Í sínu fínasta pússi Charlize Theron á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þar sem The Burning Plain keppti til verðlauna.
Í sínu fínasta pússi Charlize Theron á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum þar sem The Burning Plain keppti til verðlauna. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur vjon@mbl.

Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur

vjon@mbl.is

Kvikmyndaleikkonunni Charlize Theron fannst blaðamaður The Times fráleitt fyndinn þegar hann – svona rétt til að brjóta ísinn, sagði að gárungarnir hermdu að í raun og veru stæli hún bitastæðustu hlutverkunum frá ófríðu konunum. „Ég trúi ekki að þú hafir sagt þetta,“ býsnaðist Theron. „Ég ætti þegar í stað að sparka þér út úr herberginu. Kate Winslet! Fögur kona! Myndir þú segja svona við hana? Cate Blanchett! Fögur kona! Myndir þú segja svona við hana? Kim Basinger...?!“ Tilefni viðtalsins var nýjasta mynd Theron, The Burning Plain , sem frumsýnd var í Bretlandi fyrir skemmstu og væntanleg er í Laugarásbíó í haust.

Þótt Charlize Theron sé tvímælalaust með fegurstu konum heims þykir eftirtektarvert að hún velur sér síður hlutverk þar sem fegurðin fær best notið sín. Þvert á móti þurftu bæði hún sjálf og förðunarmeistararnir að leggja mikið á sig til að gera hana jafn óaðlaðandi og subbulega útlits og raðmorðingjann, Aileen Wuornos, sem hún lék í Monster árið 2003. Fyrir hlutverkið bætti Theron á sig 14 kílóum, fórnaði þykka, ljósa hárinu fyrir þunnar, litaðar, gular tjásur, einnig var silkimjúk húðin gerð bólugrafin og örótt, brúnar augnlinsur látnar hylja himinbláu augun og falskar geiflur hvítar og jafnar tennurnar. En Theron hafði líka erindi sem erfiði, hún sópaði að sér verðlaunum og viðurkenningum fyrir afburða túlkun á skrímslinu alræmda, Aileen Wuornos, m.a. hampaði hún Óskarnum sem besta leikkonan í aðalhlutverki það árið.

Andlit skrímslis og Dior

„Hvað heldur þú að hægt sé að segja margar stórkostlegar sögur í Dior-dressi?“ hélt hún áfram í fyrrnefndu viðtali og spurði blaðamann með þjósti hvort hann héldi að hún gæti einungis túlkað eina gerð kvenna vegna þess að hún hefði verið andlit Dior-ilmvatnsins J'adore. Blaðamaðurinn, karlmaður, gerði því skóna að vegna fegurðar ætti Theron erfitt með að skilgreina sjálfa sig. Þegar hann spurði hvort fegurðin væri vandamál fyrir hana svaraði hún hins vegar neitandi en sagði að svo virtist vera hvað blaðamenn áhrærði.

Lái Theron hver sem vill að vera einstaka sinnum viðskotaill við blaðamenn, kannski er erfiðara en margur hyggur að þurfa sífellt að svara fyrir óviðráðanlega fegurð sína – og fortíð. Allar götur frá því hún öðlaðist frægð hefur þess verið getið í viðtölum að fimmtán ára horfði hún uppá móður sína skjóta föður sinn til bana. Og jafnan er leitast við að finna samsvörun við þá lífsreynslu og túlkun hennar á hinum ýmsu persónum. Óskarinn var til að mynda sagður hjálpa henni til að leggja fortíðardraugana til hinstu hvílu.

Harmleikurinn

Charlize Theron fæddist í Benoni, nálægt Jóhannesarborg í Suður-Afríku árið 1975. Hún er einkabarn foreldra sinna, sem báðir voru innfæddir, móðir hennar af þýskum ættum og faðir hennar franskur að uppruna. „Ég hélt að ég myndi búa í sama húsinu til dauðadags,“ sagði Theron árið 2004. „Ég talaði bara afrísku og tala ennþá afrísku við mömmu. Eina enskan sem ég lærði var hjá ballettkennara, sem hafði unnið við Konunglega listaháskólann í London, en ég byrjaði að sækja tíma hjá henni þegar ég var fjögurra ár [...] Lífið var mjög einfalt. En svo breyttist allt.“

Það var árið 1991, sama árið og Aileen Wuornos, vændiskona í Flórída, var handtekin eftir að hafa skotið sjö viðskiptavini sína til bana. Kvöld nokkurt þegar Charles Theron, vegagerðarverktaki og ofbeldisfullur alkóhólisti, kom drukkinn heim varð honum svo uppsigað við Gerdu, konu sína, að hann dró fram byssu og hótaði að drepa hana og dóttur þeirra. Hann réðst á Gerdu, en hún náði byssunni og skaut hann. Hún var ekki sótt til saka, enda byggði lögreglan á vitnisburði Charlize og taldi augljóst að um sjálfsvörn hefði verið að ræða.

