Straumhvörf Guðmundur Jónsson og Gunnar B. Þorsteinsson hjá Aicon segja möguleika Vefþulunnar mikla.
Straumhvörf Guðmundur Jónsson og Gunnar B. Þorsteinsson hjá Aicon segja möguleika Vefþulunnar mikla. — Morgunblaðið/Heiddi
Vefþulan er vefþjónusta sem breytir texta á skjá í hljóð og kemur sér fyrir vikið afar vel fyrir lesblinda, blinda og sjónskerta. Kynningarherferð stendur nú fyrir dyrum vegna þjónustunnar sem aðstandendur segja henta jafnt skólum, leikskólum, heimilum, stofnunum og fyrirtækjum.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Það er líklega erfitt fyrir flesta lesendur að sjá merkingu út úr fyrirsögninni hér að ofan en einmitt svona getur setningin „hvað í ósköpunum stendur hér?“ horft við lesblindum einstaklingi. Vefþulan, ný vefþjónusta sem hefur rutt sér til rúms, er himnasending fyrir lesblinda en eiginleikar hennar felast í því að breyta texta á skjá í hljóð. Hún kemur vitaskuld blindum og sjónskertum vel líka.

Vefþulan er runnin undan rifjum Þórarins Stefánssonar, framkvæmdastjóra Hexiu, en hugbúnaðarfyrirtækið Aicon tók við keflinu í október í fyrra ásamt Páli Jónssyni eiganda leit.is. „Páll, sem er á áttræðisaldri, sá strax notagildið í þessu fyrir eldra fólk og það er virkilega ánægjulegt að hann skyldi vilja taka þátt í þessu nýsköpunarverkefni með okkur,“ segir Guðmundur Jónsson, framkvæmdastjóri Aicon, en þróunarstarf hvílir á hans herðum. „Vefþulan er pottþétt lausn fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum getur ekki lesið eða á erfitt með það,“ bætir hann við.

Hvers vegna vissum við ekki af þessu?

Guðmundur og Gunnar B. Þorsteinsson, samstarfsmaður hans hjá Aicon, segja möguleika þjónustunnar mikla. Þeir hafa kynnt Vefþuluna í ýmsum skólum og segjast alltaf fá sömu spurninguna að kynningu lokinni: „Hvers vegna vissum við ekki af þessu?“

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er um þessar mundir að taka Vefþuluna í notkun og einnig Grunnskólinn á Eyrarbakka. Í framhaldinu er stefnt að því að hún verði innleidd í öðrum grunnskólum á Árborgarsvæðinu. „Það er ekkert því til fyrirstöðu að fleiri skólar taki Vefþuluna upp á sína arma,“ segir Gunnar.

Eitt af verkefnunum sem Aicon vinnur að um þessar mundir er að auðvelda lesblindum nemendum að taka próf. Vefþulunni er þá beitt sem prófarkalesara, þannig að nemandinn heyrir það sem hann slær inn á lyklaborðið og getur þá breytt því sem lesblindan hefur haft áhrif á.

Líka til heimanota

Upphaflega gat Vefþulan bara lesið afmarkaðan texta en þróaðri útgáfa er nú komin til skjalanna. Það þýðir að þegar búið er að setja forritið upp er hægt að láta Vefþuluna lesa hvaða texta sem er af skjá með því að merkja hann. Vefþulan er aðeins til í Windows-útgáfu sem stendur en útgáfa fyrir MacIntosh er í smíðum.

Næsta skref er svo að láta merkingu fylgja orðunum á skjánum um leið og þau eru lesin, „svona eins og í karókí,“ segir Guðmundur til nánari útskýringar.

„Það var í raun einfalt mál að fara með þetta skrefinu lengra,“ segir Guðmundur. „Vandamálið var að nemendur höfðu bara aðgang að Vefþulunni í skólanum – gátu ekki tekið hana með sér heim. Nýju útgáfuna er hins vegar hægt að setja upp í hvaða vél sem er og nemendur hafa því full not af forritinu.“

Spurðir um verð segjast Guðmundur og Gunnar stilla því í hóf. Árgjald af Vefþulunni er 5.880 kr. fyrir heimili.

Liður í þróun Vefþulunnar er að laga hana að öðrum tungumálum. Guðmundur og Gunnar segja það geta komið sér vel víða, ekki síst í leikskólum. Erlendum ríkisborgurum hefur sem kunnugt er fjölgað verulega á Íslandi hin síðari misseri og í mörgum tilfellum tala foreldrar leikskólabarna hvorki íslensku né ensku. Það hefur haft í för með sér kostnað vegna túlka.

Þýðandi og þulur

Þetta vandamál segja þeir félagar Vefþuluna geta leyst með mun hagkvæmari hætti. Upplýsingar sem koma þarf til foreldra yrðu þá lesnar inn á íslensku og þýddar með atbeina Vefþulunnar yfir á viðkomandi tungumál. Útlenskumælandi foreldrar gætu síðan gengið að tölvuskjá vísum og látið Vefþuluna lesa upplýsingarnar hátt og snjallt fyrir sig á sínu tungumáli.

Leikskólinn Fellaborg tekur um þessar mundir þátt í tilraunaverkefni af þessu tagi.

Vefþulan er einnig í boði sem vefþjónusta fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem láta aðgengismál sig einhverju skipta. Það myndi auðvelda fólki með lestrarerfiðleika aðgengi að heimasíðum, þar sem ógrynni upplýsinga er að finna. „Við getum innleitt Vefþuluna á hvaða vef sem er,“ segir Gunnar.

