Utanríkisráðherrann Bjarni Benediktsson skrifar undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins í Washington 4. apríl árið 1949.
Utanríkisráðherrann Bjarni Benediktsson skrifar undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins í Washington 4. apríl árið 1949. — Ljósmynd/Borgarskajasafn Reykjav
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óhætt er að fullyrða að það vakti miklar deilur í þjóðfélaginu þegar Alþingi ákvað að undirlagi ríkisstjórnarinnar að Ísland yrði einn af stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins.

Óhætt er að fullyrða að það vakti miklar deilur í þjóðfélaginu þegar Alþingi ákvað að undirlagi ríkisstjórnarinnar að Ísland yrði einn af stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins. Í viðamiklu skjalasafni úr fórum Bjarna Benediktssonar, þáverandi utanríkisráðherra, eru bréf, minnisblöð og ræður, sem varða þennan minnisstæða atburð, og hafa sum hver aldrei komið fyrir sjónir almennings. Hér er rakin atburðarás fjögurra örlagaríkra mánaða. Sagan hefst í desember 1948...

Eftir Pétur Blöndal

pebl@mbl.is

7. desember

„Algert trúnaðarmál“ er skrifað af Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra efst á minnisblaðið. Þar skrifar Bjarni m.a. að „Mr. Butrick“, sendiherra Bandaríkjanna, hafi komið á skrifstofu sína og skýrt sér frá því að „stjórn Bandaríkjanna hefði sagt sér í algerum trúnaði, en samt heimilað sér að segja mér, að ráðgert væri að leita til Íslands meðal fyrstu ríkja um þátttöku í Norður-Atlantshafsbandalagi, þegar umræðum milli þeirra aðila, sem nú eiga í umræðum um þessi mál, væri svo langt komið að hlýða þætti að snúa sér til fleiri.“

11. desember

Enn skrifar Bjarni efst á minnisblaðið „Algert trúnaðarmál“. Þar segist hann hafa boðað Butrick á sinn fund og sagt að íslenska ríkisstjórnin gæti ekkert sagt um afstöðu sína fyrr en meira lægi fyrir. En hann vildi „nú þegar taka fram af stjórnarinnar hálfu, að hún óskaði eftir, að áður en Íslandi væri opinberlega og formlega boðin þátttaka í bandalagi þessu, væri haft samráð við íslenzku stjórnina, svo að henni gæfist kostur á að átta sig á málinu og eftir atvikum hafa áhrif á það áður en það lægi opinberlega fyrir. Væri og ljóst að afstaða hinna Norðurlandanna, og þá einkum Noregs, en einnig Danmerkur, mundi hafa, eða geta haft, veruleg áhrif á afstöðu manna hér til málsins.“

16. desember

Thor Thors, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, skrifar Bjarna um Atlantshafsbandalagið: „Ég er þér alveg sammála, að bezt er fyrir okkur í lengstu lög að bíða átekta. Þetta mál hefir ekki verið formlega upptekið við okkur, og meðan svo er, vitum við í rauninni ekkert.“

Og hann bætir við: „Hér í Washington hefir aldrei neinn minnst á Atlantshafsbandalag við mig, og eg þar af leiðandi svo vel settur, að eg hefi ekkert þurft um málið að segja. Eg mun aldrei minnast á þetta mál við neinn að fyrra bragði. Verði á það minnst við mig, mun eg gjöra sem mest úr erfiðleikunum heima fyrir. Mér er þó ljóst, að eins og ástandið er nú í heiminum verðum við að líta með skynsemi á málið. Fyrst og fremst út frá því sjónarmiði, að mannslífum sé ekki að óþörfu stefnt í grimman voða.“

5. janúar

„Loks er þá Norður-Atlantshafsbandalagið,“ skrifar Bjarni vini sínum Thor, að morgni 5. janúar. „Ég fékk skeyti í gær frá þér um það og býst við vitneskju frá sendiherranum Bandaríkja í dag. Kommúnistar hafa þegar hafið tryllta agitation og svo sem geta mátti nærri fengið nokkuð af þjálfun með sér. Við erum ef til vill ekki nógu harðir í framgöngu, en það kemur fyrst og fremst af því, að á meðan við vitum svo lítið um hvað er að ræða þykir okkur nokkuð erfitt að taka upp beina opinbera sókn fyrir málinu. Það verður auðsjáanlega torsótt enda auðvitað erfitt við það að eiga fyrr en við vitum með vissu, hvaða tryggingar við getum fengið og hvort til þess er ætlast af okkur, sem við teljum okkur framkvæmanlegt.“

Það er næst frásagnar, að sendiherra Bandaríkjanna knúði dyra síðar um daginn og afhenti minnisblað, sem skilgreint var í „hæsta trúnaðarflokki“ og stílað á forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Þar er rætt um að viðræðum miði vel á veg um grundvallarmarkmið N.-Atlantshafssáttmálans. Sjö ríkisstjórnir standi að viðræðunum og vilji láta á það reyna hvort Ísland, Danmörk, Noregur, Írland og Portúgal sækist eftir að verða stofnaðilar við undirskrift sáttmálans. Er óskað eftir munnlegu svari og óformlegu frá íslensku ríkisstjórninni um æskilegt fyrirkomulag og tímasetningu opinberra samskipta vegna málsins.