Í nýrri bók Chris Karstens, blaðamanns og landa þeirra mæðgna, Killer Women – Fatal South African, Females , kemur fram að Gerda hafi einnig sært bróður Charles í átökunum. Vitnisburður Charlize er rakinn og jafnframt talað við föðurfjölskyldu hennar, sem kveður Charles hafa verið góðan eiginmann, fyrirvinnu og föður, sem elskaði dóttur sína meira en allt annað í heiminum. „Theron-fjölskyldan var auðvitað mjög miður sín yfir þeirri mynd sem dregin var upp af Charles, en samfara vaxandi frægð Charlize hafði enginn áhuga á hennar hlið sögunnar vegna hræðslu við að styggja leikkonuna,“ sagði Karsten í viðtali í tilefni af útkomu bókarinnar.

Þótt Charlize Theron sé sögð fokreið hefur hún engu púðri eytt á Karsten eða yfirlýsingar föðursystur sinnar í bókinni þar sem hún dregur í efa að Gerda hafi drepið Charles í sjálfsvörn, hann hafi enda hvorki verið ofbeldishneigður né fyllibytta.

Á faraldsfæti

Þær mæðgur eru afar hændar hvor að annarri og hafa staðið saman gegnum súrt og sætt. Framan af reyndi Gerda að halda fyrirtæki manns síns gangandi, en átti, að sögn Charlize, erfitt uppdráttar vegna óprúttinna karla, sem töldu konu ekki hafa hundsvit á fyrirtækjarekstri og reyndu að sölsa fyrirtækið undir sig. Loks gafst hún upp og fluttist í nágrenni við dóttur sína í Los Angeles árið 2000.

Örlög Charlize Theron voru þó ráðin ári eftir harmleikinn þegar útsendari fyrirsætuskrifstofu kom auga á hana á götu í Jóhannesarborg. Fegurðin kom henni sannarlega til góða því hann bauð henni fyrirsætustarf, sem fljótlega leiddi hana til Ítalíu, New York og loks Los Angeles. Móðir hennar hvatti hana með ráðum og dáð, enda sagði hún takmarkaða möguleika í Suður-Afríku, þar væru bara vondar minningar.

Þótt Theron vegnaði vel sem fyrirsæta, fannst henni starfið ekki eiga alls kostar við sig og hélt til New York þar sem hún kappkostaði að læra ensku með því að horfa á kvikmyndir og æfa framburð. Hún var jafnframt í ballettnámi áður en hnémeiðsli bundu enda á ballerínudrauminn. Þá tók hún stefnuna á Los Angeles, þar sem hún hugðist freista gæfunnar sem leikkona. „Ég hef komist áfram á aganum. Til að leika verður maður að vera viðkvæmur. En maður verður líka að vera harður af sér til að lifa af í Hollywood,“ sagði Theron í viðtali í The Sunday Times í fyrra.

Í byrjun var hún staurblönk og þurfti að gera sér margt og misjafnt að góðu. Ömurleg vegahótel voru hlutskipti hennar og oft stal hún sér til matar af veitingahúsum. En svo snerist gæfan henni í hag. Ævintýrið byrjaði í banka, en þangað fór hún til að skipta 500 dollara ávísun frá móður sinni árið 1996. Þegar gjaldkerinn múðraði og neitaði að taka við ávísuninni reiddist Theron og gerði uppistand, sem ekki fór framhjá viðstöddum, þ.ám. umboðsmanni nokkrum. Hann gaf henni nafnspjaldið sitt og fyrr en varði hafði hún landað smáhlutverki í löggumyndinni Two Days in the Valley .

Síðan hefur leiðin aðeins legið upp á við, hún fékk æ veigameiri hlutverk, t.d. í The Devil's Advocate , Mighty Joe Young og The Cider House Rules á tíunda áratugnum.

Friðarboði og framleiðandi

Það var þó ekki fyrr en í Monster , sem Theron sló rækilega í gegn. Hinn þekkti, bandaríski, kvikmyndagagnrýnandi Roger Ebert tók svo stórt til orða að frammistaða hennar væri ein sú stórfenglegasta í kvikmyndasögunni. Sjálf hefur Charlize Theron sagt að Skrímslið hafi markað kaflaskil í lífi sínu. Enda hefur hún getað valið úr hlutverkum síðan. Þótt myndir á borð við The Life and Death of Peter Sellers , North Country og In The Valley of Elah hafi aukið hróður hennar voru Trapped , Head in the Clouds og Æon Flux ekkert sérstaklega gæfulegar að öðru leyti en því að við gerð þeirrar fyrstnefndu kynntist hún kærasta sínum til sjö ára, Íranum Stuart Townsend, sem einnig lék í hinum tveimur. Hann hefur síðan spreytt sig sem handritshöfundur og leikstjóri, m.a. samdi hann handritið og leikstýrði kærustu sinni í Battle of Seattle árið 2008 og þótti standa sig með ágætum.

