Sigurbjörn Einarsson
Sigurbjörn Einarsson
16. Sú mannleg ást, sem horfir þannig á annan og sér hann með þeim augum, að hann verður fallegri en hann „er“, hún er endurskin þeirrar elsku, sem gefur okkur lífið og sér mynd sína í hverjum manni, á bak við allt.

16.

Sú mannleg ást, sem horfir þannig á annan og sér hann með þeim augum, að hann verður fallegri en hann „er“, hún er endurskin þeirrar elsku, sem gefur okkur lífið og sér mynd sína í hverjum manni, á bak við allt.

Þetta endurskin má einnig sjá í öðrum móðuraugum en hinum mannlegu.

Sælan og uggsemin, árveknin og umhyggjan, sem ég sé hjá vængjuðum og ferfættum mömmum, og friðurinn og hamingjan, sem lýsir frá þeim, þegar þær eru óhultar í þjónustu sinni við móðurástina, lífið, skaparann, þetta eru líka geislar frá þeim augum, sem sjá Paradís sína í gegnum allt, bæði fyrir handan upphaf sögunnar og endalok hennar.

Sú „blinda“ ást, sem hér er um að ræða, minnir á hvernig Guð sér. Sá Adam og sú Eva, sem byrja í Paradís og endurspegla mig og þig og alla menn, eiga að minna á þetta. Myndin af þeim gefur til kynna, hvað eilíf ástaraugu Guðs sjá fyrir sér, þegar við komum í heiminn. Það var innblásin vissa um þetta, sem stýrði hugsun þess manns, sem orti þann lofsöng um sköpunarverkið, sem var komið fyrir fremst í Biblíunni, þegar ritum hennar var skipað niður.

Sú mynd, sem þar er dregin upp, segir: Það var og er gleði eilífrar elsku, sem horfir við manninum og umvefur hann frá fæðingarstundu, já, frá upphafi heimsins og um eilíf ár.

Það eru eilífu móðuraugun og föðuraugun, sem horfa svona á okkur, margfalt bjartari og hlýrri af elsku en öll önnur ástaraugu. Þau horfa þannig, að við erum falleg í þeim augum, ekkert annað en björt von, fagur draumur, heilagt fyrirheit. Rétt eins og við vorum, þú og ég, röddin okkar og bröltið og allt, þegar mamma heyrði og horfði forðum, áður en sagan okkar hófst.

Guð og faðir lífsins ætlast til þess, að hvert barn fái að skynja sig fyrst í þeim mennskum augum, sem sjá að það er fallegt, hvernig sem það kynni að líta út á einhvern ástlausan mælikvarða.

Barn, sem fer á mis við þetta, fær áverka, sem erfitt verður að græða.

Við þurfum þetta baksvið, þurfum að fá að dveljast í þessari Paradís til þess að geta farið af stað með tiltrú til lífsins, nauðsynlegu trausti á tilverunni.

Pistlar sr. Sigurbjörns Einarssonar, sem Morgunblaðið birti á sunnudögum á síðasta ári, vöktu mikla ánægju meðal lesenda. Um það samdist, milli sr. Sigurbjörns og Morgunblaðsins, að hann héldi áfram þessum skrifum og hafði hann gengið frá nýjum skammti áður en hann lést.