Meðal fyrirtækja sem þegar hafa virkjað Vefþuluna eru Tryggingamiðstöðin og ja.is.

Sveitarfélagið Árborg hefur líka tekið Vefþuluna í notkun og Guðmundur segir þjónustuna upplagða fyrir sveitarfélög enda brýnt að íbúar hafi greiðan aðgang að upplýsingum.

Mánaðarlegt áskriftargjald fyrir stofnanir og fyrirtæki er 17.430 kr.

Okkar Ragga hljómar betur

Vefþulan hefur yfir 38 tölvuröddum að ráða, en aðalröddin heitir Ragga, eftir konunni sem léði henni rödd sína, Ragnheiði Elínu Clausen. Ragga er íhlutur, sem kann ekkert annað en að bera fram texta nokkuð skammlaust – ef textinn er á íslensku. Hægt er að fínstilla Röggu með því að láta hana lesa hljóðritaðan texta, brjóta hann upp, setja inn þagnir, herma eftir útlendum orðum og fleira. „Okkar Ragga kemur því alltaf til með að hljóma betur en einhver önnur Ragga. Segja má að þetta sé spurning um að kunna að fara með verkfærið,“ segja Gunnar og Guðmundur.

Kynningarherferð er nú framundan vegna Vefþulunnar og Gunnar og Guðmundur leggja áherslu á að vinna náið með notendum. Allar ábendingar og athugasemdir eru fyrir vikið vel þegnar.

Samstarfsaðilar Aicon vegna uppsetningar á Vefþulunni eru hugbúnaðarfyrirtækin Eskill, Allra átta, Hugsmiðjan og Dacoda.

Áhugasamir geta fræðst nánar um Vefþuluna á vefthulan.is.

Hefði fengið ellefu í öllum prófum

Hefði ég haft aðgang að Vefþulunni meðan ég var í skóla hefði ég fengið ellefu í öllum prófum,“ segir Guðmundur Jónsson, framkvæmdastjóri Aicon, og hlær dátt. Sjálfur er hann nefnilega lesblindur og hefur því mikinn persónulegan áhuga á þróun forritsins. „Ég hef örugglega fallið á einhverjum prófum vegna þess að ég misskildi spurningarnar.“

Svo rammt kveður að lesblindu Guðmundar að hann hefur aldrei lesið bók um dagana. „Það er vonlaust dæmi, ég yrði brjálaður.“

Það hjálpar hins vegar Guðmundi að hann hefur mjög gott sjónminni. „Það er nóg fyrir mig að sjá hluti gerða einu sinni, hámark tvisvar, til að læra hvernig þeir eru gerðir. En því miður eru ekki allir lesblindir þannig gerðir.“

Skólaganga Guðmundar, sem er fæddur árið 1981, var galeiðuróður, eins og svo margir lesblindir einstaklingar þekkja. „Ég mætti litlum skilningi í skóla og fékk ekki þann stuðning sem lesblindir nemendur þurfa á að halda. Ég var bara settur til hliðar. Ætli kennararnir myndu ekki segja að ég hafi ekki nennt að læra. En það er ekki rétt. Ég nennti alveg að læra, það reyndist mér bara svo ofboðslega erfitt. Það tók mig fimm tíma að klára heimalærdóm sem aðrir luku við á klukkutíma.“

Með tímanum gafst Guðmundur upp á skólanum. Hann féll á öllum samræmdu prófunum og hefur aldrei ritast inn í framhaldsskóla.

Það verður ekkert úr þessum

„Það verður ekkert úr honum þessum,“ hafa eflaust margir hugsað um hann. Guðmundur lét þó mótlætið ekki slá sig út af laginu. „Ég var alltaf staðráðinn í að koma sautjánfalt til baka. Sé viljinn fyrir hendi eru manni allir vegir færir.“

Guðmundur byrjaði að „fikta“ við tölvur, eins og hann orðar það, og eitt leiddi af öðru. Hann stofnaði Aicon utan um heimasíðugerð árið 2003 og var fyrst um sinn eini starfsmaður fyrirtækisins. Síðan hefur starfsemin jafnt og þétt undið upp á sig. Í dag er Aicon hluti af Tölvu- og rafeindaþjónustu Suðurlands og starfa fimm starfsmenn þar í fullu starfi auk þess sem nokkur smærri verkefni eru unnin af verktökum.

Guðmundur er ekki í vafa um að Vefþulan eigi eftir að hjálpa fjölmörgum lesblindum einstaklingum í námi og vonandi fleyta þeim yfir erfiðasta hjallann. „Það er gríðarlega mikið í húfi enda hefur fjöldinn allur af öflugu fólki hrökklast frá námi gegnum tíðina vegna lesblindu. Verði börnin mín lesblind vil ég ekki að þau reki sig á sömu veggi og ég. Þess vegna mun ég að leggja líf og sál í Vefþuluna.“

Í hnotskurn
» Lesblinda er erfiðleikar með rituð orð, bæði í lestri og stafsetningu.
» Það eru til yfir 200 tegundir lesblindu, orsakir lesblindu eru því jafn margar. Orsök lesblindu getur til dæmis verið veikleiki af taugafræðilegum toga eða frávik í afmarkaðri heilastarfsemi.
» Ónefndar rannsóknir gefa vísbendingu um að þegar lesblindir vinna úr upplýsingum nota þeir annan hluta heilans en þeir sem eru ekki lesblindir.
» Lesblinda tengist ekki greind og er ekki sjúkdómur, hún lýsir sér sem erfiðleikar við lestur, einnig geta aðrir erfileikar fylgt einsog erfiðleikar við stafsetningu, stærðfræði o.fl.