Þau skötuhjúin búa í Los Angeles ásamt fjórum hundum, en hyggjast ekki ganga í hjónaband fyrr en hjónabönd samkynhneigðra verða viðurkennd. Áþekk réttlætismál eru Theron hugleikin og hún hefur heldur ekki gleymt rótum sínum. Fyrir nokkrum árum stofnaði hún verkefnið Africa Outreach í samvinnu við EIF ( Entertainment Industry Foundation ) til hjálpar bágstöddum í Suður-Afríku og nýverið skipaði Ban Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hana opinberan friðarboða í landinu. Auk þessa hefur Theron smátt og smátt haslað sér völl sem framleiðandi og byggt í því skyni upp eigið fyrirtæki, Denver and Delilah Films, og komið sem slíkur m.a. að gerð Monster , Sleepwalking og nú síðast The Burning Plain .

Hlutverk hennar í lífi og leik eru því orðin bæði misjöfn og mörg, flest þó að eigin vali upp á síðkastið. Charlize Theron hefur speglað ótal andlit; ljót, fögur sem og ofur hversdagsleg. „Að leika er ekki spurning um glamúr, heldur löngun til að segja góða sögu [...] leikari þarf að vera fyrir leikstjórann eins og hreinn strigi er fyrir listmálarann,“ sagði hún fyrir réttu ári þegar Valley of Elah var frumsýnd. Í henni lék hún nýliða í löggunni, sem leikstjórinn virtist ekki hafa gefið mikið fyrir útlitið á – en var vitaskuld útpælt af hans hálfu.

Margbrotnar persónur

Kvikmyndin The Burning Plain, sem Guillermo Arriaga leikstýrði og skrifaði handritið að, er um ólíkt fólk á mismunandi stöðum í fortíð og nútíð og samtvinnuð örlög þeirra. Frásagnarmátinn er kunnuglegur úr fyrri myndum hans sem handritshöfundar, Amores Perros , Babel og 21 Grams, en þær fengu yfirleitt mjög góða dóma.

Í The Burning Plain virðist húsmóðir (Kim Basinger) í Nýju-Mexíkó, sem ferst í eldsvoða ásamt elskhuga sínum, til að mynda alls ótengd Sylviu (Charlize Theron), taugaveiklaðri og óhamingjusamri konu í Oregon. Annað kemur þó á daginn og smám saman fléttast sögurnar og fleiri hliðarsögur saman í tíma og rúmi.

Sylvia er kynlífsfíkill, sem skaðar sjálfa sig með því að skera sig til blóðs, og leggst með nánast hvaða karli sem er. Nafnið, The Burning P(l)ain , virðist vísa í sjálfsköðun eins og þá sem Sylvia er ofurseld. Glamúrinn er víðsfjarri bláköldum veruleikanum, firringunni, angistinni og dauðanum.

Sumum finnst það vera í anda Charlize Theron að leika margbrotna manneskju eins og Sylviu, en hún sóttist eftir að fá hlutverkið og barðist fyrir að handrit Arriagas yrði að kvikmynd. Raunar leikur Theron í annarri mynd, sem væntanleg er í kvikmyndahús á árinu, The Road , sem gerð er eftir sögu Cormacs McCartys, og fjallar um ferðalag feðga eftir að hrikalegar hörmungar hafa riðið yfir heimsbyggðina. Þar er Theron þó aðeins draumur föðurins, sem leikinn er af Viggo Mortensen.

Næstu hlutverk hennar virðast áhugaverðari en draumadísarinnar, en hún mun leika Gerdu, eiginkonu Einars Wegeners/Lili Elbe (1882-1931), fyrstu manneskjunnar sem vitað er til að hafi gengist undir kynskiptaaðgerð, í The Danish Girl . Mótleikkona hennar verður Nicole Kidman sem Einar/Lili. Þá er í bígerð að hún leiki á móti Tom Cruise í The Tourist , endurgerð frönsku spennumyndarinnar Anthony Zimmer frá 2005.

Í hnotskurn
» Charlize Theron fæddist 7. ágúst 1975 í Bononi, nálægt Jóhannesarborg í Suður-Afríku.
» Hún starfaði sem fyrirsæta á Ítalíu og New York frá því hún var 16 til 19 ára.
» Nam ballet í Joffrey Ballet School í New York þar til hún meiddist á hné.
» Fyrsta kvikmyndahlutverkið eftir að hún fluttist til Los Angeles var smáhlutverk 1995 í Children of Corn III: Urban Harvest.
» Óskarsverðlaun sem besta kvenleikkona í aðalhlutverki fyrir Monster 2003. Tilnefnd til sömu verðlauna fyrir North Country 2005.
» Hún fékk bandarískan ríkisborgararétt 2007.