Bryndís Ruth Gísladóttir
Bryndís Ruth Gísladóttir
Bryndís Ruth Gísladóttir skrifar um málefni fanga: "Mér finnst vanta upp á endurhæfingu fyrir fanga og er fullviss um að ef henni yrði komið á mundi ástandið lagast til frambúðar."

ÉG VAR að lesa að það séu til ökklabönd handa föngum. Þau eru semsagt til, en rykfalla uppi á hillu einhvers staðar.

En mig langar að vekja athygli á því hvernig ástatt er í fangelsum landsins. Get að sjálfsögðu ekki farið algjörlega ofan í kjölinn á því, en það sem mér finnst brýnast að koma á framfæri, er endurhæfing fanga. Það er endalaus vítahringur sem gerir fangelsin að yfirfullum stofnunum. Þar er lítil sem engin endurhæfing í boði og skammtímalausnir í gangi. Inn í fangelsin eru settir brotamenn af öllum toga, kynferðisafbrotamenn, fíkniefnasalar, skjalafalsarar og fjársvikarar, en flest er þetta fólk fíkniefnaneytendur sem hafa misst tökin. Og ég endurtek, þarna er lítil sem engin endurhæfing. Síbrotamennirnir eru yfirleitt alkóhólistar og fíkniefnaneytendur sem eru að brjóta af sér til að fjármagna neysluna og hafa ekkert annað val. Fangelsin eru stútfull og menn tveir saman í klefum þar sem ætti að öllu jöfnu að vera bara einn. Og þar er niðurskurður! Akkúrat þar ætti að vera að setja meiri peninga inn sem myndi svo borga sig til langframa.

Nú skal ég útskýra hvers vegna. Ef settir væru meiri peningar í endurhæfingu, þannig að þeir fangar sem eru alkóhólistar og fíkniefnaneytendur hefðu möguleika á að taka á sínum málum, og fleiri svona meðferðarganga og áfengis- og fíkniefnaráðgjafa, sálfræðinga og geðlækna sem væru þarna í fastri vinnu, væri ástandið betra. Og betri menntunarmöguleika fyrir alla. Ég er fullviss um að ef það kæmi betrumbætt endurhæfingarkerfi þá myndi allt lagast. Síbrotamennirnir sem koma þarna aftur og aftur myndu fækka komum sínum í afplánun með fækkun glæpa sem leiðir af sér að lögreglan þarf að hafa af þeim minni afskipti. Það þarf líka að auka eftirfylgni eftir afplánun vegna þess að þeim er allajafna hent út um leið og þeir hafa afplánað dóminn í nákvæmlega sömu aðstæður og þeir voru í og þegar þeir komu inn. Hvert leiðir það? Nú auðvitað í sama farið. En með betri endurhæfingu, meðferð inni í fangelsunum, ásamt fundum og 12 spora prógrammi fyrir þá sem vilja taka á sínum málum myndi þetta breytast. Og þeir sem þetta vildu og gerðu, kæmu edrú út og þar biði þeirra áframhaldandi aðhald, þar sem þeir tækju að einhverju leyti ábyrgð á sjálfum sér, færu inn á áfangaheimili eða einhverskonar endurhæfingarheimili, þar sem þeir færu eftir reglum, sem myndi felast í því að mæta á fundi, í viðtöl hjá ráðgjafa og svo skóla eða vinnu. Og allt væri í boði eftir þörfum hvers og eins. Þeir sem þyrftu myndu halda áfram að hitta sálfræðing og/eða geðlækni, Stígamót væru með í þessu, félagsráðgjöf og Fangelsismálastofnun myndi fylgja þeim eftir.

Þetta yrði mikið að leggja út til að byrja með en til langs tíma litið þá væri þetta stórfelldur sparnaður. Það yrði fækkun síbrotamanna, þeim afbrotamönnum sem eru einungis í afbrotum til að fjármagna neyslu myndi fækka til muna með þessum endurhæfingaraðgerðum því um leið og þeir fá tækifæri til að taka á sínum málum, þá standa þeir ekki lengur í þessum afbrotum. Því það að lenda í fangelsi getur oft verið vendipunkturinn fyrir það fólk sem er í neyslu og þau vilja hætta og taka á sínum málum. Og eins þegar þau losna úr fangelsinu væri eftirfylgni með þeim, bæði þeim sem myndu fara í húsnæði á vegum endurhæfingarinnar og í eigið húsnæði. Og svo eru það auðvitað þeir sem þjást af geðrænum sjúkdómum, það þarf að aðskilja þá algjörlega, bæði inni í fangelsinu og hvað endurhæfinguna varðar. Og varðandi ökklaböndin þá væru það helst kynferðisafbrotamennirnir sem þau myndu henta fyrir, þá væri hægt að fylgjast með þeim betur og ferðum þeirra. Og einnig með mönnunum sem væru í farbanni.

Ég er handviss um að með aðgerðum af þessu tagi, þ.e.a.s. endurhæfingu fyrir fanga, þá myndi ástandið bæði í fangelsunum og þjóðfélaginu lagast til muna. Mín beiðni til stjórnvalda er sú að gefa þessu séns, og láta peninga í þetta verkefni, sem myndi búa svo um að laus pláss í fangelsum yrðu fleiri: „sparnaður“, minna yrði um eignaspjöll: „sparnaður“, síbrotamennirnir myndu fækka komum sínum í fangelsin: „sparnaður“, fleiri kæmu út á vinnumarkaðinn: „gróði“ og fleiri stoltari og nýtari þjóðfélagsþegnar: „gróði“ myndu búa á þessu landi. Að mínu mati eru fangelsin bara geymslur fyrir veika einstaklinga sem þarfnast hjálpar. Bíðum ekki með þetta og eyðum peningunum í að byggja upp landið okkar. Ég veit að þetta er alls ekki fullunnið og þyrfti bæði sérfræðinga og menn með reynslu af fangelsismálum til að fara nákvæmlega yfir þetta. Ég er þá að tala um fulltrúa frá Fangelsismálastofnun, hagfræðing, félagsfræðing, sálfræðing, geðlækni, áfengis- og fíkniefnaráðgjafa, fulltrúa frá Stígamótum og svo auðvitað fulltrúa fanga, og ég væri alveg til í að fá að vera meðumsjónarmaður þessa verkefnis, því það erum við, fólkið í landinu, almúginn sem erum ekki blinduð af svo mörgu, og höfum oft lausnirnar sem stjórnvöld hafa ekki yfirsýn eða tíma til að sjá. Takk fyrir að lesa, með von um skjót viðbrögð (sem ég veit að er mikil bjartsýni í þessu þjóðfélagi).

Höfundur er heilbrigðisritari.

Höf.: Bryndís Ruth Gísladóttir