Frá Erlingi Garðari Jónassyni: "HINN 16. febrúar birtist grein í Morgunblaðinu eftir Árna Mathiesen, fv. ráðherra, sem vert er að hafa að leiðar ljósi á framtíðarbrautum þeirrar viðreisnar sem framundan er."

HINN 16. febrúar birtist grein í Morgunblaðinu eftir Árna Mathiesen, fv. ráðherra, sem vert er að hafa að leiðar ljósi á framtíðarbrautum þeirrar viðreisnar sem framundan er.

Í greininni eru á mjög skýran og heiðarlegan hátt gerð skil þeim mistökum sem voru gerð á nýliðnum árum og þau staðsett og greind. Þá er og sett fram krafa um skýra framtíðarstefnu og hugarfarsbreytingu.

Við lestur greinarinnar finnst mér Árni vera að leggja sitt af mörkum til að landsmenn geti gengið sameinaðir að því stóra verkefni sem endurreisn íslenska lýðveldisins er á grundvelli raunverulegrar þjóðarsáttar. Hafi hann þökk fyrir.

Það er einmitt krafa allra landsmanna sem lifa við raunverulega jarðtengingu við fósturjörðina að stjórnmálamenn leggi af þá innantómu þrætubókarlist sem einkennt hefur íslenska stjórnmálaumræðu allan lýðveldistímann og einhendi sér í raunverulega vitræna rökræðu um endurreisn og styrkingu varna í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Nýliðna „núið“ er á enda runnið enda einkenni þess fráhvarf frá mjúkum mannlegum gildum, friðhelgi einkalífsins, almennum tryggingaréttindum og jöfnuði milli landsmanna. Tímabilið var tími hinna hörðu gilda þar sem afbökuð og heimatilbúin lögmál markaðs- og peningahyggju eru voru allsráðandi.

Ef unga fólkið á morgun yrði spurt hvað það væri sem skipti þjóðina mestu máli þegar til framtíðar væri horft, þá held ég að svarið yrði að í landinu fái þrifist réttlátt samfélag með blómlegu atvinnulífi í sátt við náttúru landsins.

Skáldið frá Kötlum sem hafði hugleitt þessi mál landsins komst að sömu niðurstöðu:

Þannig mælti mitt land. –

Og ég reis upp úr rúst þeirrar ráð lausu borgar, er féll.

Og hin dagelska sól skein á dauðblakka þúst og brá dýrðlegum roða yfir fell.

Og ég gekk upp á hæðina hljóður og sæll, mér var horfin öll iðrun og sorg,

og sem herra míns lífs, en ei hégómans þræll, lagði ég hornstein að ann arri borg.

Fremsta krafa landsmanna er auðvitað að auka hag sinn – efla menningu sína – skapa börnum sínum þau skilyrði til hugar og handar að sambærilegt sé við það besta í samfélagi þjóða í nútíð og framtíð. En umfram allt viljum við vera Íslendingar og taka þátt í íslenskri sjálfstæðisbaráttu – baráttunni sem aldrei lýkur. Við viljum taka þátt í að brjóta hverja þá ógnaröldu er á þjóð okkar kann að skella – eins og harðar bergnasir okkar sæbröttu strandar brjóta þungar og svalar öldur Atlantshafsins. Við verðum líka að efla samkennd og réttlæti með þjóðinni, milli byggða og milli manna – og þjóða.

En eins og fram kemur í lokaerindi skáldsins hefur okkar fallega gjöfula land með fallvötn, jarðhita, gjöful fiskimið og gróðurmold hvíslað að honum sínar kröfur og bendir okkur á leiðir:

Og nú flyt ég til þín þessi alvöruorð,

Sem mitt ættarland hvíslaði að mér.

Ekki einungis bindur ósk þess við borð,

lífið allt krefst hins sama af þér.

Hvað er ég? Hvað ert þú? Hvað er hún? Hvað er hann?

Sama hönd, sama önd, sama blóð.

Að slá skjaldborg um réttlætið, maður við mann, það er menningin, íslenska þjóð!

(Jóhannes úr Kötlum.)

ERLING GARÐAR JÓNASSON,

tæknifræðingur, fv. rafveitustjóri.

Frá Erlingi Garðari Jónassyni

Höf.: Erlingi Garðari Jónassyni