið til þess fallin að almenningur félli í stafi yfir röggsemi og eftirfylgni starfsmanna þess.

Í liðinni viku skilaði skýrslu sinni Kaarlo Jännäri, finnski sérfræðingurinn sem fyrri ríkisstjórn fékk til að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi. Skýrslan er mjög fróðleg lesning og nánast samfelldur áfellisdómur yfir íslenska fjármálakerfinu. Allir fá sinn skerf af gagnrýni, bankarnir, eftirlitsstofnanir og stjórnvöld. Jännäri gagnrýnir að samstarf Seðlabankans og FME hafi ekki ávallt verið sem skyldi og hann greinir frá því að erlendir seðlabankar og eftirlitsstofnanir gagnrýni Seðlabanka og FME fyrir að hafa verið sein til svara, veitt of litlar upplýsingar. Þetta hafi grafið undan trúverðugleika FME og Seðlabankans í augum erlendra kollega.

Það er því ærið verkefni sem bíður eftirlitsstofnana eins og FME og Seðlabankans, hvað varðar endurreisn á trúverðugleika og trausti, bæði hér heima og ekki síður úti í heimi. Það sem FME þarf síst á að halda, þegar slík endurreisn er rétt að hefjast eftir hrun, er að fræjum tortryggni verði sáð meðal okkar, í þá veru að það geti orðið geðþóttaákvörðun FME hvort og þá hver eða hverjir verði sóttir til saka, fyrir það sem séu skýlaus lögbrot. Slíku veganesti þarf stofnunin einfaldlega ekki á að halda, inn í nýja vegferð, vonandi undir öruggri og farsælli stjórn nýs forstjóra, Gunnars Þ. Andersen, sem var ráðinn í fyrradag.

ES: Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME, sagði hér í Morgunblaðinu á fimmtudag að FME kæmi vel út úr skýrslu Kaarlos Jännäri! Fyrirgefðu Jónas, hvaða skýrslu last þú eiginlega?! Örugglega ekki þá sömu og ég las. agnes@mbl.is