Bjarni skrifar minnisblað þennan dag eftir að hafa hitt Butrick og þar stendur m.a.: „Er ég hafði lesið frásögnina sagði ég, að afstaða Íslendinga til máls þessa mundi vera komin undir nánari vitneskju varðandi nokkur atriði og dytti mér þá fyrst í hug, án þess að vilja segja nokkuð um málið á þessu stigi, hvort ætlunin væri að Íslendingar hervæddust sjálfir og skuldbindi sig til þess og einnig, hvort hér ætti að dvelja her á friðartímum.

Sendiherrann sagðist ekkert vita frekar en í orðsendingunni stæði en sér sýndist hvorugt af þessu þyrfti að felast í samningnum eins og frá honum væri sagt.“

6. janúar

Daginn eftir saumar Bjarni aftan við bréfið til Thors: „Ég tel ekki líklegt að í stjórninni vilji neinir láta svara neitandi þessari fyrirþreifingu, a.m.k. að svo stöddu.“

Þá skrifar hann: „Mín skoðun er sú, að mikill vinningur væri að gera samninginn þó að ekki væri mikið aukið öryggi á pappírnum, en ekki er víst að þeir sem hér eru ókunnir aðstæðum skilji það til hlítar. En hætt er við að hér séu svo margir sem ekki geti hugsað sér neina herstöð á friðartímum, að ómögulegt verði að koma neinu fram ef slíkt á að vera fólgið í samningnum. Ekki er heldur vafi á að margir meðal almennings eru hræddir við herskyldu eða nokkuð sem henni líkist. Fer þá að vandast málið ef hvorugt má gera. Sumir, sem betur ættu að vita, sbr. Hermann Jónasson í áramótagrein sinni, eru einnig farnir að predika að hér sé lítil eða engin hætta og í vörnunum sé lítil eða engin trygging. Menn geta haft sínar skoðanir á hver heilindi eru á bak við slíkan málflutning, þegar slíku er haldið fram af formanni næststærsta stjórnmálaflokksins, sýnir það hverjir örðugleikar eru á.

Ég tel þó að ekkert af þessu megi verða til þess að gefist sé upp við að koma fram því, sem áreiðanlega er nauðsynlegt ef þjóð okkar á að hafa nokkurt öryggi og ekki verða ofurseld eyðileggingu og tortíming. Allt þetta sannar mér að áður en við tökum á okkur nokkra skuldbindingu eða gerumst opinberir aðilar að umræðum þurfa frekari samræður að eiga sér stað bak við tjöldin. “

12. janúar

Á minnisblaði kemur fram að Bjarni Benediktsson hitti Anderssen-Rysst, norska sendiherrann, sem skýrði frá gangi viðræðna um „hervarnarbandalag Norðurlanda“. Svíar vildu að aðildarþjóðir slíks bandalags yrðu ekki meðlimir í N.-Atlantshafsbandalaginu, en á það vildu Norðmenn ekki fallast.

Samkomulag hefði þó tekist um yfirlýsingu milli ríkjanna þriggja, þar sem þau hétu hverju öðru hernaðaraðstoð ef á þau væri ráðist, „og voru þó undantekin þeirri skuldbindingu Færeyjar, Grænland, Jan Mayen og Spitzbergen, þannig að þó að á þessa landshluta væri ráðist kæmi varnarbandalagið ekki til greina“.

Sendiherrann sagði að Lange, utanríkisráðherra Noregs, hefði lýst þeirri skoðun í viðtali í Arbeiderbladet í upphafi árs að Noregur þyrfti að vera í „heildarsamtökum þeirra ríkja, sem hugsuðu og hegðuðu sér á sama veg og Norðmenn. Hefði þar einnig komið fram, að hann vildi samvinnu við Ísland.“

Sama dag var lesin upp fyrir Butrick óformleg yfirlýsing um að Ísland tæki ekki afstöðu til Atlantshafssáttmálans, fyrr en frekari upplýsingar lægju fyrir um í hverju aukið öryggi fælist og hvaða skyldur það hafi í för með sér. Í minnisblaði Bjarna kemur fram: „Til skýringar lagði ég áherzlu á, að Íslendingar væru minna inni í þessu máli en stjórnir þeirra ríkja, sem unnið hefðu að þessu tiltekna máli í marga mánuði, hefðu auk þess mikla æfingu í utanríkismálum og hermálum umfram Íslendinga, en þetta mál væri nýtt fyrir okkur og við þar að auki einangraðir hér og hefðum enga hermálaþekkingu. Af þessum sökum væri eðlilegt að við þörfnuðumst frekari skýringa.“

