Séra Bragi Benediktsson fæddist á Hvanná í Jökuldal 11. ágúst 1936. Hann lést á Landspítalanum 24. mars 2009 og var jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju 2. apríl.

Á komandi sumri ætla verðandi 50 ára stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri að hittast, rifja upp minningar og gleðjast saman. Hópurinn okkar var ekki stór en hefur verið samheldinn; hist reglulega á hverju vori auk hinna hefðbundnu heimsókna í gamla skólann okkar á völdum tímamótum. Á fimmtíu ára stúdentsafmælinu okkar í vor verður Braga Benediktssonar sárt saknað, auk hinna félaganna sem horfnir eru úr hópnum.

Bragi var svipmikill, stór og sterklegur; bar með sér drenglyndi og glaðværð. Hann var góður félagi og samferðamaður skólaárin fjögur í M.A. á árunum 1955 – 1959. Við deildum herbergi á efstu hæð heimavistar á lokaárinu í 6. bekk og bar aldrei skugga á samvistir okkar. Miðvikudagurinn 22. apríl var síðasti kennsludagurinn og síðan hófust hefðbundin hátíðahöld með heimsóknum til kennara og dimittendakvöld með veisluhöldum í matsal, ræðuhöldum og dansleik. Langt og strangt upplestrafrí tók nú við. Ljúft er að minnast þess þegar við höfðum setið sleitulaust að lestri til stúdentsprófs í 26 daga og bauðst þá dags vinna við útskipun á fiskimjöli í Krossanesverksmiðju. Þetta fannst okkur góð tilbreyting frá lestrinum; strituðum í 12 klukkustundir og áttum skemmtilegar samræður við karlana í verksmiðjunni sem tóku skólastrákunum af ljúfmennsku.

Við tókum svo aftur til starfa við lesturinn – nokkuð lerkaðir eftir stritið – en með endurnýjuðum andans krafti og töldum okkur hafa unnið upp ríflega þennan dag með auknum afköstum í próflestri. Leiðir lágu svo saman er við stunduðum nám við Háskóla Íslands og við reglulega endurfundi M.A. stúdentahópsins frá 1959. Þá styrktum við sambandið er hann skírði Signýju, dóttur okkar hjóna, árið 1968.

Við sendum Bergljótu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur, þökkum Braga samveruna í M.A. og endurfundina í áranna rás. Ég kveð hann nú með orðunum sem hann skrifaði með sinni karlmannlegu rithönd í eintakið mitt í Carminu – vorið 1959. Amicus tuus sum ad ultimum spiritum meum.

Ingi Viðar Árnason.

Mig langar til að minnast kærs vinar, séra Braga Benediktssonar, sem um tíma stýrði Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar af mikilli elskusemi við skjólstæðinga og með manngæsku að leiðarljósi. Það var einmitt á Féló sem við Bragi bundumst vináttuböndum. Hann var félagsmálstjórinn og ég starfaði sem félagsmálafulltrúi. Stofnunin var lítil. Þriðja manneskjan var yndislega kraftakonan Málfríður Stefánsdóttir sem hafði yfirumsjón með heimilishjálpinni í Hafnarfirði og sló þar hvergi af. Bragi og Málfríður voru einstakir vinir og samstarfsfélagar, má segja að Málfríður hafi verið hans hægri og vinsti hönd. Já, andrúmsloftið á Féló var fullt af hlýju. Bragi alltaf sami ljúflingurinn á hverju sem gekk. Við þrjú urðum nátengd og öll störf voru unnin af nærgætni, gleði og bjartsýni undir hans góðu stjórn. Ég trúi að skjólstæðingarnir hafi notið þessa. Bragi var mikill hamingjumaður í sínu einkalífi. Bergljót konan hans var honum allt. Þau voru ung þegar ástin kviknaði heit og sterk þeirra á milli og þeim tókst að vernda þennan dýrmæta loga ástarinnar alla tíð. Það var gaman að vera í kringum þau og sjá og finna hvað þau voru innilega hrifin hvort af öðru. Alltaf samstiga og bestu vinirnir í lífi og leik. Börnin urðu sex – falleg og myndarleg eins og foreldrarnir. Heimilið frjálslegt og ávallt opið vinum og vandamömmum. Mikil nánd og kærleikur í öllum samskiptum fjölskyldunnar. Þeir voru margir gleðifundirnir sem við áttum öll saman. Þau hjónin kunnu virkilega að njóta stundarinnar hverju sinni. Séra Bragi skírði yngsta drenginn minn með hátíðlegum helgiblæ en líka léttleika eins og honum einum var lagið.

Fyrir þetta allt þakka ég af alhug nú þegar Bragi, þessi góði drengur, kveður. Guð geymi Braga Benediktsson, Guð geymi eiginkonuna hans sem hann unni svo heitt og börnin þeirra öll.

Helga Mattína Björnsdóttir Grímsey.

Við sóknarbörn séra Braga úr gömlu Múlasveitinni viljum kveðja hann með nokkrum orðum og þakka fyrir góð samskipti þau ár sem hann þjónaði prestsembætti á Reykhólum.

Fyrsta embætti hans í okkar sveit var að jarða heiðurskonu úr sveitinni, Guðnýju á Hamri. Kveðjuathöfn fór fram fyrir framan húsið á Hamri í yndislegu veðri, það má segja að þessi fallegi dagur líði þeim sem þar voru seint úr minni. Mér sem þessi kveðjuorð skrifa fannst séra Bragi vinna hjörtu okkar sem þarna voru, svo vel fórst honum þessi athöfn úr hendi. Þennan dag var ákveðið að hafa messu á Skálmarnesmúla vorið eftir. Þessi messa varð svo árlegur viðburður öllum til ánægju sem hana sóttu og komu sumir kirkjugestir alla leið úr Reykjavík um morguninn til að vera við messuna. Þetta var ekta sveitamessa og komið saman eftir messuna í kaffi á Firði.

Fyrir hönd okkar brottfluttu Múlsveitunga sem dveljum í sveitinni okkar á vorin vil ég þakka séra Braga fyrir að koma til okkar og halda þessa messu. Hann náði alveg sérstaklega vel til okkar.

Við vottum eiginkonu séra Braga, sem oft kom með honum, og allri fjölskyldunni innilega samúð og biðjum séra Braga guðs blessunar.

Ásta Jónsdóttir.