Stefán Rafn Sigurbjörnsson
Stefán Rafn Sigurbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sindri Snær Einarsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson velta vöngum um komandi sumar: "Samkvæmt könnun námsmannahreyfinga stúdenta voru um 75% stúdenta víðast hvar mjög svartsýn á að næla sér í sumarstarf."

NÆSTKOMANDI sumar mun einkennast af myrkri, depurð og volæði í garð atvinnulausra, fjölmörg fyrirtæki hafa lagt upp laupana og atvinnulausir eru að nálgast annan tug þúsunda. Þegar sumarið gengur í garð munu nemendur af öllum stigum skólasamfélagsins leggjast í atvinnuleit. Mun þetta valda enn meiri atvinnuleysi og skapa erfitt ástand fyrir samfélagið, atvinnuleysi mun ná sögulegu hámarki.

Nú nálgast sumarið óðfluga og störfum um allt land mun fjölga, en þó ekkert í líkingu við atvinnuframboð seinni ára og því ekki nærri nógu mörg til að taka á móti hinum gífurlega fjölda nemenda þegar vora tekur. Samkvæmt könnun námsmannahreyfinga stúdenta voru um 75% stúdenta víðast hvar mjög svartsýn á að næla sér í sumarstarf. Þetta fær framhaldsskólanemendur til að velta fyrir sér möguleikum okkar á sumarstörfum, því að þar sem framhaldsskólanemi sækir um er hann að öllum líkindum að keppa við háskólanema um starfið.

Verið er að vinna sambærilega könnun og gerð var í háskólanum meðal framhaldsskólanema til að kanna viðhorf nemenda hvað varðar möguleika þeirra á sumarstarfi. Samband íslenskra framhaldsskólanema ásamt menntamálaráðuneyti, Reykjavíkurborg og fleiri aðilum vinnur ötult starf til að sporna við afleiðingum sem atvinnuleysi hefur á bæði framgöngu og líðan nemenda.

Það sem haft er að leiðarljósi er að skapa sem flest störf og halda ungmennum sem virkustum samfélagsþegnum, ungt fólk er í sérstökum áhættuhópi þegar kemur að iðjuleysi og einangrun úr samfélaginu, það mun bitna gífurlega á samfélaginu ef fjöldi ungmenna á landsvísu flosnar úr vinnu og námi sem skilar sér í óskilvirkum kynslóðum að áratug liðnum líkt og Finnar eru að upplifa núna eftir kreppuna '91. Vinna eða annars konar samfélagsþátttaka verður að virka sem forvörn gegn svokölluðum „týndum kynslóðum“.

Með bjartsýni, iðjusemi og áhuga allra að vopni mun þetta ekki verða okkur að falli.

Höfundar eru formaður og varaformaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Höf.: Sindri Snær Einarsson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson velta vöngum um komandi sumar