Þá kemur fram að Bjarni hafi sagt að „staða Íslands væri líka sérstæð, vegna þess að við hefðum beyg af að hafa hér erlendan her á friðartímum, en þá kæmi hitt, hvort þá væri nokkuð öryggi í þessum samningi ef engar varnir ættu sér stað. Allt þetta yrði að meta, en þó væri sú skoðun ákaflega rík, bæði hjá fylgjendum ríkisstjórnarinnar og stjórninni sjálfri, að það væri of dýru verði keypt að láta hermenn dvelja hér á friðartímum fyrir það öryggi, sem við slíkt fengist.“

13. janúar

„Góði vinur,“ hefst bréf frá Thor til Bjarna, þar sem hann ræðir um Atlantshafssáttmálann. Hann rifjar upp samtal þeirra frá 6. janúar, þar sem Thor ráðlagði Bjarna að gera út sendinefnd á sjávarútvegsráðstefnu í Washington 26. janúar. „Opinbert erindi sendinefndarinnar yrði að sækja sjávarútvegsráðstefnuna, en raunverulegur tilgangur yrði að grennslast fyrir um Atlantshafssáttmálann.“

Thor segist í bréfinu, sem skrifað er á ensku, hafa lagt til við fulltrúa bandaríska utanríkisráðuneytisins, að nýta tækifærið til að skiptast á skoðunum og að tekið hafi verið vel í það. En hann vilji fá símtal frá Bjarna til staðfestingar á því hvort sendinefnd verði gerð út af örkinni. Hann leggur til að Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins verði með í för, Ólafur Thors og einhver af leiðtogum Alþýðuflokksins. Þeir geti þá tekið skýrar tillögur með sér heim, „þú getur síðan tekið skjóta ákvörðun og þjóðin hefði þá niðurstöðu þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna“.

Loks skrifar Thor: „Persónulega, tel ég að þú sért alltof varkár vegna herþjónustu og erlendra hermanna á [Íslandi á] friðartímum. Ég held að íslenska þjóðin sé nógu skynsöm til að átta sig á því, að á stríðstímum sé hlutleysi ekki til. Nútímahernaður virðir engar slíkar hugsjónir. Við þurfum að hugsa skýrt á friðartímum og gera ráðstafanir um eins öruggar varnir og frekast er kostur.“

Það er gaman að lesa eftirskrift bréfsins, þó að það komi svo sem Atlantshafssáttmálanum ekkert við, en þar skrifar Thor: „Ég þakka þér fyrir þá miklu velvild sem þú hefir sýnt mér með því að leggja til að ég fengi stórkrossinn. Úr því sem komið er legg ég áherzlu á að úr því geti orðið. Ég hefi gaman að því að stríða Sveinka og skriðdýri hans. Ennfremur hefir þetta kvisast, m.a. sagði Hans Andersen Magnúsi V. frá þessu. Það yrði því þér og mér til háðungar ef þetta gengi tilbaka og óvinirnir fengju meiru um ráðið. Loksins fékk Sveinki skoðun! Líklega af því að ég hefi hlíft honum við að opinbera þjófnaði Ólafs sonar hans. – En hvað sem úr þessu verður þykir mér mest um vert vinátta þín og mat á mínum störfum. Ég vildi semja um það að lána Villa Þór krossinn til að nota á grímuböllum á Akureyri!“

27. janúar

Bjarni Benediktsson fundaði með Gustav Rasmussen, utanríkisráðherra Dana, í Kaupmannahöfn. Rasmussen sagði honum í óspurðum fréttum frá samningaumleitunum um varnarbandalag Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Bjarni segir svo frá, að hann hafi sagt danska utanríkisráðherranum að „Ísland hvorki vildi né gæti haft áhrif á hvað hin Norðurlöndin gerðu, en við hefðum áhuga fyrir, að ef samningar um Norðurlandabandalagið færi út um þúfur, og ef Noregur og Danmörk hæfu þá viðræður um þátttöku í Norður-Atlantshafsbandalaginu, að hafa samráð við þau, enda teldi Ísland sig enn of lítið vita um þær ráðagerðir til að geta tekið afstöðu til þeirra.“

28. janúar

Bjarni fundaði með Halvard Lange, utanríkisráðherra Norðmanna, í Ósló. Þar kom skýrt fram hjá Lange „að ekki yrði samkomulag um skandinaviskt varnarbandalag nema því aðeins að Bandaríkjastjórn hefði breytt um afstöðu frá því sem verið hefði...“ Skildist Bjarna að synjun Svía á því, að áður en til ófriðar kæmi, væri búið að gera ráð fyrir, hvernig aðstoð Vesturveldanna yrði háttað, „væri ein höfuð ástæðan fyrir því að ekki myndi samkomulag verða“. Þá segir Bjarni svo frá, að Lange hafi „hreyft því og óskað eftir, að ég ætti kost á að sitja á fundunum um hið skandinaviska varnarbandalag, en Svíar hefðu neitað því, vegna þess að þeir hefðu talið, að slíkt mundi leiða til of mikilla umræðna um Norður-Atlantshafsbandalag“.

