Járnkarlinn Tommy Smith, leikmaður Liverpool, var vanur að spyrja andstæðinga sína hvort þeir hefðu fengið far með sjúkrabíl – áður.
Járnkarlinn Tommy Smith, leikmaður Liverpool, var vanur að spyrja andstæðinga sína hvort þeir hefðu fengið far með sjúkrabíl – áður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað ætli Leggjabrjóturinn, Járnkarlinn og Brytjarinn hafi unnið sér til frægðar? Þetta eru hvorki hasarmyndahetjur né handrukkarar heldur knattspyrnumenn sem voru upp á sitt besta á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í Englandi.

Hvað ætli Leggjabrjóturinn, Járnkarlinn og Brytjarinn hafi unnið sér til frægðar? Þetta eru hvorki hasarmyndahetjur né handrukkarar heldur knattspyrnumenn sem voru upp á sitt besta á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í Englandi. Réttum nöfnum heita þeir Norman Hunter, Tommy Smith og Ron Harris og allar götur síðan hafa forhertustu sparkendur ekki komist með tærnar þar sem þetta þríeyki hafði hælana.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Þegar Jimmy Greaves, hinn marksækni miðherji Tottenham Hotspur, hljóp eitt sinn galvaskur inn á Anfield varð Tommy Smith, varnarmaður Liverpool, á vegi hans og afhenti honum bréf. „Hvað er þetta?“ spurði Greaves undrandi. „Opnaðu það bara,“ svaraði Smith sposkur. Í ljós kom að þetta var matseðillinn á borgarspítalanum í Liverpool. Greaves var slakur í leiknum.

Þessi saga lýsir eðli og uppátækjum Tommys Smiths í hnotskurn. Það er ekki að ósekju að framherjar forðuðust hann eins og heitan eldinn en Smith lék í sextán ár með Liverpool, frá 1962 til 1978.

Hann átti ekki langt að sækja sálfræðitrixin en enginn stóð Bill Shankly, knattspyrnustjóra Liverpool, á sporði í þeim efnum. Oftar en ekki tókst Smith að lama andstæðinga sína áður en flautað var til leiks. Hann var orðlagður fyrir tungulipurð og gaf dómurum iðulega fyrirmæli meðan á leikjum stóð.

Einu sinni gekk hans svo langt að sparka í dómara eftir Evrópuleik gegn Inter frá Mílanó. Engin eftirmál urðu af þeim gjörningi.

Aldrei stofnað til slagsmála en lokið þeim nokkrum

Þegar á hólminn var komið var Smith harður en sanngjarn – að eigin sögn. „Ég hef aldrei stofnað til slagsmála um dagana en ég hef lokið þeim nokkrum. Ég nötra stundum þegar ég hugsa um gjörðir mínar.“

Smith hlaut snemma viðurnefnið „Járnkarlinn frá Anfield“ og einhverju sinni sagði Shankly að hann hefði ekki fæðst heldur verið unninn úr námu. Eigi að síður var Smith bara rekinn einu sinn af velli í meira en 600 leikjum fyrir Liverpool – og það fyrir kjaftbrúk. Þess ber þó að geta að dómarar voru ekki eins örlátir á rauðu spjöldin í þá daga.

Ekki myndu allir skrifa upp á það að Smith hafi verið sanngjarn leikmaður, alltént ekki Roy Vernon, leikmaður Everton. Í slag nágrannanna snemma á sjöunda áratugnum straujaði Smith hann strax eftir að flautað var til leiks með þeim afleiðingum að Vernon gat ekki spyrnt knetti svo mánuðum skipti. Fyrir leikinn hafði Shankly lýst því yfir við fjölmiðla að téður Vernon væri hættulegasti leikmaður Everton. Hvað eru aftur tveir plús tveir?

Jack Charlton, sem lengi lék í hjarta Leeds-varnarinnar, segir Smith harðasta leikmann sem hann mætti á velli. „Einu sinni hlupum við saman og ég missti gjörsamlega andann. Ég reyndi að staulast á fætur eins og hann hefði ekki meitt mig. En hann hafði gert það.“

Eins og gefur að skilja fékk Smith það oftar en ekki óþvegið sjálfur enda vildi margur sjálfskipaður harðjaxlinn reyna sig við meistarann. Einhverju sinni renndi leikmaður tökkunum niður eftir fætinum á honum. „Það blæddi ekkert en þegar ég dró sokkinn niður blasti ber sköflungurinn við mér,“ rifjar Smith upp. „Þá byrjaði fjörið.“

Þess má geta að Tommy Smith, sem er að verða 64 ára, hefur látið skipta um bæði hné, mjöðm og olnboga. Að öðru leyti mun skrokkurinn vera í sæmilegu standi.

