Vélstóll Vélknúnir barstólar í Ameríkunni eru ýmist heimasmíðaðir, eins og þessi, eða framleiddir af fagmönnum.
Vélstóll Vélknúnir barstólar í Ameríkunni eru ýmist heimasmíðaðir, eins og þessi, eða framleiddir af fagmönnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VÉLKNÚNA barstóla er að finna víða í Bandaríkjunum. Oftast hafa ökumenn þeirra vit á að halda sig á lokuðum brautum, enda barstólarnir ekki skráð ökutæki og eiga ekkert erindi út á götu.

VÉLKNÚNA barstóla er að finna víða í Bandaríkjunum. Oftast hafa ökumenn þeirra vit á að halda sig á lokuðum brautum, enda barstólarnir ekki skráð ökutæki og eiga ekkert erindi út á götu.

Í vikunni var skýrt frá því að lögreglan í borginni Newark í Ohio hefði verið kölluð á slysstað, þar sem maður hafði velt vélknúna barstólnum sínum og hlotið af nokkur meiðsli, ekki alvarleg þó.

Barstólinn knúði maðurinn áfram með mótor úr garðsláttuvél. Líklega hefur honum þótt hagræði að því að skjótast á barinn á stólnum. Á barnum skellti hann í sig 15 bjórum og réð því ekkert við farartækið á heimleiðinni.

Maðurinn sagði lögreglunni stoltur að stóllinn kæmist á 60 km hraða á klukkustund.

Allmargir landar mannsins eiga vélknúna barstóla. Ef fyrirbærið er „gúglað“ koma upp síður um kappakstur slíkra stóla á lokuðum brautum og hægt er að kaupa þá ósamsetta og dunda sér við að setja þá saman í bílskúrnum heima.

Þeir sem ekki vilja vélknúna barstóla geta líka keypt sér vélknúnar kælikistur. Eða keypt vélknúinn barstól og dregið á eftir sér kælikistu, því slíkur aftanívagn er að sjálfsögðu í boði.

Hvers vegna ætti einhver að kaupa sér vélknúinn barstól eða kælikistu? spyrja menn kannski.

Við slíkri spurningu er ekkert svar. En hins vegar gildir það bæði um vélknúna barstóla og vélknúnar kælikistur, að þeim má ekki aka undir áhrifum áfengis, fremur en öðrum farkostum.

rsv@mbl.is