5. febrúar

Sendiherra Norðmanna gekk á fund Bjarna til þess að tilkynna honum að Lange, utanríkisráðherra Noregs, „væri í þann veginn að fara til Washington til að ræða þar við stjórnina um ýmis atriði í sambandi við hugsanlega þátttöku í Norður-Atlantshafsbandalagi og ennfremur um það, hvort hugsanlegur væri stuðningur Bandaríkjanna við varnarbandalag skandinavisku landanna“.

8. febrúar

Butrick gekk á fund Bjarna og sagði að Atlantshafssáttmálinn gæti ekki orðið erfiður fyrir íslensku ríkisstjórnina „þegar á daginn kæmi, að þau atriði varðandi herstöðvar og hersetu hér á landi, sem andstæðingar málsins hefðu fært fram á móti því, væri gjörsamlega tilhæfulaus“. En Bjarni var efins: „Ég sagði, að svo kynni að virðast rökrétt séð, en hætt væri við að andúð sú, sem reynt hefði verið að vekja gegn málinu, kynni að verða því skaðsamleg og nú væri í agitationinni lagt mest upp úr hlutleysi, en ekki því, sem áður hefði verið fram fært. Í þessu sambandi sagði ég við Mr. Butrick, að mikilvægt væri að íslenzku stjórninni væri ekki boðin þátttaka án þess að málið hefði verið frekar rætt við hana en enn hefði verið gert.“

1. mars

Fram kemur í bréfi frá Thor til Bjarna að Svíum og Dönum hafi þótt heimsókn Langes til Bandaríkjanna bera of brátt að og að þar sé tilfinningin sú að Norðmenn hafi ekki staðið heilshugar að baki skandínavíska varnarbandalaginu. Nú sé Dönum ljóst að þeir verði að fylgja Noregi, ella verði þeir „algjörlega og endanlega einangraðir“. Bæði Norðmenn og Danir leggi áherslu á að leggja hönd á gerð sáttmálans, en Thor telur það ekki mikilvægt Íslendingum. „Þess vegna, getum við beðið með að taka ákvörðun, ef þú telur það skynsamlegt pólitískt með hliðsjón af almenningsálitinu á Íslandi. Ég get hinsvegar ímyndað mér, að sú spurning muni vakna í umræðum í Öldungadeildinni, hver sé afstaða Íslendinga. Ef þú ert því reiðubúinn að taka ákvörðun, sé ég engan akk í því að bíða, en þú veist þetta auðvitað betur og hvernig standa má að ákvörðuninni, þannig að hún falli best í kramið hjá þjóðinni.“

8. mars

Minnisblað til utanríkisráðherra Íslands merkt „Top Secret“ barst Thor, þar sem fram kom að Norðmenn hefðu gerst fullir þátttakendur í viðræðum um Atlantshafssáttmálann 4. mars og danski utanríkisráðherrann væri væntanlegur 10. mars til Washington í sama tilgangi.

Drög hefðu verið send þeim átta ríkisstjórnum sem tækju þátt í viðræðunum. Stefnt væri að samkomulagi fyrir lok vikunnar og þá væri hægt að miðla því til ríkisstjórna Íslands, Danmerkur, Portúgals og Ítalíu. Ráðgert væri að textinn yrði gerður opinber 15. mars og að undirskriftin færi fram 4. apríl í Washington.

„Það yrði ríkisstjórn Bandaríkjanna ánægjulegt, og hún er þess fullviss að það sama gildi um hinar ríkisstjórnirnar, ef Ísland vildi taka þátt í undirskrift stofnsáttmálans.“ Fulltrúum íslenskra stjórnvalda er boðið „hvenær sem er“ til Washington til að ræða sáttmálann. Þar sem æskilegt sé að tilkynna í nánustu framtíð, hugsanlega 15. mars, hvaða ríkisstjórnir skrifi undir stofnsáttmálann, yrði snemmbúin melding um það vel þegin, hvort Ísland vilji fá boð um það.

Vopnlaus þjóð

Þegar aðild að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á Alþingi 30. mars söfnuðust mótmælendur saman á Austurvelli, en fylgismenn ríkisstjórnarinnar tóku sér stöðu gegn þeim. Um mótmælin og viðbrögð við þeim var fjallað í Morgunblaðinu um liðna helgi. Bjarni Benediktsson hélt eftir það til Washington til að skrifa undir stofnsamninginn. Í skjalasafni hans má finna handskrifuð drög að ræðunni á ensku á blaði merktu hótelinu The Shoreham, 2500 Calvert Street. Einnig er þar boðskort frá Truman-hjónunum, afrit af stofnsáttmálanum og tímaáætlun fyrir undirskriftina.