Þurfti að myrða mann

Annar annálaður harðjaxl var Norman Hunter, miðvörður hins sigursæla liðs Leeds United, 1962-76. Hann var frægur fyrir að láta andstæðinga sín aldrei komast upp með múður og hlaut að launum viðurnefnið „Leggjabrjóturinn“.

Einhverju sinni hringdi Hunter í Les Cocker, þjálfara hjá Leeds, eftir leik og tilkynnti honum að hann hefði farið heim með brotinn fót. „Jæja, góði,“ varð Cocker að orði: „Hver átti þann fót?“

Hunter viðurkennir að skráin um sig hafi verið bólgin í skjalasafni enska knattspyrnusambandsins og „það á tímum þegar þurfti að myrða mann til að vera vísað af velli“. „Það kom fyrir að ég misreiknaði mig og eftir á hugsaði ég stundum: Guð minn góður, ekki gerði ég þetta í raun og veru? En ég hafði gert það.“

Hann þvertekur þó fyrir að hafa nokkru sinni reynt að meiða mann af ásettu ráði. „En sigurviljinn var svo mikill að maður gleymdi sér stundum í rauðri þokunni.“

Hrátt egg og sérrí

Hunter var ekki mikill fyrir mann að sjá þegar hann skaut fyrst upp kollinum á Elland Road snemma á sjöunda áratugnum en Don Revie knattspyrnustjóri tók hann undir sinn verndarvæng. Neyddi m.a. ofan í hann ógeðsdrykk, hrátt egg og sérrí, á hverjum degi um langt skeið. „Stundum hélt ég drykknum niðri, stundum ekki,“ viðurkennir Hunter. Það hertist fljótt í honum.

Öfugt við Smith lagði Hunter ekki í vana sinn að hræða líftóruna úr andstæðingum sínum áður en flautað var til leiks. „En Revie var vanur að segja okkur að láta finna hressilega fyrir okkur í fyrstu tæklingunni, vegna þess að dómarinn færði menn aldrei til bókar við fyrsta brot. Þetta kölluðum við forleik. Ég skellti framherjanum marflötum, togaði hann á fætur og bað dómarann velvirðingar. Oft og tíðum lét framherjinn ekki sjá sig aftur í leiknum.“

Peter Osgood, hinn goðumlíki miðherji Chelsea, var ekki þeirrar gerðar. Hann kom alltaf aftur. Þeir Hunter elduðu lengi grátt silfur saman og ögruðu hvor öðrum út í hið óendanlega. Einhverju sinni leiddi misskilningur í vörn Leeds til þess að Osgood skoraði. Hann vék sér með það sama að Hunter og spurði: „Hvar varst þú, Norman?“ Hunter hafði þó ekki sagt sitt síðasta orð því þegar Terry Cooper jafnaði fyrir Leeds hljóp hann yfir völlinn þveran og endilangan til að gera upp sakirnar við Osgood. Í æsingnum greip hann í kafloðna barta miðherjans, sem allir menn skörtuðu á þessum árum, og togaði hraustlega í þá. „Þær voru ófáar rimmurnar á þessum árum en við hlæjum að þessu í dag,“ segir Hunter.

Létu hnefa skipta

Honum er þó líkast til ekki hlátur í hug þegar hann rifjar upp viðskipti sín við Francis Lee í leik gegn Derby County 1975. Ágreiningur reis þeirra í millum eftir að Hunter taldi Lee hafa fiskað vítaspyrnu. Úr varð einn æsilegasti hnefaleikabardagi sparksögunnar. Varla þarf að taka fram að báðir leikmenn voru reknir í bað.

Hunter var ekki sá fráasti á fæti í bransanum en bætti það upp með góðum leikskilningi. Þeim skilningi var þó ekki til að dreifa þegar hann missti knöttinn klaufalega í landsleik Englendinga og Pólverja á Wembley haustið 1973. Af hlaust mark sem kom í veg fyrir þátttöku Englands á heimsmeistaramótinu í Vestur-Þýskalandi árið eftir. „Ég fékk aldrei svigrúm til að gleyma þessu marki,“ rifjar Hunter upp, „vegna þess að fjórða hvert ár drógumst við alltaf gegn sama liðinu í undankeppni HM, helvítis Pólverjunum. Þá notuðu menn vitaskuld tækifærið til að dusta rykið af upptökum af mér að missa boltann og þeim að skora. Þetta var sýnt aftur og aftur. Ótrúlegt!“

Hitastigið hækkaði

Ron Harris, sem lék í vörninni hjá Chelsea í átján ár (1962-80), var heldur ekkert blávatn. Hermt er að hitastigið í Vestur-Lundúnum hafi hækkað um nokkrar gráður við það eitt að Harris sté inn á Stamford Bridge. Hann var gjörsamlega ódrepandi á velli og eirði engu. Fyrir vikið var honum gefið gælunafnið „Brytjarinn“. Enn þann dag í dag seljast bolir með áletruninni „Brytjarinn: Of harður til að deyja“ eins og heitar lummur á Brúnni.

