Kvikmyndastjarna Walt Disney-kvikmyndin um Pocahontas frá árinu 1995 byggir að hluta á raunverulegum atburðum.
Kvikmyndastjarna Walt Disney-kvikmyndin um Pocahontas frá árinu 1995 byggir að hluta á raunverulegum atburðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pocahontas í samnefndri Walt Disney-teiknimynd frá 1995 byggist að hluta á lífi indjánastúlku og raunverulegum atburðum um aldamótin 1600 í Norður-Ameríku.

Pocahontas í samnefndri Walt Disney-teiknimynd frá 1995 byggist að hluta á lífi indjánastúlku og raunverulegum atburðum um aldamótin 1600 í Norður-Ameríku. Pocahontas gat sér gott orð fyrir að stuðla að friði milli innfæddra og enskra landnema í Jamestown í Virginiu – og giftast loks einum þeirra, John Rolfe, 5. apríl árið 1614.

Hún var dóttir Powhatan, höfðingja samnefnds veldis, sem samanstóð af 28 ættbálkum í Tidewater-héraði. Pocahontas var aðeins tólf ára 1607 þegar hún sýndi mikla hetjudáð og bjargaði lífi Johns Smiths, fyrirliða landnemanna. Hann hafði verið tekinn til fanga og leiddur fyrir Powhatan þegar litla stúlkan fleygði sér yfir hann þar sem hann lá á steini og beið þess að höfuð sitt fyki. Powhatan sá aumur á Smith og sleppti honum lausum.

Í kjölfarið tókst góð vinátta með þeim Smith og mönnum hans og Pocahontas. Hún kom oft í heimsókn í landnemabyggðina og varð hvers manns hugljúfi, enda lífsglöð stúlka og áhugasöm um að læra ensku, sem kom nýbúunum að góðum notum.

Heimsóknir hennar lögðust þó af eftir að Smith hélt til Englands 1609.

Fjórum árum síðar tók landi hans, Sir Samuel Argall, Pocahontas í gíslingu í von um að geta bjargað nokkrum enskum föngum og náð aftur vopnum og tólum ýmiskonar, sem indjánarnir höfðu stolið. Þótt Potwhatan gæfi sjö Englendingum frelsi, hljóp snurða á þráðin þegar hann neitaði að skila vopnum og tólum og um leið fóru frekari samningaviðræður út um þúfur.

Rebecca Rolfe

Þar með höfðu Englendingarnir örlög Pocahontas í hendi sér. Þeir fluttu hana frá Jamestown til Henricus, annarrar enskrar landnemabyggðar, og munu hafa komið fram við hana af fyllstu kurteisi og virðingu. Hún snerist til kristni, var skírð Rebecca og játaðist John Rolfe, virtum og guðhræddum enskum landnema og tóbaksræktanda í Virginiu. Faðir hennar sem og sir Thomas Dale, ríkisstjóri Virginiu samþykktu ráðahaginn, sem talinn er hafa átt stóran þátt í að tryggja frið milli Englendinganna og indjánanna á meðan Powhatan lifði.

Vorið 1616 sigldi Pocahontas ásamt eiginmanni og eins árs syni þeirra, Thomasi, og hópi innfæddra með sir Dale til Englands. Þar tók aðallinn henni með kostum og kynjum og Virginia-félagið, sem hafði átt erfitt með að fá evrópska fjárfesta til að nema land í Jamestown notfærði sér vinsældir hennar til þess að sannfæra þá um að öllu væri óhætt í nýja heiminum.

Þótt ekki væsti um Pocahontas þoldi hún illa kalt loftslagið og veiktist af lungnasjúkdómi að því er talið er. Hún afréð að halda heim, en versnaði rétt eftir að skipið lét úr höfn og lést í Gravesend við suðurbakka árinnar Thames þar sem hún var jarðsett 21. mars 1617, aðeins tuttugu og tveggja ára.

Eftir lát hennar hélt Rolfe aftur til Virginiu, en sonur þeirra varð eftir í Englandi til ársins 1635. Þá fór hann til föður síns í Virginiu og gerðist farsæll tóbaksræktandi.