Í upphafi ræðu sinnar af því tilefni sagði Bjarni: „Þjóðir þær, sem nú eru að ganga í þetta nýja bræðralag, eru að mörgu leyti ólíkar hver annarri. Sumar þeirra eru hinar mestu og voldugustu í heimi, aðrar eru smáar og lítils megandi. Engin er þó minni né má sín minna en þjóð mín – íslenzka þjóðin. Íslendingar eru vopnlausir og hafa verið vopnlausir síðan á dögum víkinganna, forfeðra okkar. Við höfum engan her og getum ekki haft. Ísland hefir aldrei farið með hernaði gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við né munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af sameinuðu þjóðunum. Staðreynd er, að við getum alls ekki varið okkur gegn neinni erlendri, vopnaðri árás. Við vorum þess vegna í vafa um, hvort við gætum gerzt aðilar þessa varnarbandalags, en svo getur staðið á, að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norðuratlantshaf.“

Ríkisstjórnin 4. apríl 1949

Forseti Íslands skipaði á ríkisráðsfundi 4. febrúar 1947 ríkisstjórn undir forsæti Alþýðuflokksins, sem í sátu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Ríkisstjórnin gegndi störfum til 6. desember 1949:

Stefán Jóh. Stefánsson, forsætis- og félagsmálaráðherra,

Emil Jónsson, samgöngu- og viðskiptamálaráðherra,

Bjarni Benediktsson, utanríkis- og dómsmálaráðherra,

Jóhann Þ. Jósefsson, fjármála- og atvinnumálaráðherra,

Bjarni Ásgeirsson,

landbúnaðarráðherra,

Eysteinn Jónsson,

menntamálaráðherra.

Framsýnar hugmyndir um stjórnarskrána

Skjalasafn Bjarna Benediktssonar, sem hýst er á Borgarskjalasafninu, verður opnað fyrir rannsóknum í næsta mánuði. „Þetta er einstaklega viðamikið safn og spannar allt frá æskuárum hans til dauðadags,“ segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður. „Við höfum unnið að skráningu þess og sýnum við ljósmyndir úr safninu og einstaka heimildaflokka á sérstökum vef, www.bjarnibenediktsson.is. Ég get nefnt sem dæmi lítið tímarit sem hann útbjó aðeins tíu ára, með auglýsingum og öllu tilheyrandi, en seinna varð hann ritstjóri Moggans. Síðan eru komnar inn skemmtilegar ritgerðir frá því í MR, sem bera með sér að hann fór snemma að hafa ákveðnar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Þá eru í safninu dagbækur hans frá háskólaárunum, sem lýsa vel hvernig stjórnmálamaðurinn mótaðist.“

– Og frá stjórnmálaferlinum?

„Þar eru til dæmis minnisblöð um aðdragandann að inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið og einnig um aðkomu hans að stofnun lýðveldis á Íslandi og um störf hans í stjórnarskrárnefnd, sem vann að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rætt er um stjórnarskrárbreytingar núna og því fróðlegt að sjá hugmyndir sem hann tefldi fram, til dæmis í mannréttindamálum, sem voru margar framsýnar. Á vefinn bætist brátt við ítarleg skjalaskrá yfir safnið og þá verður hægt að sækja um að fá aðgang að því til rannsókna. Við höfum líka áhuga á að setja fleiri heimildaflokka inn á vefinn smátt og smátt. Svo geta eintök skjöl líka verið skemmtileg. Þar má til dæmis nefna málsskjöl sem stíluð eru á Bjarna Benediktsson dómsmálaráðherra og merkt trúnaðarmál en á það skjal hefur sonur hans Björn æft undirskrift sína með vaxlit ungur að árum.“

Þrír ráðherrar funda með stjórnvöldum vestanhafs um Atlantshafsbandalagið

Ef árás yrði gerð

Mikið var í húfi þegar ráðherrarnir Bjarni Benediktsson, Eysteinn Jónsson og Emil Jónsson, ásamt Thor Thors sendiherra, fóru á fund Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington 14. mars árið 1949.

