ÞAÐ VERÐUR ekki hægt að opna útibú SPRON á mánudag eins og til stóð. Kaup MP banka á Netbankanum og útibúaneti SPRON án efnahags eru í uppnámi vegna mótmæla frá Nýja Kaupþingi banka. Nýja Kaupþing hefur gert miklar athugasemdir við samning skilanefndar SPRON við MP banka um yfirtöku hins síðarnefnda á útibúaneti SPRON. Innlán viðskiptavina SPRON voru færð til Nýja Kaupþings eftir að Fjármálaeftirlitið yfirtók rekstur SPRON fyrir tveimur vikum og skilanefnd tók við stjórninni.
Ég verð því miður að biðja öll þau hundruð viðskiptavina SPRON sem hafa haft samband við okkur að sýna biðlund. Vegna afstöðu Nýja Kaupþings er ráðning MP banka á 45 starfsmönnum SPRON með öllu óviss. Það er miður, því það er mikill baráttuhugur í þeim starfsmönnum sem við vorum að fá til okkar. Nú bætast þeir væntanlega á skrá atvinnulausra.
Það virðist svo sem Nýja Kaupþing telji að þessi yfirtaka okkar muni stefna þeim í hættu, vegna þess að við munum ná það mörgum viðskiptamönnum frá þeim og valda óróa í kerfinu. Þeir virðast hafa fengið Seðlabanka Íslands á sitt band við að tefja samþykki Fjármálaeftirlitsins á málinu. Gagnvart okkur lítur þetta þannig út að Nýja Kaupþing sé að beita Seðlabankanum fyrir sig til að hindra samkeppni við ríkisbankakerfið. Nýja Kaupþing vill halda gömlum viðskiptavinum SPRON í einhverskonar gíslingu hjá sér. Þetta fer auðvitað þvert gegn tilmælum Samkeppnisstofnunar frá í haust og gengur á skjön við jákvæð viðbrögð viðskiptaráðherra við yfirtöku okkar á SPRON.
Við höfum lagt til málamiðlanir og höfum boðið að öll innlán fari til þess að fjármagna útlánasafn SPRON sem skilanefndin fer nú með. Þá höfum við lýst því yfir að við séum algerlega sátt við dreifða eignaraðild á viðskiptabanka sem ekki er í ríkiseign. Við höfum engin viðbrögð fengið við þessu og það er eins og það sé verið að refsa okkur fyrir að vera eini bankinn sem stendur uppréttur eftir bankahrunið.
Timinn vinnur á móti okkur í þessu máli og tæplega 800 milljóna kaupverð okkar gekk út á að yfirtakan gengi greiðlega fyrir sig. Við erum ekki af baki dottin og hvort sem Nýja Kaupþingi tekst að stöðva þennan samning eða ekki þá munum við innan mjög skamms tíma bjóða upp á hefðbundna netbankaþjónustu og opna þjónustumiðstöð. Við höfum öll starfsleyfi til þess. Skilanefnd SPRON verður þá af 800 milljóna króna kaupverði okkar sem mun þá væntanlega auka kostnað skattgreiðenda sem því nemur.
Höfundur er formaður stjórnar MP-banka.