Guðni Á. Haraldsson
Guðni Á. Haraldsson
Guðni Á. Haraldsson skrifar um FME, blaðamenn og banka: "Almenningur bíður spenntur eftir því að heyra meira frá eltingaleik FME við blaðamennina en vonar jafnframt að stjórn FME sjái sér fært að upplýsa um rannsóknir sínar á ofangreindum málum ..."

FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ er nú á eftir nokkrum ágætum blaða- og fréttamönnum fyrir að hafa brotið bankaleynd og upplýst m.a. um himinhá lán Kaupþings banka hf. til indversks glaumgosa og annarra valinkunnra lánþega í innsta hring bankans. Þessi röggsemi er vonandi vísbending um að FME rannsaki og upplýsi um eftirfarandi.

1. Þá staðreynd að Kaupþing banki hf. lánaði Róbert Tchenguiz og félögum í hans eigu 283 milljarða króna þegar eigið fé bankans var um 400 milljarðar og það þrátt fyrir að í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2000 hafi verið að finna neðangreint ákvæði:

30. gr. Takmarkanir á stórum áhættum.

[Áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtæki s, sbr. 84. og 85. gr. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni.] 1 )

Með áhættu skv. 1. mgr. er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluta og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtæki s vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtæki nu.

Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtæki s yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf.

[Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur 2 ) um stórar áhættur fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.] 3 )

2. Þá staðreynd að allir viðskiptabankarnir hafi markvisst lánað eigendum bankanna og félögum í þeirra eigu fjármuni án þess að nægar tryggingar væru til staðar.

3. Fons hf. átti félögin FS38 ehf. og FS37 ehf. Annað þessara félaga FS37 keypti hinn 14. nóvember 2007 hlutabréf í Glitni banka hf. og FL Group hf. fyrir 20 milljarða. Glitnir banki hf. lánaði kaupandanum þessa fjárhæð. Í dag heitir kaupandinn STÍM ehf. Í dag er í félaginu enginn skráður stjórnarmaður og enginn framkvæmdastjóri.

Er ekki rétt að FME kanni hvernig það má vera að stjórn fjármálastofnunar, sem jafnframt er almenningshlutafélag á markaði, láni 20 milljarða gegn engum eða ótryggum veðum. Og er ekki rétt að FME kanni hvaða tilgangur hafi verið að baki slíkum viðskiptum og hvort hann hafi samrýmst tilgangi hlutafélagsins Glitnis banka hf. Og er ekki rétt að FME kanni hvort með þessu hafi eigendur Glitnis banka hf. á þessum tíma verið að reyna að hafa áhrif á gengi bréf bankans. Og ef FME hefur rannsakað þessi kaup er þá ekki rétt að upplýsa almenning og hluthafa Glitnis banka hf. um niðurstöðu þeirrar rannsóknar.

4. Þá er spurning hvort FME eigi ekki að upplýsa almenning og hluthafa Kaupþings banka hf. um niðurstöðu rannsóknar þess á viðskiptum Mohammed Bin Khalifa Al Thani við Kaupþing banka í september 2008 og hvort með þeim hafi átt að hafa áhrif á gengi bréfa í bankanum.

5. Og að lokum hvort FME eigi ekki að upplýsa hvort það hafi rannsakað þá staðreynd að Glitnir banki hf. hafi tapað 121 milljarði á íslenskum eignarhaldsfélgum og hvort stjórnir bankans hafi í lánveitingum sínum farið eftir þeim reglum sem þeim bar.

Nei, almenningur bíður spenntur eftir því að heyra meira frá eltingaleik FME við blaðamennina en vonar jafnframt að stjórn FME sjái sér fært að upplýsa um rannsóknir sínar á ofangreindum málum og sýni þar sömu röggsemi.

1) L. 170/2006, 4. gr. 2) Rgl. 216/2007.

3) L. 130/2004, 3. gr.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.

Höf.: Guðni Á. Haraldsson