Eftir Orra Pál Ormarsson
orri@mbl.is
Gunnar Nelson, tvítugur íslenskur bardagalistamaður, er óðum að skapa sér nafn í heimi brasilísks jiu-jitsu í Bandaríkjunum og um liðna helgi sló hann í gegn á sterku móti í New York, Pan jiu-jitsu-meistaramótinu 2009. Ekki nóg með að hann legði hinn nafnkunna Clark Gracie, sem er úr innsta hring Gracie-fjölskyldunnar sem þróaði brasilískt jiu-jitsu, í fyrstu glímunni heldur sigraði hann fjóra næstu andstæðinga sína líka, þeirra á meðal silfurverðlaunahafann frá síðasta heimsmeistaramóti, Bruno Alves, á hengingartaki í úrslitaglímunni. Þar með hreppti Gunnar gullverðlaunin í sínum flokki.
Árangur af þessu tagi er ekki hristur fram úr erminni eins og Árni Torfason ljósmyndari fékk að kynnast þegar hann fylgdi Gunnari eftir í lífi og starfi fyrir skemmstu. „Ég dáist að elju hans og aga,“ segir Árni.
Ýmsir gætu haldið að lífið í Stóra eplinu sé sveipað töfrum en svo er ekki. „Gunnar færir miklar fórnir. Hann býr fjarri fjölskyldu og vinum og gerir nánast ekkert annað en æfa, borða og sofa. Mataræðið er mjög strangt – ekkert pláss fyrir áfengi og franskar – og Gunnar borðar alltaf á sama veitingastaðnum og nær alltaf sömu réttina,“ segir Árni. „Ég held hann hafi verið mjög feginn að fá mig í heimsókn. Þetta er einmanalegt líf en örugglega þess virði þegar menn hafa sett sér skýr markmið. Ekki spillir heldur fyrir að ná árangri eins og Gunnar gerði um síðustu helgi.“
Hafa tröllatrú á Gunnari
Gunnar og Árni þekktust ekki áður en ljósmyndarinn kveðst hafa veitt fréttum af afrekum hans athygli á undanförnum misserum. „Ég kannaði málið og komst að því að í vetur leggur hann stund á jiu-jitsu við hina virtu Renzo Gracie-akademíu í New York og datt í hug að líf hans gæti verið efni í myndaseríu,“ segir Árni sem tók strax þann pól í hæðina að sýna Gunnar í víðara samhengi en bara á æfingum og í keppni. „Mig langaði að sýna fólki hvað hann leggur á sig.“Að sögn Árna eru margir kallaðir en fáir útvaldir hjá Renzo Gracie-akademíunni. Þar á bæ hafa menn hins vegar tröllatrú á Gunnari en honum var á síðasta ári boðið að æfa þar án endurgjalds. Þess má geta að þjálfari Gunnars, Renzo Gracie sjálfur, er frændi Clarks Gracie sem Gunnar lagði um liðna helgi.
Gunnar hefur sett stefnuna á Ultimate fighting-mótið vestra (UFC). Það er keppni milli manna sem æfa hinar ýmsu bardagalistir, svo sem hnefaleika, karate, júdó, tae kwon do og glímu. Árni segir málið ekki snúast um hvort heldur hvenær hann komist þangað inn. „Hann hefur náð mjög langt miðað við aldur og er rétt að byrja. Við eigum eftir að heyra meira um Gunnar Nelson í framtíðinni.“
Það hefði ekki farið vel
Árni ber Gunnari vel söguna. „Sumir gætu haldið að bardagamaður af þessu tagi væri uppstökkur og óútreiknanlegur en það er öðru nær. Gunnar er afskaplega jarðbundinn ungur maður. Hvers manns hugljúfi. Það eina sem skilur hann frá öðrum venjulegum íslenskum drengjum er að hann getur unnið hvern sem er í bardagaíþróttum. Þá er ég ekki bara að tala um jiu-jitsu.“Árni dáist að virðingunni sem ríkir innan íþróttarinnar, bæði gagnvart þjálfurum og andstæðingum. „Menn takast vel á meðan á glímunni stendur en eftir það eru allir vinir. Það eru engin eftirmál.“
Ekki er hægt að sleppa Árna Torfasyni öðruvísi en að spyrja hann hvort hann hafi reynt sig við Gunnar Nelson. Hann horfir eilítið undrandi á mig. Síðan brosir hann kumpánlega. „Nei ég lét það alveg vera. Það hefði ekki farið vel!“
Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu Árna, torfason.is.
Vogarafl umfram styrk
Brasilískt jiu-jitsu er íþrótt sem er best lýst sem gólfglímu. Lögð er áhersla á vogarafl umfram styrk en brasilískt jiu-jitsu er hannað fyrir veikari einstakling á móti stærri og sterkari. Það hentar því fólki af öllum stærðum og gerðum. Markmiðið er að ná yfirburðarstöðu gagnvart andstæðingnum og fá hann til að gefast upp með lás, svæfingu eða einhvers konar taki. Yfirburðarstaða telst þá einhvers konar staða þar sem andstæðingurinn getur ekki meitt mann en maður getur meitt andstæðinginn eða fengið hann á einhvern hátt til að gefast upp.Brasilískt jiu-jitsu á uppruna sinn í japönsku Kodokan júdói en hefur verið í þróun hjá Gracie-fjölskyldunni í Brasilíu bróðurpartinn af 20. öldinni. Stofnandi þess telst vera Hélio Gracie sem lærði af japönskum júdómeistara á 3. áratug síðustu aldar ásamt bræðrum sínum.
Brasilískt jiu-jitsu fór að njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og vinsælda á 10. áratugnum. Royce Gracie vann UFC-keppnina (Ultimate fighting championship) í fyrsta skiptið sem hún var haldin árið 1993 og svo aftur 1994 og 1996.