Björgvin Ingi Ólafsson
Björgvin Ingi Ólafsson
Björgvin Ingi Ólafsson skrifar um efnahagsmál: "Erfitt er að nota stýrivexti til að ná viðspyrnu eða stöðugleika þar sem vaxtalækkun hefur lítil sem engin jákvæð áhrif á stóran hluta hagkerfisins."

ÍSLAND er þungt haldið af alþjóðlegri fjármálasótt auk þess að vera þjakað af innlendum kvillum. Krankleiki flestra þjóða grundvallast á of mikilli skuldsetningu, neyslusamdrætti og lömuðu bankakerfi. Almenningur um allan heim hefur áhyggjur af framtíðinni og heldur að sér höndum sem enn dregur úr umsvifum og möguleikum þjóða til að ná heilsu á ný.

Staðbundnir kvillar gera alþjóðleg meðul illa brúkleg hér. Þau meðul hafa jafnframt oft á tíðum þveröfug áhrif á innlendu sóttirnar. Hér á landi má illa nota stýrivexti til að ná stöðugleika þar sem vaxtalækkun hefur lítil sem engin jákvæð áhrif á stóran hluta hagkerfisins, verðtryggða hlutann og erlendu skuldirnar. Víða hafa vextir verið lækkaðir mikið, til að mynda eru stýrivextir í Bretlandi nú 0,5%. Það þó dugir Bretum illa við að ná viðspyrnu. Líkur á því að við náum viðspyrnu með lækkun mjög hárra vaxta eru litlar en þó mun meiri eftir umbreytingu í eina mynt en við núverandi skipan mála.

Eignir og skuldir í óverðtryggðri krónu

Áður en við leysum almenna vandann, þann sem er sambærilegur við vandann um allan heim, þurfum við því að leysa okkar sértæka vanda. Almennt gildir um heimilin og fyrirtækin að eignir og skammtímaskuldir eru í óverðtryggðri krónu en langtímaskuldir í verðtryggðri krónu og erlendri mynt. Myndin flækist með verðtryggðum innlánum og verðtryggðri eign lífeyrissjóða. Gjaldeyrishöft gera myndina enn flóknari en látum það liggja milli hluta um sinn. Við lausn vandans þarf að taka nokkur skref. Fyrst af öllu þurfum við að breyta skuldum heimila og fyrirtækja í sömu mynt og eignirnar. Leiðirnar í þá átt eru tvær:

1. Breyta öllum skuldbindingum, eignum og skuldum, í óverðtryggðar íslenskar krónur

2. Breyta öllum skuldbindingum í aðra mynt, til dæmis með einhliða upptöku evru

Kostir og gallar upptöku evru verða ekki reifaðir hér. Að sinni nægir þó að benda á að breyting á eignum og skuldum í sömu mynt, óverðtryggða krónu, gerir umbreytingu í aðra mynt síðar auðveldari.

Siglt úr vör í umhverfi lágra vaxta

Við núverandi skilyrði gjaldeyrishafta er ríkinu í raun í sjálfsvald sett hvert gengi krónu er. Segjum sem svo að krónan styrkist með eðlilegri þróun eða með aflsmunum ríkisins. Þá skapast tækifæri til að breyta erlendum skuldum í íslenskar óverðtryggðar og verðtryggðum skuldum í óverðtryggðar. Við skilyrði himinhárra vaxta er skuldsetning í óverðtryggðri krónu ekki fýsileg og þarf því mikil lækkun vaxta að fara saman við þessar aðgerðir. Lágir innlendir vextir ættu að vera til þess fallnir að hagkerfið geti siglt úr vör.

Þá verða allar skuldbindingar í sömu mynt og hægt verður að glíma við okkar vanda með þeim alþjóðlegu meðölum sem til eru. Hvernig þessar lausnir hljóma í eyrum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er óvíst en ég sé ekki aðrar betri leiðir færar til hraðrar endurreisnar. Með þessu er þó ekki allt unnið. Hlutverk lífeyrissjóða er mikilvægt og þurfa breytingar sem þessar að vera gerðar í sátt við þá sem fara með verðtryggðar eignir landsmanna. Rök lífeyrissjóða fyrir því að taka þátt í slíkri kerfislægri umbreytingu eru að þessar aðgerðir eru til þess fallnar að tryggja viðspyrnu hagkerfisins frá botninum, auka kaupmátt, styrkja greiðsluhæfi almennings og grundvalla rekstrarhæfi fyrirtækja. Allt eru þetta þættir sem skipta lífeyrissjóði og eigendur þeirra miklu.

Meðal vandamála sem þá standa þó eftir eru gjaldeyrishöft og erlend krónubréfaeign. Gjaldeyrishöft hafa aldrei haft jákvæð áhrif og afnema þarf þau við fyrsta tækifæri. Gjaldeyrishöftum var m.a. komið á til að koma í veg fyrir sölu krónubréfa eða að minnsta kosta fresta sölu þeirra. Nú vofir útflæði gjaldeyris vegna sölu krónubréfa yfir og við það er ekki unað. Mikilvægt er að hugsa áðurnefndar aðgerðir í samhengi við óumflýjanlega sölu krónubréfa. Jafnframt skal selja þau með sem minnstum tilkostnaði fyrir Íslendinga.

Eftir breytingu allra skuldbindinga í óverðtryggðar krónur er hvati hins opinberra til að að halda krónu sterkri lítill sé litið til mjög skamms tíma. Neikvæð áhrif mikils skammtíma falls krónunnar á íslenska hagkerfið yrðu mun takmarkaðri en áður þegar heimilin og fyrirtækin skulduðu í erlendri mynt. Með mikilli veikingu, í mjög skamman tíma, má þrýsta á sölu krónubréfa með sem hagstæðustum hætti fyrir Ísland eða nýta þrýsting í samningum við eigendur krónubréfa um aðra framtíðarúrlausn.

Eftir þessar aðgerðir er mikill vandi enn óleystur en möguleikar til að vinna úr þeim vanda eru meiri en áður. Eftir standa skuldsett fyrirtæki og heimili. Vanda þeirra þarf að glíma við með sértækum meðölum. Lausnirnar eru hins vegar mun líklegri til að virka ef allar skuldir og eignir eru í sömu óverðtryggðu mynt, þá yrðu t.d. stjórntæki Seðlabanka raunverulega virk á hagkerfið í heild.

Í aðdraganda kosninga þurfa stjórnmálamenn að svara hvernig ýta má hagkerfinu úr vör, auka þrótt þjóðarinnar og skapa aðstæður til hraðrar endurreisnar. Ég skora á þá að taka undir þessar hugmyndir, framkvæma þær eða koma með aðrar betri – þjóðinni til heilla.

Höfundur er hagfræðingur.

Höf.: Björgvin Ingi Ólafsson