Morgunblaðið hefur með nokkuð reglubundnum hætti tekið sig til á síðum blaðsins og fjallað um sjálft sig, stöðu sína og stefnu í íslensku samfélagi. Stundum hefur blaðið með þessari umfjöllun sinni verið talið taka sjálft sig of hátíðlega og vera of innhverft. Almenning varði ekkert um það hvað Morgunblaðinu finnist um sjálft sig. Þetta er ekki rétt. Þegar litið er til þess mikla trúnaðarsambands sem ríkir milli blaðsins og þjóðarinnar verður mönnum ljóst að það er öllum hollt að vita hvar Morgunblaðið stendur. Á sama hátt leggur blaðið sig fram um að átta sig á stöðu fólksins í samfélaginu á hverjum tíma og hvar það stendur.
Morgunblaðið nýtur trausts á meðal 64% þjóðarinnar. Það eru einstakir yfirburðir.
Það er þetta mikla traust og trúnaðarsamband sem veldur því að blaðið telur það skyldu sína að gera grein fyrir sjálfu sér á vissum tímamótum.
Nýir eigendur, sem nú hafa tekið við stjórn Árvakurs hf., eiganda Morgunblaðsins, vilja viðhalda þessum góða og gróna sið og munu beita sér fyrir því að það verði gert á komandi árum eins og verið hefur. Eftir að fyrir lá að þeir hygðust freista þess að kaupa Árvakur hf., sem átt hefur í miklum rekstrarerfiðleikum, hafa þeir fengið ómælda hvatningu frá fólki hvaðanæva úr þjóðfélaginu. Með vaxandi þunga hefur þeim orðið æ betur ljóst hversu nálægt kviku þjóðarinnar Morgunblaðið stendur. Hvarvetna hefur fólk gefið sig fram til að lýsa skoðunum sínum í stóru og smáu. Í smáskilaboðum, tölvupósti, í símtölum; á förnum vegi. Margir höfðu mjög ákveðnar skoðanir á kaupunum á Árvakri á þeim tíma sem þau voru ófrágengin. Ljóst var, að hvað sem leið áhuga okkar á erlendum fjárfestingum líkaði Íslendingum illa sú tilhugsun að Morgunblaðið kæmist í eigu fjarlægra útlendinga.
Skoðanir fólksins sem hefur látið í sér heyra eru margvíslegar en gjarnan ábendingar um hvað betur megi fara í blaðinu. Þá fylgja oft feginsamlegar árnaðaróskir. Stjórnmálaumfjöllun hefur þar fengið sinn skerf, þar sýnist sitt hverjum. Menningarumfjöllun hreyfir við mörgum lesendum sem láta álit sitt í ljós og líkar sumt en annað ekki. Myndasögur verða að umfjöllunarefni og að sjálfsögðu skopteikningar. Sumir lýsa vilja sínum til að yrkja í Lesbókina. Aðrir eygja von til að fá aftur birta þar smásögu eftir sjálfa sig. Allir hafa áhuga á Morgunblaðinu.
- - -
Eigendur blaðsins gera sér grein fyrir þessu nú þegar þeir taka við rekstrinum. Þeir munu leggja sig alla fram um að gæta þess að Morgunblaðið uppfylli kröfur lesenda og verði áfram fyrirmyndarblað sem á sér engan líka í landinu. Traustið á Morgunblaðinu hefur ekki verið byggt upp á einni nóttu. Það er afrakstur áratuga vinnu vökulla og hæfra starfsmanna sem búið hafa til þetta óvenjulega samband Morgunblaðsins og þjóðarinnar sem aldrei má rofna.
Lykillinn að traustinu er vönduð umfjöllun af öllu tagi, um þjóðfélagsmál og dægurmál. Fréttir, fréttaskýringar, ítarlegar úttektir á mikilvægum málaflokkum á hverjum tíma, minningargreinar, aðsendar greinar og jafnvel auglýsingar. Allt hefur þetta áhrif á sinn hátt. Skoðanir blaðsins sem settar eru fram á aðgreindum stöðum hafa jafnan verið mikill áhrifavaldur í íslensku þjóðfélagi. Þær ráða einnig miklu um samband blaðsins við lesendur sína. Vitaskuld verða aldrei allir sammála um þær skoðanir en ef þess er gætt að setja þær fram að vel ígrunduðu máli og af fullri sanngirni gagnvart öðrum sjónarmiðum sem uppi eru geta lesendur fellt sig við blaðið sitt jafnvel þótt það hafi aðra skoðun en þeir í einstökum málum. Hér gildir sem endranær sú mikilvæga og heiðarlega regla allra blaðamanna, að gæta sanngirni í allri umfjöllun, sér í lagi á fréttasíðum en einnig í annarri umfjöllun.
Sjálfstæði ritstjórna er gjarnan umræðuefni í heimi fjölmiðla. Alla jafna mun með þessu hugtaki átt við að ritstjórn sé óháð eigendum og framkvæmdavaldi fjölmiðils.
