Ragnar Óskarsson
Ragnar Óskarsson
Ragnar Óskarsson skrifar um málflutning talsmanna Sjálfstæðisflokksins: "Hvernig skyldi hinn almenni sjálfstæðismaður taka þessari ruddalegu og fáránlegu ásökun og hvernig skyldi fólkið í landinu taka henni?"

NÚ ER landsfundi Sjálfstæðisflokksins lokið. Miklar skrautsýningar voru þar settar á svið en þar á milli sendu „samherjarnir“ illvígar glósur sín á milli. Ég ætla hér ekki að gera þetta að umtalsefni, heldur eitt atriði sem mér finnst svo ótrúlegt að ég taldi að það gæti ekki gerst, jafnvel ekki innan Sjálfstæðisflokksins.

Þetta gerðist þannig: Valdir menn innan flokksins voru fyrir skömmu fengnir til að meta ástæður efnahagshrunsins sem nú er að ganga með fullum þunga yfir þjóðina. Þessir mætu menn lögðust yfir verkefnið, reiknuðu fram og til baka og komust að niðurstöðu. Niðurstaðan var: „Sjálfstæðisflokkurinn brást ekki, heldur fólkið.“ Flokkurinn er því hvítþveginn og ber samkvæmt þessu enga ábyrgð, heldur fólkið sem styður flokkinn eða jafnvel fólkið í landinu almennt.

Hvernig skyldi hinn almenni sjálfstæðismaður taka þessari ruddalegu og fáránlegu ásökun og hvernig skyldi fólkið í landinu taka henni? Flokkur sem með þessum hætti fríar sig ábyrgð og kemur henni yfir á þá sem síst skyldi, sýnir ótrúlega mikinn hroka í garð félaga sinna og almennings alls. Auðvitað á hinn almenni sjálfstæðismaður ekki að láta slíkt og þvílíkt yfir sig ganga, hvað þá almenningur í landinu. Auðvitað ber Sjálfstæðisflokkurinn og forysta hans fyrst og fremst ábyrgð á efnahagshruninu og afleiðingum þess. Flokknum hefur í 18 ár verið treyst fyrir fjöreggi þjóðarinnar og nú hefur hann skilað af sér með ömurlegri hætti en um getur í samanlagðri sögu þjóðarinnar. Og við þessi skil varpar hann ábyrgðinni yfir á fólkið. Þvílík endemi, hvílík firra, hvílík afneitun og hvílíkur hroki. Fólkið sem fær þessar kveðjur frá Sjálfstæðisflokknum hlýtur að hugsa sinn gang og spyrja sjálft sig um sekt sína og ábyrgð. Þeir sem finna hjá sér sekt og ábyrgð geta auðvitað haldið áfram að styðja og styrkja flokkinn.

Mér finnst hins vegar að hinir fjölmörgu sem hafa ranglega verið ásakaðir og finna ekki til sektar eigi skilyrðislaust að snúa baki við Sjálfstæðisflokknum og lofa sér því að styðja hann aldrei framar.

Höfundur er framhaldsskólakennari og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum

Höf.: Ragnar Óskarsson