Í TVEIMUR fyrri greinum lýsti undirritaður fjölbreyttri starfsemi Landspítalans, gömlu og lélegu húsnæði og miklum viðhaldskostnaði bygginganna. Þó sjúklingar og aðstandendur þeirra virðist ekki kvarta mikið undan aðbúnaði í þessum áratugagömlu húsum er það starfsmönnum Landspítalans hjartans mál að vinna að bættri aðstöðu fyrir sjúklingana og starfsemina. Hnykkja verður á því að nýtt húsnæði fyrir hinar fjölmörgu deildir Landspítalans er nauðsyn en ekki ofrausn. Landspítalinn er spítali allra landsmanna, þjóðarsjúkrahús, sem er bakhjarl allra annarra heilbrigðisstofnana á landinu og þarf að geta boðið upp á alla þá heilbrigðisþjónustu sem landsmenn hafa þörf fyrir og starfsmennirnir geta veitt. Þess vegna koma alvarleg húsnæðisvandamál Landspítalans öllum landsmönnum við.
Hvar á að byggja?
Árum saman hefur verið fjallað um nýbyggingar fyrir Landspítalann. Margvíslegar áætlanir hafa verið gerðar og virtir erlendir sérfræðingar kallaðir til aðstoðar. Auðvitað hefur stundum hverjum sýnst sitt um fyrirkomulag nýbygginga og hvar þær eigi að rísa. Niðurstaða síðustu nefndarinnar, sem um málið fjallaði fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins, er sú að uppbygging við Hringbraut sé hagkvæmasti kosturinn. Rökin fyrir því eru meðal annars þau að þar verður kostnaðurinn minnstur, þar verður tengingin við Háskóla Íslands best, þar verður aðgengi sjúklinga og starfsmanna best og þar eru mestir möguleikar til frekari uppbyggingar í framtíðinni. Þar að auki má nýta áfram ýmsar af þeim byggingum sem nú standa ofan Hringbrautar, svo sem nýja barnaspítalann og geðdeildarbygginguna. Samkvæmt þessari tillögu hefur verið unnið að skipulagi og hönnun nýrrar spítalabyggingar neðan gömlu Hringbrautarinnar síðustu átta árin. Þar verður öll starfsemi Landspítalans sameinuð á einum stað, en hún fer nú fram í um það bil 100 húsum á fleiri en 10 stöðum í borginni. Ríkisstjórn Íslands heimilaði í byrjun árs 2005 að hefja hönnun nýja spítalans og ákvað síðar á því ári að verja 18 milljörðum króna (hinum svonefndu „símapeningum“) til byggingar nýja spítalans. Allur undirbúningur og upphaf framkvæmda voru því fyllilega fjármögnuð. Framkvæmdir áttu að hefjast árið 2010 og ljúka árið 2017.
Hvað kostar að byggja ekki?
Upphaflegu rökin fyrir sameiningu spítalanna voru meðal annars þau að rekstur sameinaðs sjúkrahúss yrði hagkvæmari en rekstur þriggja aðskilinna. Dýrasti tækjabúnaðurinn yrði betur nýttur og aðeins rekinn á einum stað, kostnaðarsöm vaktþjónusta sérþjálfaðs starfsfólks yrði einfölduð og dýrir og óþægilegar flutningar sjúklinga og starfsmanna milli bæjarhluta og húsa legðust af. Jafnframt yrði auðveldara að koma við nauðsynlegri, faglegri sérhæfingu þegar öll flóknustu sjúkdómstilfellin kæmu til rannsóknar og meðferðar á einum stað. Nýtt sjúkrahús yrði sérstaklega hannað til að ná þessum markmiðum um hagkvæmni í rekstri. Rétt er að taka fram að víðtækt samráð hefur verið haft við starfsmenn, fyrrverandi sjúklinga, aðstandendur og ýmsa aðra aðila, bæði innlenda og erlenda, um skipulag húsnæðisins.
Sparnaður í rekstri
Samkvæmt gögnum nefndar um uppbyggingu Landspítala má reikna með 8-12% sparnaði í rekstri með því að sameina slíkan rekstur í nýju húsnæði. Rekstrarkostnaður Landspítalans var um 39 milljarðar króna árið 2008. Þó aðeins náist 10% sparnaður við rekstur í nýju og betra húsnæði verða það 3,9 milljarðar króna. Þessum tölum má síðan snúa við og segja að það kosti 3,9 milljarða á ári að byggja ekki. Óhætt er að bera það saman við þá sparnaðarkröfu sem gerð er til Landspítala samkvæmt síðustu fjárlögum, en nauðsynlegt er talið að draga saman í rekstri um 2,3 milljarða króna á árinu 2009.
Framhaldið?
Nú hefur verið beðið í nærri heilt ár eftir heimild stjórnvalda til að halda áfram undirbúningi að byggingu nýja sjúkrahússins. Næsta verkefni er ljúka hönnun sjálfrar byggingarinnar til að hægt verði að hefja framkvæmdir. Vonir stóðu til að þessi hönnun gæti hafist í apríl 2008 og yrði lokið í október það ár. Hönnunin, með fullvissu um áframhaldandi framkvæmdir, mun verða kærkomið tækifæri fyrir byggingariðnaðinn og veita tugum arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga atvinnu. Fjármunir til að kosta þessa hönnunarvinnu munu þegar liggja fyrir samkvæmt fjárlögum. Heilbrigðisráðherra hefur nýlega lýst því yfir í svari í fyrirspurnatíma á Alþingi að ekki hafi orðið stefnubreyting varðandi nýja sjúkrahúsið. Mikilvægt er að sýnt verði fram á það þegar í stað að þar var alvara á ferðinni en ekki enn eitt kosningaloforðið.Höfundur er læknir á Landspítala.