Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir skrifar um efnahagsmál: "Við verðum að horfast í augu við að það þarf að stokka spilin uppá nýtt og endurhugsa alla þjónustu frá grunni,"

ALLIR stjórnmálaflokkar að undanförnu hafa ályktað um mikilvægi þess að standa vörð um heimilin og atvinnulífið, en aðgerða er þörf. Það dugar ekkert minna en heildar sáttargjörð í samfélaginu um hvernig við ætlum að láta samfélagið reka sig.

Í bæjarstjórn Akureyrar hafa oddvitar allra flokka setið saman við undirbúning og gerð þriggja ára áætlunar. Þar er hverjum steini velt við og markmiðið er að sú góða grunnþjónusta sem hefur verið í boði verði sem minnst skert. Því markmiði verður ekki náð á einfaldan hátt og ein leið sem varpað var fram á fundi með á sjöunda tug stjórnenda bæjarfélagsins í vikunni gengur út á að allir starfsmenn taki sér frí án launa einn dag í mánuði og þannig væri hugsanlega hægt að ná niður launakostnaði um 5%. Starfsemi Akureyrarbæjar er víðfeðm og flókin þar sem að bærinn hefur með höndum mörg velferðarverkefni frá ríkinu sem kalla á sólarhringsþjónustu og mikla umönnun skjólstæðinga. Þetta er því ekki einfalt verkefni að útfæra alls staðar.

Þessi hugmynd er núna til skoðunar og umræðu hjá öllum starfsmönnum sveitarfélagsins og í lok apríl verður sest yfir þetta aftur og fleiri hugmyndir, tillögur að ráðdeild skoðaðar.

Við horfum einfaldlega fram á það sem þjóð að opinber þjónusta var byggð upp á góðæristímum en þarf í dag að mæta öðrum tímum og gerbreyttri fjárhagsstöðu. Við verðum að horfast í augu við að það þarf að stokka spilin uppá nýtt og endurhugsa alla þjónustu frá grunni, hverju getum við verið án, og hverju getum við mögulega breytt – án mikils sársauka.

Að mínu mati verður það gerast með því að verja störf og verja þekkingu, en til þess að svo megi takast verða allir að leggjast á eitt. Þessari hugmynd er varpað inn í þær umræður og undirbúning að nauðsynlegri samfélagssátt sem að mínu mati er brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um þessar mundir.

Höfundur er bæjarstjóri á Akureyri.

Höf.: Sigrún Björk Jakobsdóttir