Það er mikilvægt fyrir endurreisn orðspors Íslands á alþjóðlegum vettvangi að fjárlaganefnd brezka þingsins skuli hafa gagnrýnt beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi síðastliðið haust.

Það er mikilvægt fyrir endurreisn orðspors Íslands á alþjóðlegum vettvangi að fjárlaganefnd brezka þingsins skuli hafa gagnrýnt beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi síðastliðið haust.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að nefndin hvetur brezka fjármálaráðuneytið til að fara yfir lögin og meta hvort rétt yrði að beita þeim við svipaðar kringumstæður í framtíðinni. Nefndin vill láta breyta brezkri löggjöf, þannig að yfirvöld eigi önnur úrræði en að beita hryðjuverkalögum.

Þá kemst fjárlaganefndin að þeirri niðurstöðu að ekkert í samtali þeirra Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra Íslands, og Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Bretlands, hafi gefið hinum síðarnefnda tilefni til að fullyrða að íslenzk stjórnvöld myndu ekki standa við skuldbindingar sínar í Bretlandi.

Nefndin telur beitingu hryðjuverkalaganna hafa haft mikil neikvæð áhrif á Kaupþing, sem var þá eitt uppistandandi af íslenzku bönkunum, en segist hins vegar ekki hafa séð nein gögn, sem bendi til að bankinn hefði getað komizt hjá gjaldþroti, jafnvel þótt lögunum hefði ekki verið beitt.

Nú hljóta að hafa skapazt nýjar forsendur fyrir því að brezk stjórnvöld taki Ísland af hinum alræmda hryðjuverkalista fjármálaráðuneytisins og biðjist afsökunar á að hafa beitt svo harkalegum aðgerðum gagnvart bandamanni sínum í Atlantshafsbandalaginu.

Slíkt væri þáttur í því að rétta hlut Íslands í samfélagi þjóðanna.

Við verðum hins vegar að átta okkur á því að þar þarf miklu fleira að koma til. Brezkum stjórnvöldum er ekki einum um að kenna að orðspor Íslands er stórskaddað.

Það hefur til dæmis hleypt illu blóði í hundruð þúsunda manna í ríkjum Evrópu, sem áttu fé á Icesave-reikningum Landsbankans, að stjórnvöld hér hétu íslenzkum viðskiptavinum bankanna fullri innistæðutryggingu, en erlendum viðskiptavinum aðeins lágmarkstryggingunni, sem reglur EES kveða á um. Það væri glapræði að ætla ekki að standa við þá lágmarkstryggingu, jafnvel þótt regluverkið hafi verið gallað. Fólk lagði peninga inn á reikningana í þeirri trú að innistæðurnar væru tryggðar upp að ákveðnu marki.

Orðspor Íslands er sömuleiðis í molum í hinum alþjóðlega fjármálaheimi vegna setningar neyðarlaganna, sem ýttu bönkum og öðrum stórum lánardrottnum íslenzku bankanna aftur fyrir innistæðueigendur í röð kröfuhafa í bú þeirra. Það er afar mikilvæg forsenda þess að heilbrigt fjármálalíf eigi sér einhverja framtíð hér á landi, að samningar náist við kröfuhafana um lendingu sem þeir geta sætt sig við.

Sumir virðast vilja að Ísland bjóði umheiminum byrginn í þessum efnum og segi stolt: Við borgum ekki! Það er ekki leiðin til endurreisnar, heldur leið samninga og samstarfs.