Í upphafi fundarins óskaði Bjarni Acheson til hamingju með hið þýðingarmikla embætti og minntist á velvild hans til Íslands. En það er einkennandi fyrir málflutning Bjarna á fundinum hversu gagnrýnum augum hann leit sáttmálann: „Sagði hann, að Ísland væri mjög hlynnt náinni samvinnu við hin vestrænu lýðræðisríki, en hins vegar hefði Ísland þá sérstöðu, að hvorki hefði það eigin her né gæti haft né heldur gæti komið til greina, að útlendur her fengi að hafa þar aðsetur á friðartímum, og gilti það sama einnig um herstöðvar. Væri þess vegna ekki ljóst, hvort rúm væri fyrir Ísland meðal samningsríkja.“ Bjarni fór fyrir ráðherrunum í umræðunum og segir m.a. í fundargerð: „ Bjarni Benediktsson sagði, að svo virtist, sem Ísland myndi aðeins þurfa að athuga hvort það gæti látið „facilities“ [eða aðstöðu] í té á styrjaldartímum. Hickerson [forstjóri Evrópudeildarinnar] sagði að auðvitað myndi ráðið geta mælt með því, að einhver ákveðin „facilities“ væru fyrir hendi „in case of emergency“ [eða á neyðarstundu]. Acheson skýrði frá því, að í ályktun Bandaríkjaþings væri tekið fram, að svæðissamningar eins og þessi væru æskilegir því að nauðsynlegt væri, að þau ríki, sem hyggðu á árásir, gerðu sér fullkomlega ljóst fyrirfram, hvaða afleiðingar það myndi hafa. Væri jafnvel gert ráð fyrir því, að ef slíkir samningar hefu verið fyrir hendi fyrr, hefðu þeir getað komið í veg fyrir heimsstyrjaldirnar tvær. Bjarni Benediktsson sagði að andstæðingar samningsins á Íslandi myndu segja að ef ekki væri til þess ætlast, að Ísland hefði her eða herstöðvar á friðartímum, myndi Ísland einungis verða hinum aðilunum til byrði; hlyti þess vegna eitthvað annað að vera á bak við. Acheson áleit að til andsvara væri hægt að benda á það, sem hann áður hefði sagt, þ.e., að nauðsynlegt væri að væntanlegt árásarríki gerði sér grein fyrir því, að með árás á Ísland væri jafnframt ráðist á alla hina samningsaðilana, og þá einnig fyrir því, að Ísland væri ekki „available“ fyrir árásarríki. Bjarni Benediktsson benti á að sumir mundu segja að með þátttöku í þessum samningi mundi Ísland vera í enn meiri hættu statt en ef það segði berum orðum, að ekkert ríki gæti fengið „facilities“ á Íslandi. Þá væri einnig spurning um það, hvort hægt sé að verja Ísland án mikils undirbúnings, því hugsanlegt væri, að Rússar mundu geta hafið stríð á Íslandi. Acheson viðurkenndi að þetta væri þýðingarmikil spurning, en Ísland yrði auðvitað að gera sér grein fyrir svarinu á grundvelli þeirrar reynslu, sem fyrir lægi, því að sýnt væri að hingað til hefðu ríki ekki getað haldið sér utan við styrjaldir með hlutleysi, t.d. Danmörk, Noregur, Holland og Belgía, – og jafnvel Ísland í síðasta stríði.“

Togararnir í friði

Ákveðið var að halda framhaldsfund ráðherranna og Thor Thors með Hickerson, Bohlen, sérfræðingi utanríkisráðuneytisins, og Hulley, forstjóra N-Evrópudeildarinnar. Þar voru drögin að sáttmálanum afhent „sem algert trúnaðarmál“. Til líflegra umræðna kom á fundinum, eins og segir í fundargerð :

„Bjarni Benediktsson

spurði hvort það gæti komið til, að Ísland þyrfti að segja öðru ríki stríð á hendur, en Bohlen sagði að því mundi Ísland ráða sjálft. Bjarni Benediktsson spurði þá hvað væri átt við með orðunum „including the use of armed forces“ í fimmtu grein. Sagði Bohlen að átt væri við að samningurinn tæki einnig til hernaðaraðgerða, en það færi eftir atvikum hvort til þeirra kæmi. T.d. myndu þær ekki koma til greina af hálfu ríkis, sem engan her hefði. Bjarni Benediktsson spurði hvort það gæti komið til greina, að Ísland yrði beðið um að leggja til togara og menn til ákveðinna starfa í sambandi við samninginn, og sagði Hickerson þá, að ef til vill væri það ekki alveg óhugsanlegt, að ráðið mundi gera einhverjar tillögur í þá átt ef það þætti sanngjarnt . Bjarni Benediktsson lét þegar uppi, að á slíkt mundi ekki fallizt af Íslandi, enda væru togararnir helztu framleiðslutæki landsmanna, sem útilokað væri að vera án. Síðan lagði Eysteinn Jónsson sérstaka áherzlu á, að slík ráðstöfun togaranna kæmi alls ekki til greina. Bohlen svaraði því til, að um þetta mundi Ísland hafa úrslitaráðin, og sagði að allir aðilar gerðu sér grein fyrir því, að Ísland hefði sérstöðu. Að líkindum myndi ekki verða til annars ætlast af Íslandi en þess, að ákveðin „facilities“ væru fyrir hendi. Hickerson sagði, að hlutur Íslands yrði sennilega mjög svipaður og í síðasta stríði . Bjarni Benediktsson spurði þá, hvort Ísland mundi geta gert sérstakan formlegan fyrirvara við samningsundirskrift um það að Ísland hefði engan her og sérstöðu þess að öðru leyti bæri að virða. Bohlen og Hickerson töldu að slíkur fyrirvari mundi vera mjög óheppilegur, því að ýmis fleiri ríki mundu þá vilja gera fyrirvara, því að aðilarnir væru sammála um sérstöðuna. Ísland myndi eiga fulltrúa í ráðinu, og myndu fulltrúar US og Bretlands hafa fulla samvinnu við hann um þetta, enda hefði Ísland sjálft úrslitaráðin hvað það gerði. Hickerson bætti því við, að hann hefði unnið að samningnum frá því í júlí, og hefðu allir aðilar gert sér grein fyrir sérstöðu Íslands.“