- - -
Í útlöndum er þessu farið með ýmsum hætti. Í Bandaríkjunum hefur hefðin lengi verið sú að ein fjölskylda eða fjársterkir einstaklingar hafa átt helstu blöðin. Þetta hefur lengst af átt við um Wall Street Journal, New York Times og Washington Post þar sem sömu fjölskyldur hafa ráðið ríkjum í heila öld eða hátt í það. Þetta átti líka við til skamms tíma um Chicago Tribune og Los Angeles Times. Á þessum blöðum hefur yfirleitt verið svokallaður útgefandi (publisher) sem oftast hefur komið úr röðum viðkomandi fjölskyldu. Donald Graham, útgefandi Washington Post, tók við starfi sínu af móður sinni, Katherine Graham. Þau höfðu síðasta orðið eins og aðrir slíkir kollegar þeirra á bandarísku blöðunum en beittu því valdi sínu áreiðanlega mjög sjaldan. Þekkt er þó að Katherine Graham tók t.d. hina endanlegu ákvörðun um birtingu Pentagon-skjalanna sem birt voru í Washington Post á sínum tíma.
Í Bretlandi hefur þetta verið með ýmsum hætti. Eigandi The Times of London og The Sunday Times um árabil hafði engan áhuga á ritstjórnarhlið blaðsins. Það breyttist hins vegar þegar Robert Murdoch keypti þessi tvö blöð. Vegna stöðu sinnar á fjölmiðlamarkaði voru honum sett ströng skilyrði. Hann hirti ekkert um þau og komst upp með það. Berlingske Tidende í Danmörku er í eigu bresks fyrirtækis. Sama konan er aðalframkvæmdastjóri og aðalritstjóri. Þannig er samband ritstjórnar og eigenda með ýmsum hætti víða um heim.
Því miður einkennast umræður um þetta sjálfstæði hér á landi oft af upphrópunum og ástæðulausri tortryggni. Orðið ritskoðun er þá jafnan skammt undan. Enginn greinarmunur er þá gerður annars vegar á eðlilegum og sjálfsögðum afskiptum eigenda og hins vegar afskiptum af afmarkaðri umfjöllun. Réttur eigenda til afskipta af eign sinni er vitaskuld ótvíræður. Spurningin er einungis hvort og hvenær er skynsamlegt að beita honum.
Þannig má gera ráð fyrir að það sé ágreiningslaust að eigendur hafi afskipti af heildarsvip, útliti og heildarstefnu þess blaðs sem þeir eiga. Það ætlast eflaust enginn til þess að ritstjórn ráði ein almennum efnistökum, stærð og samsetningu blaðs. Á hinn bóginn gera fæstir ráð fyrir því að eigendur blandi sér í einstaka frétt eða umfjöllun, velji og hafni frá degi til dags hvað um skuli fjallað; hvar og hvernig það skuli sett fram. Þótt heimildin til þess sé skýlaus er jafn óskynsamlegt að beita henni. Traust Morgunblaðsins meðal þjóðarinnar byggist ekki síst á þessu sambandi ritstjórnar og eigenda í gegnum tíðina. Þar skiptir líka öllu að vandaðir blaðamenn gefi aldrei færi á neinum efasemdum um heiðarlega og sanngjarna málsmeðferð á síðum blaðsins. Þetta tvennt er það sem lesendur Morgunblaðsins eiga að venjast. Þetta er það sem bindur blaðið og þá tryggðaböndum.
- - -
Minniháttar skipulagsbreyting hefur nú verið gerð á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Skipulagið gerir ráð fyrir starfi útgefanda í stað forstjóra. Útgefandinn kemur úr hópi eigenda. Undir hann heyra bæði framkvæmdastjóri og ritstjóri. Í sjálfu sér felst ekki nein stefnubreyting í nafngiftinni sjálfri. Breytingin felst fyrst og fremst í því að nú er í Árvakri eins og öðrum fyrirtækjum alveg ljóst hvar ákvörðunarvald liggur ef til þess þarf að koma. Útgefandinn hefur síðasta orðið. Það breytir þó engu um það að í vel reknum fyrirtækjum felur til dæmis forstjóri oft sínum nánustu samstarfsmönnum yfirgripsmikið vald og sjálfstæði til að sinna sínu sviði. Þeir sem rísa undir slíku trausti fá mikinn stuðning og lítil afskipti, ef nokkur. Það er með þessum hætti sem nýir eigendur Morgunblaðsins vilja nálgast þessa eign sína. Þeir hafa ekki í hyggju að skaða eða eyðileggja þau verðmæti sem þeir hafa haft miklar taugar til í gegnum tíðina og hafa nú freistast til að leggja mikla fjármuni í. Rekstur blaðsins þarf að styrkja svo unnt sé að efla frjálsa, vandaða, sanngjarna, heiðarlega og gagnrýna umfjöllun af öllu tagi. Til þess eru refarnir skornir.