Harris var frægur fyrir að gefast aldrei upp – ekki einu sinni þegar lið hans var 2:0 undir í uppbótartíma. „Koma svo, strákar, þetta er alveg hægt,“ gelti hann þá á samherja sína sem tóku umsvifalaust kipp.

Harris var að flestra mati besti „yfirfrakki“ sinnar kynslóðar og oftar en ekki kom það í hans hlut að taka helsta vopn andstæðingsins úr umferð. Það gerði hann af alúð og yfirvegun. Nægði ekki að hlaupa með manninum, var bara að sýna honum hvar Davíð keypti ölið. Frægt var þegar hann sparkaði Eddie Gray, erkikempu Leeds, niður eftir aðeins átta mínútur í bikarúrslitaleiknum 1970. Gray var lítið meira en áhorfandi eftir það og Chelsea vann bikarinn.

Þegar Harris var spurður hversu stóran þátt „tækling“ hans á Gray hefði átt í sigrinum svaraði hann hróðugur: „90%.“

Hóstaði annað slagið

Öfugt við Smith hræddi Harris andstæðinga sína ekki með orðum. „Ég ræddi nánast aldrei við menn meðan á leik stóð en Tommy Docherty, stjóri minn hjá Chelsea, gaf mér snemma frábært ráð. Það var að taka harkalega á mönnum strax í upphafi og halda mig upp frá því í námunda við þá og hósta annað slagið til að minna á mig,“ segir hann. Fyrrnefndur Jimmy Greaves, mesti markaskorari sinnar kynslóðar, fékk að kynnast þessu. Þeir Harris glímdu alls nítján sinnum og Greaves tókst aðeins einu sinni að skora. „Ég hef þekkt Ron Harris, öðru nafni Brytjarann, lengur en ég kæri mig um að muna – og lengst af fannst mér hann vera illur andskoti,“ segir Greaves í formála að endurminningum Harris.

Aðeins einu sinni á ferlinum kveðst Harris hafa mætt ofjarli sínum. „Það var karlugla sem hét Mike Bernard og lék fyrir Stoke og Everton. Hann var eini maðurinn sem keyrði mig í gras.

Pabbi var vanur að segja: „Láttu þá ekki sjá að þú hafir orðið fyrir hnjaski!“ Þetta var í eina skiptið sem ég gat ekki orðið við þeim tilmælum.“

Bleikt er fyrir konur

Ron Harris hefur í seinni tíð getið sér gott orð sem sparkskýrandi og liggur ekki á skoðunum sínum. Honum þykir harkan t.a.m. mega vera meiri í nútímaknattspyrnu. Einhverju sinni var hann inntur álits á David Beckham. „Hann er gagnslaus,“ svaraði Harris að bragði. „Kann ekki að tækla.“

Honum þykir mýktin líka orðin of mikil utan vallar. „Það hefði ekki þýtt fyrir mig að ganga inn í búningsklefa Chelsea með vaxaða bringu. Þá hefði ég séð sæng mína uppreidda.“

Honum þykir glys og glingur líka hafa of mikið vægi í samtímanum og þegar Nicola Anelka, miðherji Chelsea, mætti til leiks á bleikum skóm fyrr í vetur féll Harris allur ketill í eld. „Bleikt er fyrir konur. Það segir frúin alla vega. Hefði ég mætt á bleikum skóm í gamla daga hefði fólk haldið að ég væri eitthvað skrýtinn. Ég hefði ekki heldur getað leikið í hvítum skóm. Þá hefðu blóðblettirnir komið í gegn.“

Ekki hrifinn af blökkumönnum

Tommy Smith var málgefinn sem leikmaður og ekki hefur dregið af honum eftir að hann lagði skóna á hilluna – nema síður sé.

Alræmdustu ummæli hans féllu í kjölfar þess að Liverpool festi kaup á John Barnes sumarið 1987 en hann var fyrsti blökkumaðurinn til að festa sig í sessi í liði félagsins. Smith er lítið um þeldökkt fólk gefið og andmælti kaupunum hástöfum. Kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir að lifa þann dag að Liverpool festi kaup á blökkumanni. „Ég vil ekki sjá þá í liðinu,“ er hann sagður hafa sagt. Þá mun Smith hafa bætt við: „Flytti „surtur“ inn við hliðina á mér myndi ég flytja um leið. Þetta eru engir kynþáttafordómar, bara rökrétt.“

Þessi ummæli vöktu litla athygli í fyrstu en eftir að Barnes vitnaði sjálfur til þeirra í endurminningum sínum þremur árum síðar varð fjandinn laus. Það hlýtur að vera fjör í heiðursstúkunni á Anfield þegar þeir koma þar saman, Smith og Barnes.