15. mars

Ráðherrarnir ásamt Thor Thors funduðu með Bohlen, Hulley og Hickerson, en einnig yfirmönnum hersins, Anderson úr flughernum og Woolridge frá flotanum.

Bjarni Benediktsson sagði þýðingarmestu spurninguna, „hvort hægt væri frá hernaðar sjónarmiði að gefa Íslandi „reasonable security“ án þess að erlendur her eða herstöðvar væru á Íslandi á friðartímum, ef einhver „facilities“ eins og talað var um daginn áður væru fyrir hendi á ófriðartímum. Spurning væri hvort til mála gæti komið að árásarríki gæti tekið Ísland áður en nokkuð yrði við því gert.“

Woolridge taldi venjulega fyrirsjáanlegt um nokkurt skeið þegar styrjöld væri um það bil að byrja, vegna herflutninga og annarra ráðstafana. Thor Thors benti á, „að ekki hefði árásin á Pearl Harbour verið talin nægilega fyrirsjáanleg til þess að virkar aðgerðir hefðu komið þar að haldi“. Woolridge sagði að árásin hefði verið fyrirsjáanleg, en hins vegar hefði ekki verið talið líklegt að ráðist yrði á Pearl Harbour .

Bjarni Benediktsson

spurði hvort hugsanlegt væri að Rússar gætu sett lið á land með kafbátum og sagði Admiral Woolridge að það gæti komið til mála en þó gæti ekki verið um mikið lið að ræða. Þá myndi og erfitt að koma nauðsynlegum vistum til slíks liðs. Væri miklu líklegra að ef til flutnings liðs kæmi mundi flugleiðin verða notuð. Gen. Anderson taldi ólíklegt að Rússar myndu senda lítið lið ef til kæmi, því að þeir gerðu sér fyllilega grein fyrir því hversu mikla þýðingu Ísland hefði fyrir Bandaríkin og Bretland og að mikið lið mundi þurfa til að geta haldið landinu, svo mikið að varla kæmi til greina að hægt væri að flytja það flugleiðis. Sagði hann að mikilsvert væri að vara sig á fylgismönnum Rússa á Íslandi, því að líklegt væri að Rússar myndu gera ráð fyrir stuðningi þeirra í sínum ráðagerðum og taldi hann aðalhættuna fyrir öryggi flugvallarins stafa frá þeim .

Bjarni Benediktsson

spurði, hvort Íslendingar mundu sjálfir geta eyðilagt „facilities“ á stuttum tíma ef á þyrfti að halda og var talið að svo væri. Þá sagði Gen. Anderson að Bandaríkin mundu hafa tilbúnar flugsveitir hvenær sem á þyrfti að halda til verndar Íslandi (sbr. það sem áður var sagt um jetflugvélar). Bjarni Benediktsson sagði, að erfitt mundi verða fyrir Ísland að koma í veg fyrir árás enda þátt „facilities“ væru eyðilögð. Sagði Gen. Anderson að Bandaríkin myndu líklega hafa sínar sveitir tilbúnar annaðhvort við Goose Bay eða á Grænlandi, en árás Rússa myndi líklega koma frá Norður-Finnlandi. Nefndi hann í því sambandi að um 1½ tíma mundi taka að fljúga frá Grænlandi en 3 frá Goose Bay. Benti hann og á að Rússar mundu ekki geta notað flugvélamóðurskip án vitundar Bandaríkjanna og gætu þau gert virkar ráðstafanir gegn slíkum aðgerðum. Admiral Woolridge vék aftur að spurningunni um liðflutning með kafbátum og sagði, að Rússar mundu líklega geta sent um 1.600 manns (2 battalions) með þeim hætti og væri það auðvitað nógu sterkt lið til að Íslendingar gætu ekki ráðið við það.

Bjarni Benediktsson

vék að því, að síðastliðið sumar hafi stór rússneskur síldarfloti komið til Íslands og hafi þar verið um mjög grunsamlegt athæfi að ræða. Eitt skipanna hafi brotið í bág við íslenska landhelgislöggjöf og aðspurður hafi skipstjóri þess upplýst, að hann hefði aldrei fengist við fiskiveiðar fyrr heldur starfað í rússneska flotanum. Væri því hugsanlegt að með þessum hætti gætu Rússar undirbúið árás. Gen. Anderson sagðist hafa haft upplýsingar um þennan flota.“

Undir lok fundarins sagði Woolridge „að gera yrði ráð fyrir þeim möguleika, að íslenskir kommúnistar og t.d. rússneskur síldveiðifloti gæti náð vellinum á sitt vald“. Eysteinn Jónsson spurði „hvort ekki mundi vera erfitt fyrir fallhlífahermenn að lenda í hrauni, eins og væri t.d. í kringum Keflavíkurflugvöllinn. Gen. Anderson kvað það vera, en taldi að slíkir menn gætu lent annars staðar á Íslandi.“

Andstaða hugsanleg

Bjarni Benediktsson sagði á fundi í utanríkisráðuneytinu með Hickerson og Hulley „að hugsanlegt væri, að mikil andstaða yrði á Íslandi gegn þátttöku í samningnum. Enn sem fyrr spunnust nokkrar umræður um að Íslendingar gerðu fyrirvara um sérstöðu Íslands sem vopnlausrar þjóðar.

Stakk Achilles, sem Hickerson hafði kallað inn á fundinn, „upp á því að líklega myndu þeir sem undirrituðu samninginn hver um sig halda smáræðu, og væri hugsanlegt, að hægt væri að koma hinu íslenzka orðalagi að í slíkri ræðu . Bjarni Benediktsson sagði að rétt væri að athuga málið betur. Sagði Hickerson að ráðgert væri að afhenda texta samningsins ásamt boði um þátttöku í Portúgal og Danmörku á morgun. Myndi utanríkisráðherra Íslands einnig verða afhent slíkt boð þann dag, jafnframt því, sem afrit myndi verða afhent utanríkisráðuneytinu í Reykjavík. Bjarni Benediktsson sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu, að slíkt boð yrði afhent, en hitt yrði hann að taka skýrt fram, að á þessu stigi málsins gætu ráðherrarnir hvorki persónulega né sem fulltrúar þjóðar sinnar sagt um það, hvort Ísland mundi gerast aðili.

Hickerson

sagðist að lokum vilja endurtaka það, að ekkert væri því til fyrirstöðu að upplýsingar væru gefnar íslenzku ríkisstjórninni allri og íslensku þjóðinni um það:

1. Að fullur skilningur hafi verið sýndur varðandi sérstöðu Íslands.

2. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði sér ekki að stofna her.

3. Að ekki kæmi til mála að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.

4. Að ef Ísland gengi að samningnum myndi vera ætlast til þess, að það myndi láta í té aðstöðu í ófriði.

5. Að Ísland myndi taka þátt í öllum ráðagerðum varðandi notkun slíkrar aðstöðu.

6. Að það myndi algjörlega vera á valdi Íslands sjálfs hvenær aðstaða yrði látin í té.

Afhenti Hickerson síðan eintak af hinu endanlega samningsuppkasti, sem gengið hafði verið frá daginn áður.“

17. mars

Lokafundur ferðarinnar til Washington var haldinn með Acheson utanríkisráðherra. Bjarni Benediktsson sagði að ekki væri „á þessu stigi málsins hægt að segja um, hvaða afstöðu íslenzka ríkisstjórnin mundi taka til málsins og yrði að athuga það mál nánar eftir heimkomu ráðherranna. Hins vegar væri ljóst að koma ráðherranna til Washington hefði mjög skýrt málið og auðveldað lausn þess“.

Ennfremur segir í fundargerð: „Tók Acheson það fram, að hann hefði ekkert á móti því að getið væri sérstaklega um afstöðu Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar í ræðu, sem flutt yrði við undirskrift samningins. Urðu síðan nokkrar umræður um það hvort nokkuð væri á móti því, að það væri berum orðum fram tekið að ráðherrarnir hefðu skýrt greinilega frá því, að Íslendingar vildu hvorki hafa erlendan her né herstöðvar á friðartímum og sagði Acheson þá, að hann teldi æskilegt að það yrði tekið fram.“ Sú afstaða var undirstrikuð í sameiginlegri fréttatilkynningu.

Inngangsorð að Atlantshafssáttmálanum

Aðilar samnings þessa lýsa yfir að nýju tryggð sinni við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir. Þeir eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinni, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu, er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti. Þeir leitast við að efla jafnvægi og velmegun á Norður-Atlantshafs-svæðinu. Þeir hafa ákveðið að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveizlu friðar og öryggis. Þeir hafa því orðið ásáttir um Norður-Atlantshafssamning þennan.